Revised Common Lectionary (Complementary)
30 Musterisvígsluljóð. Davíðssálmur.
2 Ég tigna þig, Drottinn, því að þú hefir bjargað mér og eigi látið óvini mína hlakka yfir mér.
3 Drottinn, Guð minn, ég hrópaði til þín og þú læknaðir mig.
4 Drottinn, þú heimtir sál mína úr Helju, lést mig halda lífi, er aðrir gengu til grafar.
5 Syngið Drottni lof, þér hans trúuðu, vegsamið hans heilaga nafn.
6 Andartak stendur reiði hans, en alla ævi náð hans. Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni.
7 En ég uggði eigi að mér og hugsaði: "Aldrei skriðnar mér fótur."
8 Drottinn, af náð þinni hafðir þú gjört bjarg mitt stöðugt, en nú huldir þú auglit þitt og ég skelfdist.
9 Til þín, Drottinn, kallaði ég, og Drottin grátbændi ég:
10 "Hver ávinningur er í dauða mínum, í því að ég gangi til grafar? Getur duftið lofað þig, kunngjört trúfesti þína?
11 Heyr, Drottinn, og líkna mér, ó Drottinn, ver þú hjálpari minn!"
12 Þú breyttir grát mínum í gleðidans, leystir af mér hærusekkinn og gyrtir mig fögnuði,
13 að sál mín megi lofsyngja þér og eigi þagna. Drottinn, Guð minn, ég vil þakka þér að eilífu.
14 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 "Þetta skulu vera ákvæðin um líkþráan mann, þá er hann er hreinsaður: Skal leiða hann fyrir prest,
3 og prestur skal ganga út fyrir herbúðirnar, og prestur skal líta á. Og sjái hann að líkþrárskellan á hinum líkþráa er gróin,
4 þá skal presturinn bjóða að taka fyrir þann, er lætur hreinsa sig, tvo hreina fugla lifandi, sedrusvið, skarlat og ísópsvönd.
5 Og prestur skal bjóða að slátra öðrum fuglinum í leirker yfir rennandi vatni.
6 En lifandi fuglinn, sedrusviðinn, skarlatið og ísópsvöndinn skal hann taka og drepa því, ásamt lifandi fuglinum, í blóð fuglsins, er slátrað var yfir rennandi vatni.
7 Og hann skal stökkva sjö sinnum á þann, sem lætur hreinsa sig af líkþránni, og dæma hann hreinan, en sleppa lifandi fuglinum út á víðavang.
8 Sá er lætur hreinsa sig, skal þvo klæði sín, raka allt hár sitt og lauga sig í vatni, og er þá hreinn. Og síðan gangi hann í herbúðirnar, en skal þó sjö daga hafast við fyrir utan tjald sitt.
9 Og á sjöunda degi skal hann raka allt hár sitt, bæði höfuð sitt, skegg og augabrúnir, _ allt hár sitt skal hann raka. Og hann skal þvo klæði sín og lauga líkama sinn í vatni, og er þá hreinn.
10 Á áttunda degi skal hann taka tvö hrútlömb gallalaus og eina gimbur veturgamla gallalausa og þrjá tíunduparta úr efu af fínu mjöli, blönduðu við olíu, í matfórn, og einn lóg af olíu.
11 Og presturinn, er hreinsar, skal færa manninn, er lætur hreinsa sig, ásamt þessu fram fyrir Drottin að dyrum samfundatjaldsins.
12 Og presturinn skal taka annað hrútlambið og fórna því í sektarfórn, ásamt olíu-lóginum, og veifa hvorutveggja að veififórn frammi fyrir Drottni.
13 Og lambinu skal slátra á þeim stað, þar sem syndafórninni er slátrað og brennifórninni, á helgum stað; því að eins og syndafórn heyrir presti, svo er og um sektarfórn. Hún er háheilög.
14 Prestur skal taka nokkuð af blóði sektarfórnarinnar, og prestur skal ríða því á hægri eyrnasnepil þess, er lætur hreinsa sig, og á þumalfingur hægri handar hans og á stórutá hægri fótar hans.
15 Og prestur skal taka nokkuð af olíu-lóginum og hella í vinstri lófa sér.
16 Og prestur skal drepa hægri fingri sínum í olíuna, sem er í vinstri lófa hans, og stökkva olíunni með fingri sínum sjö sinnum frammi fyrir Drottni.
17 Og af leifunum af olíunni, sem er í lófa hans, skal prestur ríða á hægri eyrnasnepil þess, er lætur hreinsa sig, og á þumalfingur hægri handar hans og á stórutá hægri fótar hans, ofan á blóðið úr sektarfórninni.
18 Og því, sem leift er af olíunni í lófa prestsins, skal hann ríða á höfuð þess, sem lætur hreinsa sig, og prestur skal friðþægja fyrir hann frammi fyrir Drottni.
19 Þá skal prestur fórna syndafórninni og friðþægja fyrir þann, er lætur hreinsa sig, vegna óhreinleika hans, og síðan skal hann slátra brennifórninni.
20 Og prestur skal fram bera á altarið brennifórnina og matfórnina. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir hann, og er hann þá hreinn.
11 Guð gjörði óvenjuleg kraftaverk fyrir hendur Páls.
12 Það bar við, að menn lögðu dúka og flíkur af Páli á sjúka, og hurfu þá veikindi þeirra, og illir andar fóru út af þeim.
13 En nokkrir Gyðingar, er fóru um og frömdu andasæringar, tóku og fyrir að nefna nafn Drottins Jesú yfir þeim, er höfðu illa anda. Þeir sögðu: "Ég særi yður við Jesú þann, sem Páll prédikar."
14 Þeir er þetta frömdu, voru sjö synir Gyðings nokkurs, Skeva æðsta prests.
15 En illi andinn sagði við þá: "Jesú þekki ég, og Pál kannast ég við, en hverjir eruð þér?"
16 Og maðurinn, sem illi andinn var í, flaug á þá, keyrði þá alla undir sig og lék þá svo hart, að þeir flýðu naktir og særðir úr húsinu.
17 Þetta varð kunnugt öllum Efesusbúum, bæði Gyðingum og Grikkjum, og ótta sló á þá alla, og nafn Drottins Jesú varð miklað.
18 Margir þeirra, sem trú höfðu tekið, komu, gjörðu játningu og sögðu frá athæfi sínu.
19 Og allmargir er farið höfðu með kukl, komu með bækur sínar og brenndu þær að öllum ásjáandi. Þær voru samtals virtar á fimmtíu þúsundir silfurpeninga.
20 Þannig breiddist orð Drottins út og efldist í krafti hans.
by Icelandic Bible Society