Revised Common Lectionary (Complementary)
30 Musterisvígsluljóð. Davíðssálmur.
2 Ég tigna þig, Drottinn, því að þú hefir bjargað mér og eigi látið óvini mína hlakka yfir mér.
3 Drottinn, Guð minn, ég hrópaði til þín og þú læknaðir mig.
4 Drottinn, þú heimtir sál mína úr Helju, lést mig halda lífi, er aðrir gengu til grafar.
5 Syngið Drottni lof, þér hans trúuðu, vegsamið hans heilaga nafn.
6 Andartak stendur reiði hans, en alla ævi náð hans. Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni.
7 En ég uggði eigi að mér og hugsaði: "Aldrei skriðnar mér fótur."
8 Drottinn, af náð þinni hafðir þú gjört bjarg mitt stöðugt, en nú huldir þú auglit þitt og ég skelfdist.
9 Til þín, Drottinn, kallaði ég, og Drottin grátbændi ég:
10 "Hver ávinningur er í dauða mínum, í því að ég gangi til grafar? Getur duftið lofað þig, kunngjört trúfesti þína?
11 Heyr, Drottinn, og líkna mér, ó Drottinn, ver þú hjálpari minn!"
12 Þú breyttir grát mínum í gleðidans, leystir af mér hærusekkinn og gyrtir mig fögnuði,
13 að sál mín megi lofsyngja þér og eigi þagna. Drottinn, Guð minn, ég vil þakka þér að eilífu.
21 En sé hann fátækur og á ekki fyrir þessu, þá skal hann taka eitt hrútlamb í sektarfórn til veifunar, til þess að friðþægt verði fyrir hann, og einn tíunda part úr efu af fínu mjöli, blönduðu við olíu, í matfórn, og lóg af olíu
22 og tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur, eftir því sem efni hans leyfa. Skal önnur vera til syndafórnar, en hin til brennifórnar.
23 Og hann skal færa þær prestinum á áttunda degi frá hreinsun sinni að dyrum samfundatjaldsins fram fyrir Drottin.
24 Og prestur skal taka sektarfórnarlambið og olíu-lóginn, og prestur skal veifa því til veififórnar frammi fyrir Drottni.
25 Síðan skal sektarfórnarlambinu slátrað. Prestur skal taka nokkuð af blóði sektarfórnarinnar og ríða á hægri eyrnasnepil þess, er lætur hreinsa sig, og á þumalfingur hægri handar hans og á stórutá hægri fótar hans.
26 Og nokkru af olíunni skal prestur hella í vinstri lófa sér.
27 Og prestur skal stökkva nokkru af olíunni, sem er í vinstri lófa hans, með hægri fingri sínum sjö sinnum frammi fyrir Drottni.
28 Og prestur skal ríða nokkru af olíunni, sem er í lófa hans, á hægri eyrnasnepil þess, er lætur hreinsa sig, og á þumalfingur hægri handar hans og stórutá hægri fótar hans, á þann stað þar sem blóðið úr sektarfórninni er.
29 En því, sem leift er af olíunni í lófa prestsins, skal hann ríða á höfuð þess, er lætur hreinsa sig, til þess að friðþægja fyrir hann frammi fyrir Drottni.
30 Þá skal hann fórna annarri turtildúfunni eða annarri ungu dúfunni, eftir því sem hann hafði efnin til,
31 annarri í syndafórn og hinni í brennifórn, ásamt matfórninni. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir þann, er lætur hreinsa sig, frammi fyrir Drottni."
32 Þetta eru ákvæðin um þann, sem hefir líkþrársótt og ekki á fyrir hreinsun sinni.
6 En Jesús var í Betaníu, í húsi Símonar líkþráa.
7 Kom þá til hans kona og hafði alabastursbuðk með dýrum smyrslum og hellti yfir höfuð honum, þar sem hann sat að borði.
8 Við þessa sjón urðu lærisveinarnir gramir og sögðu: "Til hvers er þessi sóun?
9 Þetta hefði mátt selja dýru verði og gefa fátækum."
10 Jesús varð þess vís og sagði við þá: "Hvað eruð þér að angra konuna? Gott verk gjörði hún mér.
11 Fátæka hafið þér jafnan hjá yður, en mig hafið þér ekki ávallt.
12 Þegar hún hellti þessum smyrslum yfir líkama minn, var hún að búa mig til greftrunar.
13 Sannlega segi ég yður: Hvar sem fagnaðarerindi þetta verður flutt, um heim allan, mun þess og getið verða, sem hún gjörði, til minningar um hana."
by Icelandic Bible Society