Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Complementary)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with thematically matched Old and New Testament readings.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 52

52 Til söngstjórans. Maskíl eftir Davíð,

þá er Dóeg Edómíti kom og sagði Sál frá og mælti til hans: Davíð er kominn í hús Ahímeleks.

Hví stærir þú þig af vonskunni, harðstjóri? Miskunn Guðs varir alla daga!

Tunga þín býr yfir skaðræði, eins og beittur rakhnífur, þú svikaforkur!

Þú elskar illt meir en gott, lygi fremur en sannsögli. [Sela]

Þú elskar hvert skaðræðisorð, þú fláráða tunga!

Því mun og Guð brjóta þig niður fyrir fullt og allt, hrífa þig burt og draga þig út úr tjaldi þínu og uppræta þig úr landi lifenda. [Sela]

Hinir réttlátu munu sjá það og óttast, og þeir munu hlæja að honum:

"Þetta er maðurinn, sem ekki gjörði Guð að vernd sinni, heldur treysti á hin miklu auðæfi sín og þrjóskaðist í illsku sinni."

10 En ég er sem grænt olíutré í húsi Guðs, treysti á Guðs náð um aldur og ævi.

11 Ég vil vegsama þig að eilífu, því að þú hefir því til vegar komið, kunngjöra fyrir augum þinna trúuðu, að nafn þitt sé gott.

Jósúabók 24:1-2

24 Jósúa stefndi saman öllum ættkvíslum Ísraels í Síkem og kallaði fyrir sig öldunga Ísraels og höfðingja hans, dómendur hans og tilsjónarmenn, og þeir gengu fram fyrir auglit Guðs.

Þá mælti Jósúa við allan lýðinn: "Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Forfeður yðar bjuggu í fyrndinni fyrir handan Efrat, þeir Tara, faðir Abrahams og Nahors, og dýrkuðu aðra guði.

Jósúabók 24:11-28

11 Þá fóruð þér yfir Jórdan og komuð til Jeríkó. Og Jeríkóbúar börðust við yður, þeir Amorítar, Peresítar, Kanaanítar, Hetítar, Girgasítar, Hevítar og Jebúsítar, en ég gaf þá í yðar hendur.

12 Þá sendi ég skelfingu á undan yður, og stökkti Amorítakonungunum tveimur burt undan yður, en hvorki kom sverð þitt né bogi þinn þessu til leiðar.

13 Ég gaf yður land, sem þér ekkert höfðuð fyrir haft, og borgir, sem þér höfðuð ekki reist, en tókuð yður samt bólfestu í þeim, og víngarða og olíutré, sem þér hafið ekki gróðursett, en njótið nú ávaxta þeirra.

14 Óttist því Drottin og þjónið honum einlæglega og dyggilega, og kastið burt guðum þeim, er feður yðar þjónuðu fyrir handan Fljótið og í Egyptalandi, og þjónið Drottni.

15 En líki yður ekki að þjóna Drottni, kjósið þá í dag, hverjum þér viljið þjóna, hvort heldur guðum þeim, er feður yðar þjónuðu, þeir er bjuggu fyrir handan Fljótið, eða guðum Amoríta, hverra land þér nú byggið. En ég og mínir ættmenn munum þjóna Drottni."

16 Þá svaraði lýðurinn og sagði: "Fjarri sé það oss að yfirgefa Drottin og þjóna öðrum guðum.

17 Því að Drottinn er vor Guð, hann sem leitt hefir oss og feður vora af Egyptalandi, úr þrælahúsinu, og gjört hefir þessi miklu undur að oss ásjáandi og varðveitt oss á allri þeirri leið, sem vér höfum nú farið, og meðal allra þeirra þjóða, þar sem vér höfum lagt um leið vora.

18 Og Drottinn stökkti burt undan oss öllum þjóðunum og Amorítum, íbúum landsins. Vér viljum einnig þjóna Drottni, því að hann er vor Guð!"

19 Jósúa sagði þá við lýðinn: "Þér getið ekki þjónað Drottni, því að hann er heilagur Guð. Vandlátur Guð er hann. Hann mun ekki umbera misgjörðir yðar og syndir.

20 Ef þér yfirgefið Drottin og þjónið útlendum guðum, þá mun hann snúast gegn yður og láta illt yfir yður koma og tortíma yður, í stað þess að hann áður hefir gjört vel til yðar."

21 Þá sagði lýðurinn við Jósúa: "Nei, því að Drottni viljum vér þjóna."

22 Þá sagði Jósúa við lýðinn: "Þér eruð vottar að því gegn sjálfum yður, að þér hafið kosið að þjóna Drottni." Þeir sögðu: "Vér erum það."

23 Jósúa sagði: "Kastið nú burt útlendu guðunum, sem hjá yður eru, og hneigið hjörtu yðar til Drottins, Ísraels Guðs."

24 Lýðurinn sagði við Jósúa: "Drottni Guði vorum viljum vér þjóna og hlýða hans röddu."

25 Á þeim degi gjörði Jósúa sáttmála við lýðinn og setti honum lög og rétt þar í Síkem.

26 Og Jósúa ritaði þessi orð í lögmálsbók Guðs, tók því næst stein mikinn og reisti hann þar upp undir eikinni, sem stóð í helgidómi Drottins.

27 Og Jósúa sagði við allan lýðinn: "Sjá, steinn þessi skal vera vitni gegn oss, því að hann hefir heyrt öll orðin, sem Drottinn hefir við oss talað, og hann skal vera vitni gegn yður, til þess að þér afneitið ekki Guði yðar."

28 Síðan lét Jósúa fólkið fara, hvern til síns óðals.

Bréf Páls til Rómverja 3:9-22

Hvað þá? Höfum vér þá nokkuð fram yfir? Nei, alls ekki. Vér höfum áður gefið bæði Gyðingum og Grikkjum að sök, að þeir væru allir undir synd.

10 Eins og ritað er: Ekki er neinn réttlátur, ekki einn.

11 Ekki er neinn vitur, ekki neinn sem leitar Guðs.

12 Allir eru þeir fallnir frá, allir saman ófærir orðnir. Ekki er neinn sem auðsýnir gæsku, ekki einn einasti.

13 Opin gröf er barki þeirra, með tungum sínum draga þeir á tálar. Höggorma eitur er innan vara þeirra,

14 munnur þeirra er fullur bölvunar og beiskju.

15 Hvatir eru þeir í spori að úthella blóði.

16 Tortíming og eymd er í slóð þeirra,

17 og veg friðarins þekkja þeir ekki.

18 Fyrir augum þeirra er enginn guðsótti.

19 Vér vitum, að allt sem lögmálið segir, það talar það til þeirra sem eru undir lögmálinu, til þess að sérhver munnur þagni og allur heimurinn verði sekur fyrir Guði,

20 með því að enginn lifandi maður réttlætist fyrir honum af lögmálsverkum. En fyrir lögmál kemur þekking syndar.

21 En nú hefur réttlæti Guðs, sem lögmálið og spámennirnir vitna um, verið opinberað án lögmáls.

22 Það er: Réttlæti Guðs fyrir trú á Jesú Krist öllum þeim til handa, sem trúa. Hér er enginn greinarmunur:

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society