Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri bók konunganna 21:1-10

21 Eftir þetta bar það til, er nú skal greina: Nabót Jesreelíti átti víngarð í Jesreel, rétt hjá höll Akabs konungs í Samaríu.

Og Akab kom að máli við Nabót og sagði: "Lát mig fá víngarð þinn, að ég megi hafa hann að matjurtagarði, því að hann er í nánd við hús mitt, og ég skal láta þig fá fyrir hann betri víngarð, eða, ef þú vilt það heldur, þá skal ég greiða þér andvirði hans í peningum."

En Nabót sagði við Akab: "Drottinn forði mér frá að farga til þín arfleifð feðra minna."

Þá kom Akab heim í höll sína, hryggur og reiður út af því, sem Nabót Jesreelíti hafði sagt við hann, er hann mælti: ,Ég farga ekki til þín arfleifð feðra minna.` Og hann lagðist í rekkju og sneri sér til veggjar og neytti eigi matar.

Þá kom Jesebel kona hans til hans og sagði við hann: "Hví ert þú svo hryggur í skapi, að þú vilt ekki matar neyta?"

Hann svaraði henni: "Komi ég að máli við Nabót Jesreelíta og segi við hann: ,Lát mig fá víngarð þinn fyrir peninga, eða, ef þú vilt það heldur, þá skal ég láta þig fá fyrir hann annan víngarð,` þá segir hann: ,Ég farga ekki víngarði mínum til þín."`

Þá mælti Jesebel kona hans við hann: "Ert þú sá, sem nú hefir konungsvald í Ísrael? Rís þú upp, neyt matar og lát liggja vel á þér. Ég skal útvega þér víngarð Nabóts Jesreelíta."

Síðan skrifaði hún bréf undir nafni Akabs og innsiglaði það með innsigli hans og sendi bréfið til öldunga og tignarmanna borgar Nabóts, samborgarmanna hans.

En í bréfinu skrifaði hún á þessa leið: "Látið boða föstu og látið Nabót sitja efstan meðal fólksins,

10 og látið tvö varmenni sitja gegnt honum, er vitni gegn honum, og segi: ,Þú hefir lastmælt Guði og konunginum!` Leiðið hann síðan út og grýtið hann til bana."

Fyrri bók konunganna 21:11-14

11 Og samborgarmenn hans, öldungarnir og tignarmennirnir, sem bjuggu í borg hans, gjörðu eins og Jesebel hafði gjört þeim boð um, eins og skrifað var í bréfinu, sem hún hafði sent þeim.

12 Þeir létu boða föstu og létu Nabót sitja efstan meðal fólksins.

13 Síðan komu varmennin tvö og settust gegnt honum. Og varmennin vitnuðu gegn Nabót í áheyrn fólksins og sögðu: "Nabót hefir lastmælt Guði og konunginum." Og þeir leiddu hann út fyrir borgina og lömdu hann grjóti til bana.

14 Síðan sendu þeir til Jesebelar og létu segja: "Nabót var grýttur og er dauður."

Fyrri bók konunganna 21:15-21

15 Þegar Jesebel heyrði, að Nabót hefði grýttur verið og væri dauður, þá sagði hún við Akab: "Rís nú á fætur og kasta eign þinni á víngarð Nabóts Jesreelíta, sem hann vildi eigi láta falan við þig fyrir peninga, því að Nabót er nú ekki á lífi, heldur er hann dauður."

16 Og er Akab heyrði, að Nabót væri dauður, reis hann á fætur og fór ofan í víngarð Nabóts Jesreelíta til þess að kasta á hann eign sinni.

17 En orð Drottins kom til Elía Tisbíta, svolátandi:

18 "Tak þú þig upp, far ofan eftir, til fundar við Akab Ísraelskonung, sem býr í Samaríu. Hann er nú í víngarði Nabóts. Er hann farinn þangað ofan til þess að kasta á hann eign sinni.

19 Mæl þú til hans á þessa leið: ,Svo segir Drottinn: Hefir þú myrt og líka tekið eignina?` Og mæl enn fremur til hans: ,Svo segir Drottinn: Þar sem hundarnir sleiktu blóð Nabóts, þar skulu og hundar sleikja þitt blóð."`

20 Og Akab sagði við Elía: "Hefir þú fundið mig, fjandmaður minn?" Hann svaraði: "Hefi ég víst. Af því að þú hefir ofurselt þig til að gjöra það, sem illt er í augum Drottins,

21 þá leiði ég ógæfu yfir þig og sópa þér burt og uppræti hvern karlmann af ætt Akabs, bæði þræl og frelsingja í Ísrael.

Sálmarnir 5:1-8

Til söngstjórans. Með hljóðpípu. Davíðssálmur.

Heyr orð mín, Drottinn, gef gaum að andvörpum mínum.

Hlýð þú á kveinstafi mína, konungur minn og Guð minn, því að til þín bið ég.

Drottinn, á morgnana heyrir þú rödd mína, á morgnana legg ég bæn mína fram fyrir þig, og ég bíð þín.

Þú ert eigi sá Guð, er óguðlegt athæfi líki, hinir vondu fá eigi að dveljast hjá þér.

Hinir hrokafullu fá eigi staðist fyrir þér, þú hatar alla er illt gjöra.

Þú tortímir þeim, sem lygar mæla, á blóðvörgum og svikurum hefir Drottinn andstyggð.

En ég fæ að ganga í hús þitt fyrir mikla miskunn þína, fæ að falla fram fyrir þínu heilaga musteri í ótta frammi fyrir þér.

Bréf Páls til Galatamanna 2:15-21

15 Vér erum fæddir Gyðingar, ekki syndarar af heiðnu bergi brotnir.

16 En vér vitum, að maðurinn réttlætist ekki af lögmálsverkum, heldur fyrir trú á Jesú Krist. Og vér tókum trú á Krist Jesú, til þess að vér réttlættumst af trú á Krist, en ekki af lögmálsverkum. Enda réttlætist enginn lifandi maður af lögmálsverkum.

17 En ef vér nú sjálfir reynumst syndarar þegar vér leitumst við að réttlætast í Kristi, er þá Kristur orðinn þjónn syndarinnar? Fjarri fer því.

18 Fari ég að byggja upp aftur það, sem ég braut niður, þá sýni ég og sanna, að ég er sjálfur brotlegur.

19 Því að af völdum lögmálsins er ég dáinn lögmálinu til þess að lifa Guði.

20 Ég er krossfestur með Kristi. Sjálfur lifi ég ekki framar, heldur lifir Kristur í mér. Lífinu, sem ég lifi nú hér á jörð, lifi ég í trúnni á Guðs son, sem elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.

21 Ég ónýti ekki náð Guðs. Ef réttlæting fæst fyrir lögmál, þá hefur Kristur dáið til einskis.

Lúkasarguðspjall 7:36-8:3

36 Farísei nokkur bauð honum að eta hjá sér, og hann fór inn í hús faríseans og settist til borðs.

37 En kona ein í bænum, sem var bersyndug, varð þess vís, að hann sat að borði í húsi faríseans. Kom hún þá með alabastursbuðk með smyrslum,

38 nam staðar að baki honum til fóta hans grátandi, tók að væta fætur hans með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu, kyssti þá og smurði með smyrslunum.

39 Þegar faríseinn, sem honum hafði boðið, sá þetta, sagði hann við sjálfan sig: "Væri þetta spámaður, mundi hann vita, hver og hvílík sú kona er, sem snertir hann, að hún er bersyndug."

40 Jesús sagði þá við hann: "Símon, ég hef nokkuð að segja þér." Hann svaraði: "Seg þú það, meistari."

41 "Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum. Annar skuldaði honum fimm hundruð denara, en hinn fimmtíu.

42 Nú gátu þeir ekkert borgað, og þá gaf hann báðum upp. Hvor þeirra skyldi nú elska hann meira?"

43 Símon svaraði: "Sá, hygg ég, sem hann gaf meira upp." Jesús sagði við hann: "Þú ályktaðir rétt."

44 Síðan sneri hann sér að konunni og sagði við Símon: "Sér þú konu þessa? Ég kom í hús þitt, og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína, en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði með hári sínu.

45 Ekki gafst þú mér koss, en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína, allt frá því ég kom.

46 Ekki smurðir þú höfuð mitt olíu, en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum.

47 Þess vegna segi ég þér: Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar, enda elskar hún mikið, en sá elskar lítið, sem lítið er fyrirgefið."

48 Síðan sagði hann við hana: "Syndir þínar eru fyrirgefnar."

49 Þá tóku þeir, sem til borðs sátu með honum, að segja með sjálfum sér: "Hver er sá, er fyrirgefur syndir?"

50 En hann sagði við konuna: "Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði."

Eftir þetta fór hann um, borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki. Með honum voru þeir tólf

og konur nokkrar, er læknaðar höfðu verið af illum öndum og sjúkdómum. Það voru þær María, kölluð Magdalena, er sjö illir andar höfðu farið úr,

Jóhanna, kona Kúsa, ráðsmanns Heródesar, Súsanna og margar aðrar. Þær hjálpuðu þeim með fjármunum sínum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society