Revised Common Lectionary (Complementary)
46 Og María sagði: Önd mín miklar Drottin,
47 og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.
48 Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar, héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja.
49 Því að mikla hluti hefur hinn voldugi við mig gjört, og heilagt er nafn hans.
50 Miskunn hans við þá, er óttast hann, varir frá kyni til kyns.
51 Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.
52 Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja,
53 hungraða hefur hann fyllt gæðum, en látið ríka tómhenta frá sér fara.
54 Hann hefur minnst miskunnar sinnar og tekið að sér Ísrael, þjón sinn,
55 eins og hann talaði til feðra vorra, við Abraham og niðja hans ævinlega.
2 Hanna gjörði bæn sína og mælti: Hjarta mitt fagnar í Drottni, horn mitt er hátt upp hafið fyrir fulltingi Guðs míns. Munnur minn er upp lokinn gegn óvinum mínum, því að ég gleðst yfir þinni hjálp.
2 Enginn er heilagur sem Drottinn, því að enginn er til nema þú, ekkert bjarg er til sem vor Guð.
3 Mælið eigi án afláts drambyrði, ósvífni komi eigi út af munni yðar. Því að Drottinn er Guð, sem allt veit, og af honum eru verkin vegin.
4 Bogi kappanna er sundur brotinn, en máttfarnir menn gyrðast styrkleika.
5 Mettir leigja sig fyrir brauð, en hungraðir njóta hvíldar. Óbyrjan fæðir jafnvel sjö, en margra barna móðirin mornar og þornar.
6 Drottinn deyðir og lífgar, færir til Heljar niður og leiðir upp þaðan.
7 Drottinn gjörir fátækan og ríkan, niðurlægir og upphefur.
8 Hann reisir hinn lítilmótlega úr duftinu, lyftir hinum snauða upp úr skarninu, leiðir þá til sætis hjá þjóðhöfðingjum og setur þá á tignarstól. Því að Drottni heyra stólpar jarðarinnar, á þá setti hann jarðríkið.
9 Fætur sinna guðhræddu varðveitir hann, en hinir guðlausu farast í myrkri, því að fyrir eigin mátt sigrar enginn.
10 Þeir sem berjast móti Drottni, verða sundur molaðir, hann lætur þrumur af himni koma yfir þá. Drottinn dæmir endimörk jarðarinnar. Hann veitir kraft konungi sínum og lyftir upp horni síns smurða.
11 Þegar þeir nálgast Jerúsalem og koma til Betfage og Betaníu við Olíufjallið, sendir hann tvo lærisveina sína
2 og segir við þá: "Farið í þorpið hér framundan ykkur. Um leið og þið komið þangað, munuð þið finna fola bundinn, sem enginn hefur enn komið á bak. Leysið hann, og komið með hann.
3 Ef einhver spyr ykkur: ,Hvers vegna gjörið þið þetta?` Þá svarið: ,Herrann þarf hans við, hann sendir hann jafnskjótt aftur hingað."`
4 Þeir fóru og fundu folann bundinn við dyr úti á strætinu og leystu hann.
5 Nokkrir sem stóðu þar, sögðu við þá: "Hvers vegna eruð þið að leysa folann?"
6 Þeir svöruðu eins og Jesús hafði sagt, og þeir létu þá fara.
7 Síðan færðu þeir Jesú folann og lögðu á hann klæði sín, en hann settist á bak.
8 Og margir breiddu klæði sín á veginn, en aðrir lim, sem þeir höfðu skorið á völlunum.
9 Þeir sem á undan fóru og eftir fylgdu, hrópuðu: "Hósanna! Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins!
10 Blessað sé hið komandi ríki föður vors Davíðs! Hósanna í hæstum hæðum!"
11 Hann fór inn í Jerúsalem og í helgidóminn. Þar leit hann yfir allt, en þar sem komið var kvöld, fór hann til Betaníu með þeim tólf.
by Icelandic Bible Society