Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Complementary)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with thematically matched Old and New Testament readings.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 72

72 Eftir Salómon. Guð, sel konungi í hendur dóma þína og konungssyni réttlæti þitt,

að hann dæmi lýð þinn með réttvísi og þína þjáðu með sanngirni.

Fjöllin beri lýðnum frið og hálsarnir réttlæti.

Hann láti hina þjáðu meðal lýðsins ná rétti sínum, hann hjálpi hinum snauðu og kremji kúgarann.

Þá mun hann lifa meðan sólin skín og tunglið ber birtu, frá kyni til kyns.

Hann mun falla sem regn á slægjuland, sem regnskúrir, er vökva landið.

Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til.

Og hann skal ríkja frá hafi til hafs, frá Fljótinu til endimarka jarðar.

Fjandmenn hans skulu beygja kné fyrir honum og óvinir hans sleikja duftið.

10 Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum skulu koma með gjafir, konungarnir frá Saba og Seba skulu færa skatt.

11 Og allir konungar skulu lúta honum, allar þjóðir þjóna honum.

12 Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir.

13 Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann.

14 Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.

15 Hann mun lifa og menn munu gefa honum Saba-gull, menn munu sífellt biðja fyrir honum, blessa hann liðlangan daginn.

16 Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum, í gróðri þess mun þjóta eins og í Líbanon, og menn skulu spretta upp í borgunum eins og gras úr jörðu.

17 Nafn hans mun vara að eilífu, meðan sólin skín mun nafn hans gróa. Og með honum skulu allar ættkvíslir jarðarinnar óska sér blessunar, allar þjóðir munu hann sælan segja.

18 Lofaður sé Drottinn, Guð, Ísraels Guð, sem einn gjörir furðuverk,

19 og lofað sé hans dýrlega nafn um eilífð, og öll jörðin fyllist dýrð hans. Amen, amen.

20 Bænir Davíðs Ísaísonar eru á enda.

Fjórða bók Móse 24:15-19

15 Flutti hann þá kvæði sitt og mælti: Svo mælir Bíleam Beórsson, svo mælir maðurinn, sem byrgð hefir augun.

16 Svo mælir hann, sem heyrir orð Guðs og þekkir ráð hins hæsta, sem sér sýn Hins Almáttuga, hnígandi niður og með upp loknum augum:

17 Ég sé hann, þó eigi nú, ég lít hann, þó eigi í nánd. Stjarna rennur upp af Jakob, og veldissproti rís af Ísrael. Hann lýstur sundur þunnvangann á Móab og hvirfilinn á öllum hávaðamönnum.

18 Og Edóm mun verða þegnland og Seír mun verða þegnland _ þessir óvinir hans, en Ísrael eykur vald sitt.

19 Frá Jakob mun drottnari koma og eyða flóttamönnum í borgunum.

Lúkasarguðspjall 1:67-79

67 En Sakaría faðir hans fylltist heilögum anda og mælti af spámannlegri andagift:

68 Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, því að hann hefur vitjað lýðs síns og búið honum lausn.

69 Hann hefur reist oss horn hjálpræðis í húsi Davíðs þjóns síns,

70 eins og hann talaði fyrir munn sinna heilögu spámanna frá öndverðu,

71 frelsun frá óvinum vorum og úr höndum allra, er hata oss.

72 Hann hefur auðsýnt feðrum vorum miskunn og minnst síns heilaga sáttmála,

73 þess eiðs, er hann sór Abraham föður vorum

74 að hrífa oss úr höndum óvina og veita oss að þjóna sér óttalaust

75 í heilagleik og réttlæti fyrir augum hans alla daga vora.

76 Og þú, sveinn! munt nefndur verða spámaður hins hæsta, því að þú munt ganga fyrir Drottni að greiða vegu hans

77 og veita lýð hans þekkingu á hjálpræðinu, sem er fyrirgefning synda þeirra.

78 Þessu veldur hjartans miskunn Guðs vors. Hún lætur upp renna sól af hæðum að vitja vor

79 og lýsa þeim, sem sitja í myrkri og skugga dauðans, og beina fótum vorum á friðar veg.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society