Revised Common Lectionary (Complementary)
6 Til söngstjórans. Með strengjaleik á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.
2 Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni.
3 Líkna mér, Drottinn, því að ég örmagnast, lækna mig, Drottinn, því að bein mín tærast.
4 Sál mín er óttaslegin, en þú, ó Drottinn _ hversu lengi?
5 Snú þú aftur, Drottinn, frelsa sálu mína, hjálpa mér sakir elsku þinnar.
6 Því að enginn minnist þín í dánarheimum, hver skyldi lofa þig hjá Helju?
7 Ég er þreyttur af andvörpum mínum, ég lauga rekkju mína í tárum, læt hvílu mína flóa hverja nótt.
8 Augu mín eru döpruð af harmi, orðin sljó sakir allra óvina minna.
9 Farið frá mér, allir illgjörðamenn, því að Drottinn hefir heyrt grátraust mína.
10 Drottinn hefir heyrt grátbeiðni mína, Drottinn tekur á móti bæn minni.
11 Allir óvinir mínir skulu verða til skammar og skelfast mjög, hraða sér sneyptir burt.
26 Þá tók allur Júdalýður Ússía, þótt hann væri eigi nema sextán vetra gamall, og gjörði hann að konungi í stað Amasía föður hans.
2 Hann víggirti Elót og vann hana aftur undir Júda, eftir að konungurinn var lagstur til hvíldar hjá feðrum sínum.
3 Ússía var sextán vetra gamall, þá er hann varð konungur, og fimmtíu og tvö ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jekolja og var frá Jerúsalem.
4 Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði Amasía faðir hans.
5 Hann leitaði Guðs kostgæfilega, meðan Sakaría var á lífi, er fræddi hann í guðsótta, og meðan hann leitaði Drottins, veitti Guð honum gengi.
6 Hann fór í hernað og herjaði á Filista, reif niður múrana í Gat og múrana í Jabne og múrana í Asdod, og reisti borgir í Asdodhéraði og Filistalandi.
7 Og Guð veitti honum gegn Filistum og Aröbum, þeim er bjuggu í Gúr Baal, og gegn Meúnítum.
8 Ammónítar færðu og Ússía skatt, og frægð hans barst allt til Egyptalands, því að hann varð mjög voldugur.
9 Og Ússía reisti turna í Jerúsalem, á hornhliðinu, á dalhliðinu og í króknum og víggirti þá.
10 Hann reisti og turna í eyðimörkinni, og lét höggva út fjölda af brunnum, því að hann átti stórar hjarðir, bæði á láglendinu og á sléttunni, svo og akurmenn og víngarðsmenn í fjöllunum og á Karmel, því að hann hafði mætur á landbúnaði.
11 Ússía hafði og her, er gegndi herþjónustu og fór í hernað í flokkum, allir þeir, er Jeíel ritari og Maaseja tilsjónarmaður höfðu kannað undir umsjón Hananja, eins af höfuðsmönnum konungs.
12 Ætthöfðingjarnir, kapparnir, voru alls tvö þúsund og sex hundruð að tölu.
13 En undir þeim stóð her, er í voru þrjú hundruð og sjö þúsund og fimm hundruð manns, er inntu herþjónustu af hendi af mestu hreysti, til þess að veita konungi gegn fjandmönnunum.
14 Fékk Ússía þeim, öllum hernum, skjöldu, spjót, hjálma, pansara, boga og slöngusteina.
15 Þá lét hann og gjöra í Jerúsalem vélar með miklum hagleik. Skyldu þær vera í turnunum og hornunum til að skjóta með örvum og stórum steinum. Og frægð hans barst til fjarlægra landa, því að honum hlotnaðist dásamlegt liðsinni, uns hann var voldugur orðinn.
16 En er hann var voldugur orðinn, varð hann drembilátur, og það svo, að hann aðhafðist óhæfu og braut á móti Drottni, Guði sínum, er hann gekk inn í musteri Drottins til þess að brenna reykelsi á reykelsisaltarinu.
17 Gekk þá Asarja prestur á eftir honum og með honum áttatíu duglegir prestar Drottins.
18 Þeir stóðu í móti Ússía konungi og sögðu við hann: "Það er eigi þitt, Ússía, að brenna reykelsi fyrir Drottni, heldur prestanna, niðja Arons, er vígðir eru til þess að færa reykelsisfórnir. Far þú út úr helgidóminum, því að þú ert brotlegur orðinn, og verður þér það eigi til sæmdar fyrir Drottni Guði."
19 En Ússía reiddist, þar sem hann hélt á reykelsiskerinu í hendinni til þess að færa reykelsisfórn, og er hann reiddist prestunum, braust líkþrá út á enni honum að prestunum ásjáandi í musteri Drottins, við reykelsisaltarið.
20 Og er Asarja höfuðprestur og allir prestarnir litu á hann, þá var hann líkþrár á enninu. Ráku þeir hann þá út þaðan, og sjálfur flýtti hann sér og í burt, því að Drottinn hafði lostið hann.
21 Þannig varð Ússía konungur líkþrár til dauðadags. Bjó hann kyrr í höll sinni sem líkþrár, því að hann var útilokaður frá musteri Drottins, en Jótam sonur hans veitti forstöðu konungshöllinni og dæmdi mál landsmanna.
3 Pétur og Jóhannes gengu upp í helgidóminn til síðdegisbæna.
2 Þá var þangað borinn maður, lami frá móðurlífi, er dag hvern var settur við þær dyr helgidómsins, sem nefndar eru Fögrudyr, til að beiðast ölmusu hjá þeim, er inn gengu í helgidóminn.
3 Er hann sá þá Pétur og Jóhannes á leið inn í helgidóminn, baðst hann ölmusu.
4 Þeir horfðu fast á hann, og Pétur sagði: "Lít þú á okkur."
5 Hann starði á þá í von um að fá eitthvað hjá þeim.
6 Pétur sagði: "Silfur og gull á ég ekki, en það sem ég hef, það gef ég þér: Í nafni Jesú Krists frá Nasaret, statt upp og gakk!"
7 Og hann tók í hægri hönd honum og reisti hann upp. Jafnskjótt urðu fætur hans og ökklar styrkir,
8 hann spratt upp, stóð í fætur og tók að ganga. Hann fór inn með þeim í helgidóminn, gekk um og stökk og lofaði Guð.
9 Allt fólkið sá hann ganga um og lofa Guð.
10 Þeir þekktu, að hann var sá er hafði setið fyrir Fögrudyrum helgidómsins til að beiðast ölmusu. Urðu þeir furðu lostnir og frá sér numdir af því, sem fram við hann hafði komið.
by Icelandic Bible Society