Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
96 Syngið Drottni nýjan söng, syngið Drottni öll lönd!
2 Syngið Drottni, lofið nafn hans, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.
3 Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða.
4 Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, óttalegur er hann öllum guðum framar.
5 Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en Drottinn hefir gjört himininn.
6 Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans, máttur og prýði í helgidómi hans.
7 Tjáið Drottni lof, þér kynkvíslir þjóða, tjáið Drottni vegsemd og vald.
8 Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, færið gjafir og komið til forgarða hans,
9 fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða, titrið fyrir honum, öll lönd!
10 Segið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki, hann dæmir þjóðirnar með réttvísi.
11 Himinninn gleðjist og jörðin fagni, hafið drynji og allt sem í því er,
12 foldin fagni og allt sem á henni er, öll tré skógarins kveði fagnaðaróp,
13 fyrir Drottni, því að hann kemur, hann kemur til þess að dæma jörðina. Hann mun dæma heiminn með réttlæti og þjóðirnar eftir trúfesti sinni.
20 Þegar Ísraelslýður heyrði, að Jeróbóam væri aftur kominn, sendu þeir og kölluðu hann á þingið og tóku hann til konungs yfir allan Ísrael. En enginn fylgdi Davíðsætt, nema Júda-ættkvísl ein.
21 Er Rehabeam kom til Jerúsalem, safnaði hann saman öllum Júdamönnum og Benjamíns-ættkvísl, hundrað og áttatíu þúsundum einvalaliðs, til þess að berjast við Ísraelsríki og ná konungdóminum aftur undir Rehabeam, son Salómons.
22 En orð Guðs kom til Semaja guðsmanns, svolátandi:
23 "Tala þú svo til Rehabeams, sonar Salómons, konungs í Júda, og til Júdamanna og Benjamíns-ættkvíslar og til alls hins lýðsins:
24 Svo segir Drottinn: Farið eigi og berjist eigi við bræður yðar Ísraelsmenn. Fari hver heim til sín, því að að minni tilhlutun er þetta orðið." Og er þeir heyrðu orð Drottins, hurfu þeir aftur, eins og Drottinn bauð.
25 Jeróbóam víggirti Síkem á Efraímfjöllum og settist þar að. Þaðan fór hann og víggirti Penúel.
26 Og Jeróbóam hugsaði með sér: "Nú mun konungdómurinn aftur hverfa undir Davíðsætt.
27 Ef lýður þessi fer upp til Jerúsalem til þess að færa sláturfórnir í musteri Drottins, þá mun hjarta lýðs þessa aftur hverfa til Rehabeams Júdakonungs, herra hans, en mig munu þeir myrða og ganga svo aftur á hönd Rehabeam Júdakonungi."
28 Þá hugsaði konungur ráð sitt, lét gjöra tvo gullkálfa og mælti til lýðsins: "Nógu lengi hafið þér farið upp til Jerúsalem. Sjá, hér er guð þinn, Ísrael, sá er leiddi þig út af Egyptalandi."
29 Setti hann annan í Betel, en hinn setti hann í Dan.
30 En þetta varð til syndar, og lýðurinn gekk fram fyrir annan þeirra alla leið til Dan.
31 Hann gjörði og hof á hæðunum og gjörði að prestum óvalda menn, er ekki voru niðjar Leví.
32 Og Jeróbóam setti hátíð fimmtánda dag hins áttunda mánaðar, eins og hátíðina, sem haldin var í Júda, og hann gekk upp að altarinu. Þannig gjörði hann í Betel til þess að færa fórnir kálfunum, er hann hafði gjöra látið, og hann setti hæðaprestana, er hann hafði skipað, til þjónustu í Betel.
33 Jeróbóam gekk upp að altarinu, er hann hafði gjöra látið í Betel á fimmtánda degi hins áttunda mánaðar, í þeim mánuði er hann hafði ákveðið að eigin geðþótta til hátíðahalds fyrir Ísraelsmenn. Hann gekk upp að altarinu til þess að færa reykelsisfórn.
11 Með því að vér nú vitum, hvað það er að óttast Drottin, leitumst vér við að sannfæra menn. En Guði erum vér kunnir orðnir, já, ég vona, að vér séum einnig kunnir orðnir yður í hjörtum yðar.
12 Ekki erum vér enn að mæla með sjálfum oss við yður, heldur gefum vér yður tilefni til að miklast af oss, til þess að þér hafið eitthvað gagnvart þeim, er miklast af hinu ytra, en ekki af hjartaþelinu.
13 Því að hvort sem vér höfum orðið frávita, þá var það vegna Guðs, eða vér erum með sjálfum oss, þá er það vegna yðar.
14 Kærleiki Krists knýr oss,
15 því að vér höfum ályktað svo: Ef einn er dáinn fyrir alla, þá eru þeir allir dánir. Og hann er dáinn fyrir alla, til þess að þeir, sem lifa, lifi ekki framar sjálfum sér, heldur honum, sem fyrir þá er dáinn og upprisinn.
16 Þannig metum vér héðan í frá engan að mannlegum hætti. Þótt vér og höfum þekkt Krist að mannlegum hætti, þekkjum vér hann nú ekki framar þannig.
17 Ef einhver er í Kristi, er hann skapaður á ný, hið gamla varð að engu, sjá, nýtt er orðið til.
by Icelandic Bible Society