Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
146 Halelúja. Lofa þú Drottin, sála mín!
2 Ég vil lofa Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum, meðan ég er til.
3 Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.
4 Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.
5 Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar, sá er setur von sína á Drottin, Guð sinn,
6 hann sem skapað hefir himin og jörð, hafið og allt sem í því er, hann sem varðveitir trúfesti sína að eilífu,
7 sem rekur réttar kúgaðra og veitir brauð hungruðum. Drottinn leysir hina bundnu,
8 Drottinn opnar augu blindra, Drottinn reisir upp niðurbeygða, Drottinn elskar réttláta.
9 Drottinn varðveitir útlendingana, hann annast ekkjur og föðurlausa, en óguðlega lætur hann fara villa vegar.
10 Drottinn er konungur að eilífu, hann er Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns. Halelúja.
29 Þannig skalt þú að fara, er þú vígir þá til þess að þjóna mér í prestsembætti: Tak eitt ungneyti og tvo hrúta gallalausa,
2 ósýrt brauð og ósýrðar kökur olíublandaðar og ósýrð flatbrauð olíusmurð. Skalt þú gjöra þau af fínu hveitimjöli.
3 Því næst skalt þú láta þau í eina körfu og koma með þau í körfunni, ásamt uxanum og báðum hrútunum.
4 Þú skalt koma með Aron og sonu hans að dyrum samfundatjaldsins og lauga þá í vatni.
5 Síðan skalt þú taka klæðin og skrýða Aron kyrtlinum, hökulmöttlinum, höklinum og brjóstskildinum, og gyrða hann hökullindanum.
6 Þá skalt þú setja vefjarhöttinn á höfuð honum og festa hið heilaga ennishlað á vefjarhöttinn.
7 Þá skalt þú taka smurningarolíuna og hella henni yfir höfuð honum og smyrja hann.
8 Síðan skalt þú leiða fram sonu hans og færa þá í kyrtla,
9 gyrða þá beltum, bæði Aron og sonu hans, og binda á þá höfuðdúka, að þeir hafi prestdóm eftir ævarandi lögmáli, og þú skalt fylla hönd Arons og hönd sona hans.
6 En á leiðinni, er ég nálgaðist Damaskus, bar svo við um hádegisbil, að ljós mikið af himni leiftraði skyndilega um mig.
7 Ég féll til jarðar og heyrði raust, er sagði við mig: ,Sál, Sál, hví ofsækir þú mig?`
8 Ég svaraði: ,Hver ert þú, herra?` Og hann sagði við mig: ,Ég er Jesús frá Nasaret, sem þú ofsækir.`
9 Þeir, sem með mér voru, sáu ljósið, en raust þess, er við mig talaði, heyrðu þeir ekki.
10 Þá sagði ég: ,Hvað á ég að gjöra, herra?` En Drottinn sagði við mig: ,Rís upp og far til Damaskus. Þar mun þér verða sagt allt, sem þér er ætlað að gjöra.`
11 En með því að ég var blindaður af ljóma þessa ljóss, urðu förunautar mínir að leiða mig, og þannig komst ég til Damaskus.
12 En Ananías nokkur, maður guðrækinn eftir lögmálinu og í góðum metum hjá öllum Gyðingum, er þar bjuggu,
13 kom til mín, nam staðar hjá mér og sagði: ,Sál, bróðir, fá þú aftur sjón þína!` Á sömu stundu fékk ég sjónina og sá hann.
14 En hann sagði: ,Guð feðra vorra hefur útvalið þig til að þekkja vilja sinn, að sjá hinn réttláta og heyra raustina af munni hans.
15 Því að þú skalt honum vottur vera hjá öllum mönnum um það, sem þú hefur séð og heyrt.
16 Hvað dvelur þig nú? Rís upp, ákalla nafn hans og lát skírast og laugast af syndum þínum.`
17 En þegar ég var kominn aftur til Jerúsalem og baðst fyrir í helgidóminum, varð ég frá mér numinn
18 og sá hann, og hann sagði við mig: ,Flýt þér og far sem skjótast burt úr Jerúsalem, því að þeir munu ekki veita viðtöku vitnisburði þínum um mig.`
19 Ég sagði: ,Drottinn, þeir vita, að ég hef verið að hneppa í fangelsi þá, sem trúðu á þig, og láta húðstrýkja þá í samkunduhúsunum.
20 Og þegar úthellt var blóði Stefáns, vottar þíns, stóð ég sjálfur þar hjá og lét mér vel líka og varðveitti klæði þeirra, sem tóku hann af lífi.`
21 Hann sagði við mig: ,Far þú, því að ég mun senda þig til heiðingja langt í burtu."`
by Icelandic Bible Society