Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
135 Halelúja. Lofið nafn Drottins, lofið hann, þér þjónar Drottins,
2 er standið í húsi Drottins, í forgörðum húss Guðs vors.
3 Lofið Drottin, því að Drottinn er góður, leikið fyrir nafni hans, því að það er yndislegt.
4 Því að Drottinn hefir útvalið sér Jakob, gert Ísrael að eign sinni.
5 Já, ég veit, að Drottinn er mikill og að Drottinn vor er öllum guðum æðri.
6 Allt, sem Drottni þóknast, það gjörir hann, á himni og jörðu, í hafinu og öllum djúpunum.
7 Hann lætur skýin uppstíga frá endimörkum jarðar, gjörir eldingarnar til að búa rás regninu, hleypir vindinum út úr forðabúrum hans.
8 Hann laust frumburði Egyptalands, bæði menn og skepnur,
9 sendi tákn og undur yfir Egyptaland, gegn Faraó og öllum þjónum hans.
10 Hann laust margar þjóðir og deyddi volduga konunga:
11 Síhon, Amorítakonung, og Óg, konung í Basan, og öll konungsríki í Kanaan,
12 og gaf lönd þeirra að erfð, að erfð Ísrael, lýð sínum.
13 Drottinn, nafn þitt varir að eilífu, minning þín, Drottinn, frá kyni til kyns,
14 því að Drottinn réttir hlut þjóðar sinnar og aumkast yfir þjóna sína.
15 Skurðgoð þjóðanna eru silfur og gull, handaverk manna.
16 Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,
17 þau hafa eyru, en heyra ekki, og eigi er heldur neinn andardráttur í munni þeirra.
18 Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir, er á þau treysta.
19 Ísraels ætt, lofið Drottin, Arons ætt, lofið Drottin!
20 Leví ætt, lofið Drottin, þér sem óttist Drottin, lofið hann!
21 Lofaður sé Drottinn frá Síon, hann sem býr í Jerúsalem! Halelúja.
8 Það var á sjötta ári, fimmta dag hins sjötta mánaðar, þá er ég sat í húsi mínu, og öldungar Júda sátu frammi fyrir mér, að hönd Drottins Guðs kom þar yfir mig.
2 Og ég sá, og sjá, þar var mynd, ásýndum sem maður. Þar í frá, sem mér þóttu lendar hans vera, og niður eftir, var eins og eldur, en frá lendum hans og upp eftir var að sjá sem bjarma, eins og ljómaði af lýsigulli.
3 Og hann rétti út líkast sem hönd væri og tók í höfuðhár mitt, og andinn hóf mig upp milli himins og jarðar og flutti mig til Jerúsalem í guðlegri sýn, að dyrum innra hliðsins, er snýr mót norðri, þar er líkansúlan stóð, sú er vakti afbrýði Drottins.
4 Og sjá, þar var dýrð Ísraels Guðs, alveg eins og í sýn þeirri, er ég hafði séð í dalnum.
5 Hann sagði við mig: "Mannsson, hef upp augu þín og lít í norðurátt!" Og ég hóf upp augu mín og leit í norðurátt. Stóð þá þessi líkansúla, sem afbrýði vakti, norðan megin við altarishliðið, rétt þar sem inn er gengið.
6 Og hann sagði við mig: "Mannsson, sér þú, hvað þeir eru að gjöra? Miklar svívirðingar eru það, sem Ísraelsmenn hafa hér í frammi, svo að ég verð að vera fjarri helgidómi mínum, en þú munt enn sjá miklar svívirðingar."
7 Hann leiddi mig að dyrum forgarðsins. Og er ég leit á, var þar gat eitt á veggnum.
8 Og hann sagði við mig: "Mannsson, brjót þú gat í gegnum vegginn." Og er ég braut gat í gegnum vegginn, þá voru þar dyr.
9 Og hann sagði við mig: "Gakk inn og sjá hinar vondu svívirðingar, sem þeir hafa hér í frammi."
10 Ég gekk inn og litaðist um. Voru þar ristar allt umhverfis á vegginn alls konar myndir viðbjóðslegra orma og skepna og öll skurðgoð Ísraelsmanna.
11 Og þar voru sjötíu menn af öldungum Ísraels húss og Jaasanja Safansson mitt á meðal þeirra svo sem forstjóri þeirra, og hélt hver þeirra á reykelsiskeri í hendi sér og sté þar upp af ilmandi reykelsismökkur.
12 Og hann sagði við mig: "Hefir þú séð, mannsson, hvað öldungar Ísraels húss hafast að í myrkrinu, hver í sínum myndaherbergjum? Því að þeir hugsa: ,Drottinn sér oss ekki, Drottinn hefir yfirgefið landið."`
13 Því næst sagði hann við mig: "Þú munt enn sjá miklar svívirðingar, er þeir hafa í frammi."
14 Hann leiddi mig að dyrunum á norðurhliði musteris Drottins. Þar sátu konurnar, þær er grétu Tammús.
15 Og hann sagði við mig: "Sér þú það, mannsson? Þú munt enn sjá svívirðingar, sem meiri eru en þessar."
16 Hann leiddi mig inn í innra forgarð húss Drottins, og voru þá þar fyrir dyrum musteris Drottins, milli forsalsins og altarisins, um tuttugu og fimm menn. Sneru þeir bökum við musteri Drottins, en ásjónum sínum í austur, og tilbáðu sólina í austri.
17 Og hann sagði við mig: "Sér þú það, mannsson? Nægir Júdamönnum það eigi að hafa í frammi þær svívirðingar, sem þeir hér fremja, þó að þeir ekki þar á ofan fylli landið með glæp og reiti mig hvað eftir annað til reiði? Sjá, hversu þeir halda vöndlinum upp að nösum sér.
18 Fyrir því vil ég og fara mínu fram í reiði: Ég vil ekki líta þá vægðarauga og enga meðaumkun sýna. Og þótt þeir þá kalli hárri röddu í eyru mín, þá mun ég ekki heyra þá."
26 En engill Drottins mælti til Filippusar: "Statt upp og gakk suður á veginn, sem liggur ofan frá Jerúsalem til Gasa." Þar er óbyggð.
27 Hann hlýddi og fór. Þá bar að mann frá Eþíópíu. Hann var hirðmaður og höfðingi hjá Kandake, drottningu Eþíópa, og settur yfir alla fjárhirslu hennar. Hann hafði farið til Jerúsalem til að biðjast fyrir
28 og var á heimleið, sat í vagni sínum og las Jesaja spámann.
29 Andinn sagði þá við Filippus: "Gakk að þessum vagni og vertu sem næst honum."
30 Filippus skundaði þangað og heyrði manninn vera að lesa Jesaja spámann. Hann spurði: "Hvort skilur þú það, sem þú ert að lesa?"
31 Hinn svaraði: "Hvernig ætti ég að geta það, ef enginn leiðbeinir mér?" Og hann bað Filippus stíga upp í og setjast hjá sér.
32 En orð þeirrar ritningar, sem hann var að lesa, voru þessi: Eins og sauður til slátrunar leiddur, og sem lamb þegir hjá þeim, er klippir það, svo lauk hann ekki upp munni sínum.
33 Í niðurlægingunni var hann sviptur rétti. Hver getur sagt frá ætt hans? Því að líf hans var hrifið burt af jörðinni.
34 Hirðmaðurinn mælti þá við Filippus: "Seg þú mér: Um hvern segir spámaðurinn þetta, sjálfan sig eða einhvern annan?"
35 Filippus tók þá til orða, hóf máls á ritningu þessari og boðaði honum fagnaðarerindið um Jesú.
36 Þegar þeir fóru áfram veginn, komu þeir að vatni nokkru. Þá mælti hirðmaðurinn: "Hér er vatn, hvað hamlar mér að skírast?"
38 Hann lét stöðva vagninn, og stigu báðir niður í vatnið, Filippus og hirðmaðurinn, og Filippus skírði hann.
39 En er þeir stigu upp úr vatninu, hreif andi Drottins Filippus burt. Hirðmaðurinn sá hann ekki framar og fór fagnandi leiðar sinnar.
40 En Filippus kom fram í Asdód, fór um og flutti fagnaðarerindið í hverri borg, uns hann kom til Sesareu.
by Icelandic Bible Society