Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
3 En Móse gætti sauða Jetró tengdaföður síns, prests í Midíanslandi. Og hann hélt fénu vestur yfir eyðimörkina og kom til Guðs fjalls, til Hóreb.
2 Þá birtist honum engill Drottins í eldsloga, sem lagði út af þyrnirunna nokkrum. Og er hann gætti að, sá hann, að þyrnirunninn stóð í ljósum loga, en brann ekki.
3 Þá sagði Móse: "Ég vil ganga nær og sjá þessa miklu sýn, hvað til þess kemur, að þyrnirunninn brennur ekki."
4 En er Drottinn sá, að hann vék þangað til að skoða þetta, þá kallaði Guð til hans úr þyrnirunnanum og sagði: "Móse, Móse!" Hann svaraði: "Hér er ég."
5 Guð sagði: "Gakk ekki hingað! Drag skó þína af fótum þér, því að sá staður, er þú stendur á, er heilög jörð."
6 Því næst mælti hann: "Ég er Guð föður þíns, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs." Þá byrgði Móse andlit sitt, því að hann þorði ekki að líta upp á Guð.
7 Drottinn sagði: "Ég hefi sannlega séð ánauð þjóðar minnar í Egyptalandi og heyrt hversu hún kveinar undan þeim, sem þrælka hana; ég veit, hversu bágt hún á.
8 Ég er ofan farinn til að frelsa hana af hendi Egypta og til að leiða hana úr þessu landi og til þess lands, sem er gott og víðlent, til þess lands, sem flýtur í mjólk og hunangi, á stöðvar Kanaaníta, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta.
9 Nú með því að kvein Ísraelsmanna er komið til mín, og ég auk þess hefi séð, hversu harðlega Egyptar þjaka þeim,
10 þá far þú nú. Ég vil senda þig til Faraós, og þú skalt leiða þjóð mína, Ísraelsmenn, út af Egyptalandi."
11 En Móse sagði við Guð: "Hver er ég, að ég fari til fundar við Faraó og að ég leiði Ísraelsmenn út af Egyptalandi?"
12 Þá sagði hann: "Sannlega mun ég vera með þér. Og það skalt þú til marks hafa, að ég hefi sent þig, að þá er þú hefir leitt fólkið út af Egyptalandi, munuð þér þjóna Guði á þessu fjalli."
13 Móse sagði við Guð: "En þegar ég kem til Ísraelsmanna og segi við þá: ,Guð feðra yðar sendi mig til yðar,` og þeir segja við mig: ,Hvert er nafn hans?` hverju skal ég þá svara þeim?"
14 Þá sagði Guð við Móse: "Ég er sá, sem ég er." Og hann sagði: "Svo skalt þú segja Ísraelsmönnum: ,Ég er` sendi mig til yðar."
15 Guð sagði enn fremur við Móse: "Svo skalt þú segja Ísraelsmönnum: ,Drottinn, Guð feðra yðar, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs sendi mig til yðar.` Þetta er nafn mitt um aldur, og þetta er heiti mitt frá kyni til kyns.
105 Þakkið Drottni, ákallið nafn hans, gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna!
2 Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum, talið um öll hans dásemdarverk.
3 Hrósið yður af hans helga nafni, hjarta þeirra er leita Drottins gleðjist.
4 Leitið Drottins og máttar hans, stundið sífellt eftir augliti hans.
5 Minnist dásemdarverka hans, þeirra er hann gjörði, tákna hans og refsidóma munns hans,
6 þér niðjar Abrahams, þjónar hans, þér synir Jakobs, hans útvöldu.
23 Síðan kom Ísrael til Egyptalands, Jakob var gestur í landi Kams.
24 Og Guð gjörði lýð sinn mjög mannmargan og lét þá verða fleiri en fjendur þeirra.
25 Hann sneri hjörtum Egypta til haturs við lýð sinn, til lævísi við þjóna sína.
26 Hann sendi Móse, þjón sinn, og Aron, er hann hafði útvalið,
45 til þess að þeir skyldu halda lög hans og varðveita lögmál hans. Halelúja.
9 Elskan sé flærðarlaus. Hafið andstyggð á hinu vonda, en haldið fast við hið góða.
10 Sýnið hver öðrum bróðurkærleika og ástúð, og verið hver yðar fyrri til að veita öðrum virðing.
11 Verið ekki hálfvolgir í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið Drottni.
12 Verið glaðir í voninni, þolinmóðir í þjáningunni og staðfastir í bæninni.
13 Takið þátt í þörfum heilagra, stundið gestrisni.
14 Blessið þá, er ofsækja yður, blessið þá, en bölvið þeim ekki.
15 Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum.
16 Berið sama hug til allra, hreykið yður ekki, en haldið yður að hinum lítilmótlegu. Ætlið yður ekki hyggna með sjálfum yður.
17 Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna.
18 Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi.
19 Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því að ritað er: "Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn."
20 En "ef óvin þinn hungrar, þá gef honum að eta, ef hann þyrstir, þá gef honum að drekka. Með því að gjöra þetta, safnar þú glóðum elds á höfuð honum."
21 Lát ekki hið vonda yfirbuga þig, heldur sigra þú illt með góðu.
21 Upp frá þessu tók Jesús að sýna lærisveinum sínum fram á, að hann ætti að fara til Jerúsalem, líða þar margt af hendi öldunga, æðstu presta og fræðimanna og verða líflátinn, en rísa upp á þriðja degi.
22 En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann: "Guð náði þig, herra, þetta má aldrei fyrir þig koma."
23 Jesús sneri sér við og mælti til Péturs: "Vík frá mér, Satan, þú ert mér til ásteytingar, þú hugsar ekki um það, sem Guðs er, heldur það, sem manna er."
24 Þá mælti Jesús við lærisveina sína: "Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér.
25 Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, mun finna það.
26 Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?
27 Mannssonurinn mun koma í dýrð föður síns með englum sínum, og þá mun hann gjalda sérhverjum eftir breytni hans.
28 Sannlega segi ég yður: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Mannssoninn koma í ríki sínu."
by Icelandic Bible Society