Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Complementary)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with thematically matched Old and New Testament readings.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Lúkasarguðspjall 1:46-55

46 Og María sagði: Önd mín miklar Drottin,

47 og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.

48 Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar, héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja.

49 Því að mikla hluti hefur hinn voldugi við mig gjört, og heilagt er nafn hans.

50 Miskunn hans við þá, er óttast hann, varir frá kyni til kyns.

51 Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.

52 Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja,

53 hungraða hefur hann fyllt gæðum, en látið ríka tómhenta frá sér fara.

54 Hann hefur minnst miskunnar sinnar og tekið að sér Ísrael, þjón sinn,

55 eins og hann talaði til feðra vorra, við Abraham og niðja hans ævinlega.

Fyrri Samúelsbók 1:19-28

19 Morguninn eftir risu þau árla og gjörðu bæn sína fyrir augliti Drottins, sneru síðan aftur og komu heim til Rama. Og Elkana kenndi Hönnu konu sinnar, og Drottinn minntist hennar.

20 Og er ár var liðið, hafði Hanna orðið þunguð og alið son, og hún nefndi hann Samúel, "því að ég hefi beðið Drottin um hann."

21 Elkana fór nú með alla fjölskyldu sína til þess að færa Drottni hina árlegu fórn og áheit sitt.

22 En Hanna fór ekki, heldur sagði við mann sinn: "Ég fer ekki fyrr en sveinninn er vaninn af brjósti. Þá fer ég með hann, svo að hann birtist fyrir augliti Drottins og verði þar ávallt upp frá því."

23 Elkana, maður hennar, sagði við hana: "Gjör þú sem þér vel líkar. Ver þú kyrr heima, uns þú hefir vanið hann af brjósti. Drottinn láti aðeins orð þín rætast." Síðan var konan kyrr heima og hafði son sinn á brjósti, uns hún vandi hann af.

24 En er hún hafði vanið hann af brjósti, fór hún með hann og hafði með sér þriggja ára gamalt naut og eina efu mjöls og legil víns. Og hún fór með hann í hús Drottins í Síló. En sveinninn var þá ungur.

25 Þau slátruðu nautinu og fóru með sveininn til Elí.

26 Og hún sagði: "Heyr, herra minn! Svo sannarlega sem þú lifir, herra minn, er ég kona sú, er stóð hér hjá þér til þess að gjöra bæn mína til Drottins.

27 Um svein þennan gjörði ég bæn mína, og Drottinn veitti mér bæn mína, sem ég bað hann um.

28 Fyrir því vil ég og ljá Drottni hann. Svo lengi sem hann lifir, skal hann vera Drottni léður." Og þau féllu þar fram fyrir Drottin.

Bréfið til Hebrea 8

Höfuðinntak þess, sem sagt hefur verið, er þetta: Vér höfum þann æðsta prest, er settist til hægri handar við hásæti hátignarinnar á himnum.

Hann er helgiþjónn helgidómsins og tjaldbúðarinnar, hinnar sönnu, sem Drottinn reisti, en eigi maður.

Sérhver æðsti prestur er skipaður til þess að bera fram bæði gjafir og fórnir. Þess vegna er nauðsynlegt, að þessi æðsti prestur hafi líka eitthvað fram að bera.

Væri hann nú á jörðu, mundi hann alls ekki vera prestur, þar sem þeir eru fyrir, sem samkvæmt lögmálinu bera fram gjafirnar.

En þeir þjóna eftirmynd og skugga hins himneska, eins og Móse fékk bendingu um frá Guði, er hann var að koma upp tjaldbúðinni: "Gæt þess," segir hann, "að þú gjörir allt eftir þeirri fyrirmynd, sem þér var sýnd á fjallinu."

En nú hefur Jesús fengið þeim mun ágætari helgiþjónustu sem hann er meðalgangari betri sáttmála, sem byggist á betri fyrirheitum.

Hefði hinn fyrri sáttmáli verið óaðfinnanlegur, þá hefði ekki verið þörf fyrir annan.

En nú ávítar Guð þá og segir: Sjá, dagar koma, segir Drottinn, er ég mun gjöra nýjan sáttmála við hús Ísraels og við hús Júda,

ekki eins og sáttmálann, er ég gjörði við feður þeirra á þeim degi, er ég tók í hönd þeirra til að leiða þá út af Egyptalandi, því að þeir héldu ekki minn sáttmála, og ég hirti eigi um þá, segir Drottinn.

10 Þetta er sáttmálinn, sem ég mun gjöra við hús Ísraels eftir þá daga, segir Drottinn: Ég mun leggja lög mín í hugskot þeirra og rita þau á hjörtu þeirra. Ég mun vera Guð þeirra, og þeir munu vera lýður minn.

11 Og enginn mun þá kenna landa sínum og enginn bróður sínum og segja: "Þekktu Drottin!" Allir munu þeir þekkja mig, jafnt smáir sem stórir.

12 Því að ég mun vera vægur við misgjörðir þeirra og ég mun ekki framar minnast synda þeirra.

13 Þar sem hann nú kallar þetta nýjan sáttmála, þá hefur hann lýst hinn fyrri úreltan. En það, sem er að úreldast og fyrnast, er að því komið að verða að engu.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society