Revised Common Lectionary (Complementary)
52 Til söngstjórans. Maskíl eftir Davíð,
2 þá er Dóeg Edómíti kom og sagði Sál frá og mælti til hans: Davíð er kominn í hús Ahímeleks.
3 Hví stærir þú þig af vonskunni, harðstjóri? Miskunn Guðs varir alla daga!
4 Tunga þín býr yfir skaðræði, eins og beittur rakhnífur, þú svikaforkur!
5 Þú elskar illt meir en gott, lygi fremur en sannsögli. [Sela]
6 Þú elskar hvert skaðræðisorð, þú fláráða tunga!
7 Því mun og Guð brjóta þig niður fyrir fullt og allt, hrífa þig burt og draga þig út úr tjaldi þínu og uppræta þig úr landi lifenda. [Sela]
8 Hinir réttlátu munu sjá það og óttast, og þeir munu hlæja að honum:
9 "Þetta er maðurinn, sem ekki gjörði Guð að vernd sinni, heldur treysti á hin miklu auðæfi sín og þrjóskaðist í illsku sinni."
10 En ég er sem grænt olíutré í húsi Guðs, treysti á Guðs náð um aldur og ævi.
11 Ég vil vegsama þig að eilífu, því að þú hefir því til vegar komið, kunngjöra fyrir augum þinna trúuðu, að nafn þitt sé gott.
30 Jósúa reisti Drottni, Ísraels Guði, altari á Ebalfjalli,
31 eins og Móse, þjónn Drottins, hafði boðið Ísraelsmönnum, samkvæmt því sem skrifað er í lögmálsbók Móse, altari af óhöggnum steinum, er járntól hafði ekki verið borið að. Og þeir fórnuðu Drottni brennifórnum á því og slátruðu heillafórnum.
32 Og hann skrifaði þar á steinana eftirrit af lögmáli Móse, því er hann hafði skrifað í augsýn Ísraelsmanna.
33 Og allur Ísrael, öldungar hans, tilsjónarmenn og dómarar stóðu báðumegin við örkina, gegnt levítaprestunum, er báru sáttmálsörk Drottins, bæði útlendir menn og innbornir, annar helmingurinn utan í Garísímfjalli og hinn helmingurinn utan í Ebalfjalli, samkvæmt því sem Móse, þjónn Drottins, hafði boðið, að blessa Ísraelslýð.
34 Og eftir það las hann upp öll orð lögmálsins, blessunina og bannfæringuna, samkvæmt öllu því, sem skrifað er í lögmálsbókinni.
35 Ekkert orð af því, er Móse hafði boðið, var úr fellt. Jósúa las það allt upp fyrir öllum söfnuði Ísraels, einnig fyrir konum og börnum og útlendingum þeim, er með þeim höfðu farið.
2 Fyrir því hefur þú, maður, sem dæmir, hver sem þú ert, enga afsökun. Um leið og þú dæmir annan, dæmir þú sjálfan þig, því að þú, sem dæmir, fremur hið sama.
2 Vér vitum, að dómur Guðs er sannarlega yfir þeim er slíkt fremja.
3 En hugsar þú það, maður, þú sem dæmir þá er slíkt fremja og gjörir sjálfur hið sama, að þú fáir umflúið dóm Guðs?
4 Eða lítilsvirðir þú ríkdóm gæsku hans og umburðarlyndis og langlyndis? Veist þú ekki, að gæska Guðs vill leiða þig til iðrunar?
5 Með harðúð þinni og iðrunarlausa hjarta safnar þú sjálfum þér reiði á reiðidegi, er réttlátur dómur Guðs verður opinber.
6 Hann mun gjalda sérhverjum eftir verkum hans:
7 Þeim eilíft líf, sem með staðfestu í góðu verki leita vegsemdar, heiðurs og ódauðleika,
8 en þeim reiði og óvild, sem leiðast af eigingirni og óhlýðnast sannleikanum, en hlýðnast ranglætinu.
9 Þrenging og angist kemur yfir sérhverja mannssál, er illt fremur, yfir Gyðinginn fyrst, en einnig hinn gríska.
10 En vegsemd, heiður og frið hlýtur sérhver sá er gjörir hið góða, Gyðingurinn fyrst, en einnig hinn gríski.
11 Því að Guð fer ekki í manngreinarálit.
by Icelandic Bible Society