Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
68 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð.
2 Guð rís upp, óvinir hans tvístrast, þeir sem hata hann flýja fyrir augliti hans.
3 Eins og reykur eyðist, eyðast þeir, eins og vax bráðnar í eldi, tortímast óguðlegir fyrir augliti Guðs.
4 En réttlátir gleðjast, fagna fyrir augliti Guðs og kætast stórum.
5 Syngið fyrir Guði, vegsamið nafn hans, leggið braut fyrir hann er ekur gegnum öræfin. Drottinn heitir hann, fagnið fyrir augliti hans.
6 Hann er faðir föðurlausra, vörður ekknanna, Guð í sínum heilaga bústað.
7 Guð lætur hina einmana hverfa heim aftur, hann leiðir hina fjötruðu út til hamingju, en uppreisnarseggir skulu búa í hrjóstrugu landi.
8 Ó Guð, þegar þú fórst út á undan lýð þínum, þegar þú brunaðir fram um öræfin, [Sela]
9 þá nötraði jörðin, og himnarnir drupu fyrir Guði, Drottni frá Sínaí, fyrir Guði, Ísraels Guði.
10 Ríkulegu regni dreyptir þú, ó Guð, á arfleifð þína, það sem vanmegnaðist, styrktir þú.
19 Þú steigst upp til hæða, hafðir á burt bandingja, tókst við gjöfum frá mönnum, jafnvel uppreisnarmönnum, að þú, Drottinn, Guð, mættir búa þar.
20 Lofaður sé Drottinn, er ber oss dag eftir dag, Guð er hjálpráð vort. [Sela]
22 Þá svaraði Elífas frá Teman og sagði:
2 Vinnur maðurinn Guði gagn? Nei, sjálfum sér vinnur vitur maður gagn.
3 Er það ábati fyrir hinn Almáttka, að þú ert réttlátur, eða ávinningur, að þú lifir grandvöru lífi?
4 Er það vegna guðsótta þíns, að hann refsar þér, að hann dregur þig fyrir dóm?
5 Er ekki vonska þín mikil og misgjörðir þínar óþrjótandi?
6 Því að þú tókst veð af bræðrum þínum að ástæðulausu og færðir fáklædda menn úr flíkum þeirra.
7 Þú gafst ekki hinum örmagna vatn að drekka, og hinum hungraða synjaðir þú brauðs.
8 En hinn voldugi átti landið, og virðingarmaðurinn bjó í því.
9 Ekkjur lést þú fara burt tómhentar, og armleggir munaðarleysingjanna voru brotnir sundur.
10 Fyrir því eru snörur allt í kringum þig, og fyrir því skelfir ótti þig skyndilega!
11 Eða sér þú ekki myrkrið og vatnaflauminn, sem hylur þig?
12 Er ekki Guð himinhár? og lít þú á hvirfil stjarnanna, hve hátt þær gnæfa!
13 Og þú segir: "Hvað veit Guð? Getur hann dæmt gegnum skýsortann?
14 Skýin skyggja á hann, svo að hann sér ekki, og hann gengur á himinhvelfingunni."
15 Ætlar þú að halda fortíðar leið, þá er ranglátir menn hafa farið?
16 Þeir er kippt var burt fyrir tímann og grundvöllur þeirra skolaðist burt sem straumur,
17 þeir er sögðu við Guð: "Vík frá oss! og hvað gæti hinn Almáttki gjört fyrir oss?"
18 og það þó hann fyllti hús þeirra blessun. _ Hugarfar óguðlegra sé fjarri mér!
19 Hinir réttlátu sjá það og gleðjast, og hinn saklausi gjörir gys að þeim:
20 "Vissulega er andstæðingur vor að engu orðinn, og eldurinn hefir eytt leifum þeirra."
2 Síðan fór ég að fjórtán árum liðnum aftur upp til Jerúsalem ásamt Barnabasi og tók líka Títus með mér.
2 Ég fór þangað eftir opinberun og lagði fram fyrir þá fagnaðarerindið, sem ég prédika meðal heiðingjanna. Ég lagði það einslega fyrir þá, sem í áliti voru; það mátti eigi henda, að ég hlypi og hefði hlaupið til einskis.
3 En ekki var einu sinni Títus, sem með mér var og var grískur maður, neyddur til að láta umskerast.
4 Það hefði þá verið fyrir tilverknað falsbræðranna, er illu heilli hafði verið hleypt inn og laumast höfðu inn til að njósna um frelsi vort, það er vér höfum í Kristi Jesú, til þess að þeir gætu hneppt oss í þrældóm.
5 Undan þeim létum vér ekki einu sinni eitt andartak, til þess að sannleiki fagnaðarerindisins skyldi haldast við hjá yður.
6 Og þeir, sem í áliti voru, _ hvað þeir einu sinni voru, skiptir mig engu, Guð fer ekki í manngreinarálit, _ þeir, sem í áliti voru, lögðu ekkert frekara fyrir mig.
7 Þvert á móti, þeir sáu, að mér var trúað fyrir fagnaðarerindinu til óumskorinna manna, eins og Pétri til umskorinna,
8 því að sá, sem hefur eflt Pétur til postuladóms meðal hinna umskornu, hefur einnig eflt mig til postuladóms meðal heiðingjanna.
9 Og er þeir höfðu komist að raun um, hvílík náð mér var veitt, þá réttu þeir Jakob, Kefas og Jóhannes, sem álitnir voru máttarstólparnir, mér og Barnabasi hönd sína til bræðralags: Við skyldum fara til heiðingjanna, en þeir til hinna umskornu.
10 Það eitt var til skilið, að við skyldum minnast hinna fátæku, og einmitt þetta hef ég líka kappkostað að gjöra.
by Icelandic Bible Society