Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Complementary)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with thematically matched Old and New Testament readings.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri Samúelsbók 2:1-10

Hanna gjörði bæn sína og mælti: Hjarta mitt fagnar í Drottni, horn mitt er hátt upp hafið fyrir fulltingi Guðs míns. Munnur minn er upp lokinn gegn óvinum mínum, því að ég gleðst yfir þinni hjálp.

Enginn er heilagur sem Drottinn, því að enginn er til nema þú, ekkert bjarg er til sem vor Guð.

Mælið eigi án afláts drambyrði, ósvífni komi eigi út af munni yðar. Því að Drottinn er Guð, sem allt veit, og af honum eru verkin vegin.

Bogi kappanna er sundur brotinn, en máttfarnir menn gyrðast styrkleika.

Mettir leigja sig fyrir brauð, en hungraðir njóta hvíldar. Óbyrjan fæðir jafnvel sjö, en margra barna móðirin mornar og þornar.

Drottinn deyðir og lífgar, færir til Heljar niður og leiðir upp þaðan.

Drottinn gjörir fátækan og ríkan, niðurlægir og upphefur.

Hann reisir hinn lítilmótlega úr duftinu, lyftir hinum snauða upp úr skarninu, leiðir þá til sætis hjá þjóðhöfðingjum og setur þá á tignarstól. Því að Drottni heyra stólpar jarðarinnar, á þá setti hann jarðríkið.

Fætur sinna guðhræddu varðveitir hann, en hinir guðlausu farast í myrkri, því að fyrir eigin mátt sigrar enginn.

10 Þeir sem berjast móti Drottni, verða sundur molaðir, hann lætur þrumur af himni koma yfir þá. Drottinn dæmir endimörk jarðarinnar. Hann veitir kraft konungi sínum og lyftir upp horni síns smurða.

Fyrsta bók Móse 37:2-11

Þetta er ættarsaga Jakobs. Þegar Jósef var seytján ára gamall, gætti hann sauða með bræðrum sínum. En hann var smásveinn hjá þeim sonum Bílu og sonum Silpu, er voru konur föður hans. Og Jósef bar föður sínum illan orðróm um þá.

Ísrael unni Jósef mest allra sona sinna, því að hann hafði átt hann í elli sinni. Og hann lét gjöra honum dragkyrtil.

En er bræður hans sáu, að faðir þeirra elskaði hann meir en alla sonu sína, lögðu þeir hatur á hann og gátu ekki talað við hann vinsamlegt orð.

Jósef dreymdi draum og sagði hann bræðrum sínum. Hötuðu þeir hann þá enn meir.

Og hann sagði við þá: "Heyrið nú draum þennan, sem mig dreymdi:

Sjá, vér vorum að binda kornbundin á akrinum, og mitt kornbundin reisti sig og stóð upprétt, en yðar kornbundin skipuðu sér umhverfis og lutu mínu kornbundini."

Þá sögðu bræður hans við hann: "Munt þú þá verða konungur yfir oss? Munt þú þá drottna yfir oss?" Og þeir hötuðu hann enn meir sakir drauma hans og sakir orða hans.

Enn dreymdi hann annan draum og sagði hann bræðrum sínum og mælti: "Sjá, mig hefir enn dreymt draum: Mér þótti sólin, tunglið og ellefu stjörnur lúta mér."

10 En er hann sagði föður sínum og bræðrum frá þessu, ávítti faðir hans hann og mælti til hans: "Hvaða draumur er þetta, sem þig hefir dreymt? Munum vér eiga að koma, ég og móðir þín og bræður þínir, og lúta til jarðar fyrir þér?"

11 Og bræður hans öfunduðu hann, en faðir hans festi þetta í huga sér.

Matteusarguðspjall 1:1-17

Ættartala Jesú Krists, sonar Davíðs, sonar Abrahams.

Abraham gat Ísak, Ísak gat Jakob, Jakob gat Júda og bræður hans.

Júda gat Peres og Sara við Tamar, Peres gat Esrom, Esrom gat Ram,

Ram gat Ammínadab, Ammínadab gat Nakson, Nakson gat Salmon,

Salmon gat Bóas við Rahab, og Bóas gat Óbeð við Rut. Óbeð gat Ísaí,

og Ísaí gat Davíð konung. Davíð gat Salómon við konu Úría,

Salómon gat Róbóam, Róbóam gat Abía, Abía gat Asaf,

Asaf gat Jósafat, Jósafat gat Jóram, Jóram gat Ússía,

Ússía gat Jótam, Jótam gat Akas, Akas gat Esekía,

10 Esekía gat Manasse, Manasse gat Amos, Amos gat Jósía.

11 Jósía gat Jekonja og bræður hans á tíma herleiðingarinnar til Babýlonar.

12 Eftir herleiðinguna til Babýlonar gat Jekonja Sealtíel, Sealtíel gat Serúbabel,

13 Serúbabel gat Abíúd, Abíúd gat Eljakím, Eljakím gat Asór,

14 Asór gat Sadók, Sadók gat Akím, Akím gat Elíúd,

15 Elíúd gat Eleasar, Eleasar gat Mattan, Mattan gat Jakob,

16 og Jakob gat Jósef, mann Maríu, en hún ól Jesú, sem kallast Kristur.

17 Þannig eru alls fjórtán ættliðir frá Abraham til Davíðs, fjórtán ættliðir frá Davíð fram að herleiðingunni til Babýlonar og fjórtán ættliðir frá herleiðingunni til Krists.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society