Revised Common Lectionary (Complementary)
5 Naaman, hershöfðingi Sýrlandskonungs, var í miklum metum hjá herra sínum og í hávegum hafður, því að undir forustu hans hafði Drottinn veitt Sýrlendingum sigur. Var maðurinn hinn mesti kappi, en líkþrár.
2 Sýrlendingar höfðu farið herför í smáflokkum og haft burt af Ísraelslandi unga stúlku. Þjónaði hún konu Naamans.
3 Hún sagði við húsmóður sína: "Ég vildi óska að húsbóndi minn væri kominn til spámannsins í Samaríu. Hann mundi losa hann við líkþrána."
4 Þá fór Naaman og sagði herra sínum frá á þessa leið: "Svo og svo hefir stúlkan frá Ísraelslandi talað."
5 Þá mælti Sýrlandskonungur: "Far þú, ég skal senda Ísraelskonungi bréf." Lagði Naaman þá af stað og tók með sér tíu talentur silfurs, sex þúsund sikla gulls og tíu alklæðnaði.
6 Hann færði Ísraelskonungi bréfið, er var á þessa leið: "Þegar bréf þetta kemur þér í hendur, þá skalt þú vita, að ég hefi sent til þín Naaman þjón minn, og skalt þú losa hann við líkþrá hans."
7 En er Ísraelskonungur hafði lesið bréfið, reif hann klæði sín og mælti: "Er ég þá Guð, er deytt geti og lífgað, fyrst hann gjörir mér orð um að losa mann við líkþrá hans? Megið þér þar sjá og skynja, að hann leitar saka við mig."
8 En er Elísa, guðsmaðurinn, frétti, að Ísraelskonungur hefði rifið klæði sín, sendi hann til konungs og lét segja honum: "Hví rífur þú klæði þín? Komi hann til mín, þá skal hann komast að raun um, að til er spámaður í Ísrael."
9 Þá kom Naaman með hesta sína og vagna og nam staðar úti fyrir húsdyrum Elísa.
10 Þá sendi Elísa mann til hans og lét segja honum: "Far og lauga þig sjö sinnum í Jórdan, þá mun hold þitt komast í samt lag og þú munt hreinn verða!"
11 Þá varð Naaman reiður og gekk burt og mælti: "Ég hugði þó, að hann mundi koma út til mín og ganga að mér og ákalla nafn Drottins, Guðs síns, veifa hendinni í áttina til helgistaðarins og koma þannig líkþránni burt.
12 Eru ekki Abana og Farfar, fljótin hjá Damaskus, betri en allar ár í Ísrael? Gæti ég ekki laugað mig í þeim og orðið hreinn?" Sneri hann sér þá við og hélt burt í reiði.
13 Þá gengu þjónar hans til hans, töluðu til hans og sögðu: "Ef spámaðurinn hefði skipað þér eitthvað erfitt, mundir þú þá ekki hafa gjört það? Hve miklu fremur þá, er hann hefir sagt þér: ,Lauga þig og munt þú hreinn verða`?"
14 Þá fór hann ofan eftir og dýfði sér sjö sinnum niður í Jórdan, eins og guðsmaðurinn hafði sagt. Varð þá hold hans aftur sem hold á ungum sveini, og hann varð hreinn.
30 Musterisvígsluljóð. Davíðssálmur.
2 Ég tigna þig, Drottinn, því að þú hefir bjargað mér og eigi látið óvini mína hlakka yfir mér.
3 Drottinn, Guð minn, ég hrópaði til þín og þú læknaðir mig.
4 Drottinn, þú heimtir sál mína úr Helju, lést mig halda lífi, er aðrir gengu til grafar.
5 Syngið Drottni lof, þér hans trúuðu, vegsamið hans heilaga nafn.
6 Andartak stendur reiði hans, en alla ævi náð hans. Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni.
7 En ég uggði eigi að mér og hugsaði: "Aldrei skriðnar mér fótur."
8 Drottinn, af náð þinni hafðir þú gjört bjarg mitt stöðugt, en nú huldir þú auglit þitt og ég skelfdist.
9 Til þín, Drottinn, kallaði ég, og Drottin grátbændi ég:
10 "Hver ávinningur er í dauða mínum, í því að ég gangi til grafar? Getur duftið lofað þig, kunngjört trúfesti þína?
11 Heyr, Drottinn, og líkna mér, ó Drottinn, ver þú hjálpari minn!"
12 Þú breyttir grát mínum í gleðidans, leystir af mér hærusekkinn og gyrtir mig fögnuði,
13 að sál mín megi lofsyngja þér og eigi þagna. Drottinn, Guð minn, ég vil þakka þér að eilífu.
24 Vitið þér ekki, að þeir, sem keppa á íþróttavelli, hlaupa að sönnu allir, en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig, að þér hljótið þau.
25 Sérhver, sem tekur þátt í kappleikjum, neitar sér um allt. Þeir sem keppa gjöra það til þess að hljóta forgengilegan sigursveig, en vér óforgengilegan.
26 Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust. Ég berst eins og hnefaleikamaður, sem engin vindhögg slær.
27 Ég leik líkama minn hart og gjöri hann að þræli mínum, til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki sjálfur verða gjörður rækur.
40 Maður nokkur líkþrár kom til hans, féll á kné og bað hann: "Ef þú vilt, getur þú hreinsað mig."
41 Og hann kenndi í brjósti um manninn, rétti út höndina, snart hann og mælti: "Ég vil, verð þú hreinn!"
42 Jafnskjótt hvarf af honum líkþráin, og hann varð hreinn.
43 Og Jesús lét hann fara, lagði ríkt á við hann
44 og sagði: "Gæt þess að segja engum neitt, en far þú, sýn þig prestinum og fórna fyrir hreinsun þína því, sem Móse bauð, þeim til vitnisburðar."
45 En maðurinn gekk burt og ræddi margt um þetta og víðfrægði mjög, svo að Jesús gat ekki framar komið opinberlega í neina borg, heldur hafðist við úti á óbyggðum stöðum. En menn komu til hans hvaðanæva.
by Icelandic Bible Society