Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
96 Syngið Drottni nýjan söng, syngið Drottni öll lönd!
2 Syngið Drottni, lofið nafn hans, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.
3 Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða.
4 Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, óttalegur er hann öllum guðum framar.
5 Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en Drottinn hefir gjört himininn.
6 Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans, máttur og prýði í helgidómi hans.
7 Tjáið Drottni lof, þér kynkvíslir þjóða, tjáið Drottni vegsemd og vald.
8 Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, færið gjafir og komið til forgarða hans,
9 fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða, titrið fyrir honum, öll lönd!
10 Segið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki, hann dæmir þjóðirnar með réttvísi.
11 Himinninn gleðjist og jörðin fagni, hafið drynji og allt sem í því er,
12 foldin fagni og allt sem á henni er, öll tré skógarins kveði fagnaðaróp,
13 fyrir Drottni, því að hann kemur, hann kemur til þess að dæma jörðina. Hann mun dæma heiminn með réttlæti og þjóðirnar eftir trúfesti sinni.
29 Akab, sonur Omrí, varð konungur yfir Ísrael á þrítugasta og áttunda ríkisári Asa, konungs í Júda, og hann ríkti yfir Ísrael í Samaríu tuttugu og tvö ár.
30 Akab, sonur Omrí, gjörði það sem illt var í augum Drottins, og hegðaði sér verr en allir þeir, sem verið höfðu á undan honum.
31 Og hann lét sér ekki nægja að drýgja sömu syndirnar og Jeróbóam Nebatsson, heldur gekk hann að eiga Jesebel, dóttur Etbaals Sídoningakonungs. Fór hann þá og þjónaði Baal og tilbað hann.
32 Og hann reisti Baal altari í musteri Baals, er hann hafði gjöra látið í Samaríu.
33 Akab lét og gjöra aséru. Og hann gjörði enn fleira til að egna Drottin, Guð Ísraels, til reiði, framar öllum Ísraelskonungum, sem á undan honum höfðu verið.
34 Á hans dögum reisti Híel frá Betel Jeríkó að nýju. Missti hann frumgetning sinn, Abíram, er hann lagði undirstöður hennar, og yngsta son sinn, Segúb, er hann reisti hlið hennar. Var það samkvæmt orði Drottins, því er hann hafði talað fyrir munn Jósúa Núnssonar.
11 Ó að þér vilduð umbera dálitla fávisku hjá mér! Jú, vissulega umberið þér mig.
2 Ég vakti yfir yður með afbrýði Guðs, því að ég hef fastnað yður einum manni, Kristi, og vil leiða fram fyrir hann hreina mey.
3 En ég er hræddur um, að eins og höggormurinn tældi Evu með flærð sinni, svo kunni og hugsanir yðar að spillast og leiðast burt frá einlægri og hreinni tryggð við Krist.
4 Því að ef einhver kemur og prédikar annan Jesú en vér höfum prédikað, eða þér fáið annan anda en þér hafið fengið, eða annað fagnaðarerindi en þér hafið tekið á móti, þá umberið þér það mætavel.
5 Ég álít mig þó ekki í neinu standa hinum stórmiklu postulum að baki.
6 Þótt mig bresti mælsku, brestur mig samt ekki þekkingu og vér höfum á allan hátt birt yður hana í öllum greinum.
by Icelandic Bible Society