Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Complementary)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with thematically matched Old and New Testament readings.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fimmta bók Móse 11:18-21

18 Fyrir því skuluð þér leggja þessi orð mín á hjarta yðar og huga, og þér skuluð binda þau til merkis á hönd yðar og hafa þau sem minningarbönd á milli augna yðar.

19 Og þér skuluð kenna þau börnum yðar með því að tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur.

20 Og þú skalt skrifa þau á dyrastafi húss þíns og á borgarhlið þín,

21 til þess að þér og börn yðar megið lifa í landinu, sem Drottinn sór feðrum yðar að gefa þeim, svo lengi sem himinn er yfir jörðu.

Fimmta bók Móse 11:26-28

26 Sjá, ég legg fyrir yður í dag blessun og bölvun:

27 blessunina, ef þér hlýðið skipunum Drottins Guðs yðar, sem ég býð yður í dag,

28 en bölvunina, ef þér hlýðið ekki skipunum Drottins Guðs yðar og víkið af þeim vegi, sem ég býð yður í dag, til þess að elta aðra guði, sem þér eigi hafið þekkt.

Sálmarnir 31:1-5

31 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar. Bjarga mér eftir réttlæti þínu,

hneig eyru þín til mín, frelsa mig í skyndi, ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar.

Því að þú ert bjarg mitt og vígi, og sakir nafns þíns munt þú leiða mig og stjórna mér.

Þú munt draga mig úr neti því, er þeir lögðu leynt fyrir mig, því að þú ert vörn mín.

Sálmarnir 31:19-24

19 Lát lygavarirnar þagna, þær er mæla drambyrði gegn réttlátum með hroka og fyrirlitningu.

20 Hversu mikil er gæska þín, er þú hefir geymt þeim er óttast þig, og auðsýnir þeim er leita hælis hjá þér frammi fyrir mönnunum.

21 Þú hylur þá í skjóli auglitis þíns fyrir svikráðum manna, felur þá í leyni fyrir deilum tungnanna.

22 Lofaður sé Drottinn, því að hann hefir sýnt mér dásamlega náð í öruggri borg.

23 Ég hugsaði í angist minni: "Ég er burtrekinn frá augum þínum." En samt heyrðir þú grátraust mína, er ég hrópaði til þín.

24 Elskið Drottin, allir þér hans trúuðu, Drottinn verndar trúfasta, en geldur í fullum mæli þeim er ofmetnaðarverk vinna.

Bréf Páls til Rómverja 1:16-17

16 Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið. Það er kraftur Guðs til hjálpræðis hverjum þeim sem trúir, Gyðingum fyrst, en einnig Grikkjum.

17 Því að réttlæti Guðs opinberast í því fyrir trú til trúar, eins og ritað er: "Hinn réttláti mun lifa fyrir trú."

Bréf Páls til Rómverja 3:22-28

22 Það er: Réttlæti Guðs fyrir trú á Jesú Krist öllum þeim til handa, sem trúa. Hér er enginn greinarmunur:

23 Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð,

24 og þeir réttlætast án verðskuldunar af náð hans fyrir endurlausnina, sem er í Kristi Jesú.

25 Guð setti hann fram, að hann með blóði sínu væri sáttarfórn þeim sem trúa. Þannig sýndi Guð réttlæti sitt, því að hann hafði í umburðarlyndi sínu umborið hinar áður drýgðu syndir,

26 til þess að auglýsa réttlæti sitt á yfirstandandi tíma, að hann sé sjálfur réttlátur og réttlæti þann, sem trúir á Jesú.

27 Hvar er þá hrósunin? Hún er úti lokuð. Með hvaða lögmáli? Verkanna? Nei, heldur með lögmáli trúar.

28 Vér ályktum því, að maðurinn réttlætist af trú án lögmálsverka.

Bréf Páls til Rómverja 3:29-31

29 Eða er Guð einungis Guð Gyðinga? Ekki líka heiðingja? Jú, líka heiðingja;

30 svo sannarlega sem Guð er einn, sem mun réttlæta umskorna menn af trú og óumskorna fyrir trúna.

31 Gjörum vér þá lögmálið að engu með trúnni? Fjarri fer því. Vér staðfestum lögmálið.

Matteusarguðspjall 7:21-29

21 Ekki mun hver sá, sem við mig segir: ,Herra, herra,` ganga inn í himnaríki, heldur sá einn, er gjörir vilja föður míns, sem er á himnum.

22 Margir munu segja við mig á þeim degi: ,Herra, herra, höfum vér ekki kennt í þínu nafni, rekið út illa anda í þínu nafni og gjört í þínu nafni mörg kraftaverk?`

23 Þá mun ég votta þetta: ,Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.`

24 Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni, er byggði hús sitt á bjargi.

25 Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi, en það féll eigi, því það var grundvallað á bjargi.

26 En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni, er byggði hús sitt á sandi.

27 Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll, og fall þess var mikið."

28 Þegar Jesús hafði lokið þessari ræðu, undraðist mannfjöldinn mjög kenningu hans,

29 því að hann kenndi þeim eins og sá, er vald hefur, og ekki eins og fræðimenn þeirra.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society