Revised Common Lectionary (Complementary)
104 Lofa þú Drottin, sála mín! Drottinn, Guð minn, þú ert harla mikill. Þú ert klæddur hátign og vegsemd.
2 Þú hylur þig ljósi eins og skikkju, þenur himininn út eins og tjalddúk.
3 Þú hvelfir hásal þinn í vötnunum, gjörir ský að vagni þínum, og ferð um á vængjum vindarins.
4 Þú gjörir vindana að sendiboðum þínum, bálandi eld að þjónum þínum.
5 Þú grundvallar jörðina á undirstöðum hennar, svo að hún haggast eigi um aldur og ævi.
6 Hafflóðið huldi hana sem klæði, vötnin náðu upp yfir fjöllin,
7 en fyrir þinni ógnun flýðu þau, fyrir þrumurödd þinni hörfuðu þau undan með skelfingu.
8 Þau gengu yfir fjöllin, steyptust niður í dalina, þangað sem þú hafðir búið þeim stað.
9 Þú settir takmörk, sem þau mega ekki fara yfir, þau skulu ekki hylja jörðina framar.
10 Þú sendir lindir í dalina, þær renna milli fjallanna,
11 þær svala öllum dýrum merkurinnar, villiasnarnir slökkva þorsta sinn.
12 Yfir þeim byggja fuglar himins, láta kvak sitt heyrast milli greinanna.
13 Þú vökvar fjöllin frá hásal þínum, jörðin mettast af ávexti verka þinna.
14 Þú lætur gras spretta handa fénaðinum og jurtir, sem maðurinn ræktar, til þess að framleiða brauð af jörðinni
15 og vín, sem gleður hjarta mannsins, olíu, sem gjörir andlitið gljáandi, og brauð, sem hressir hjarta mannsins.
16 Tré Drottins mettast, sedrustrén á Líbanon, er hann hefir gróðursett
17 þar sem fuglarnir byggja hreiður, storkarnir, er hafa kýprestrén að húsi.
18 Hin háu fjöll eru handa steingeitunum, klettarnir eru hæli fyrir stökkhérana.
19 Þú gjörðir tunglið til þess að ákvarða tíðirnar, sólin veit, hvar hún á að ganga til viðar.
20 Þegar þú gjörir myrkur, verður nótt, og þá fara öll skógardýrin á kreik.
21 Ljónin öskra eftir bráð og heimta æti sitt af Guði.
22 Þegar sól rennur upp, draga þau sig í hlé og leggjast fyrir í fylgsnum sínum,
23 en þá fer maðurinn út til starfa sinna, til vinnu sinnar fram á kveld.
24 Hversu mörg eru verk þín, Drottinn, þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað.
25 Þar er hafið, mikið og vítt á alla vegu, þar er óteljandi grúi, smá dýr og stór.
26 Þar fara skipin um og Levjatan, er þú hefir skapað til þess að leika sér þar.
27 Öll vona þau á þig, að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma.
28 Þú gefur þeim, og þau tína, þú lýkur upp hendi þinni, og þau mettast gæðum.
29 Þú byrgir auglit þitt, þá skelfast þau, þú tekur aftur anda þeirra, þá andast þau og hverfa aftur til moldarinnar.
30 Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til, og þú endurnýjar ásjónu jarðar.
31 Dýrð Drottins vari að eilífu, Drottinn gleðjist yfir verkum sínum,
32 hann sem lítur til jarðar, svo að hún nötrar, sem snertir við fjöllunum, svo að úr þeim rýkur.
33 Ég vil ljóða um Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.
34 Ó að mál mitt mætti falla honum í geð! Ég gleðst yfir Drottni.
35 Ó að syndarar mættu hverfa af jörðunni og óguðlegir eigi vera til framar. Vegsama þú Drottin, sála mín. Halelúja.
17 Elía Tisbíti, frá Tisbe í Gíleað, sagði við Akab: "Svo sannarlega sem Drottinn, Guð Ísraels, lifir, sá er ég þjóna, skal þessi árin hvorki drjúpa dögg né regn, nema ég segi."
2 Og orð Drottins kom til hans, svolátandi:
3 "Far þú héðan og hald austur á bóginn, og fel þig við lækinn Krít, sem er fyrir austan Jórdan.
4 Og þú skalt drekka úr læknum, og hröfnunum hefi ég boðið að fæða þig þar."
5 Hann gjörði sem Drottinn bauð honum, fór og settist að við lækinn Krít, sem er fyrir austan Jórdan.
6 Og hrafnarnir færðu honum brauð og kjöt á morgnana og brauð og kjöt á kveldin, og úr læknum drakk hann.
7 En eftir nokkurn tíma þornaði lækurinn upp, því að eigi hafði komið skúr á jörð.
8 Þá kom orð Drottins til hans, svolátandi:
9 "Tak þig upp og far til Sarefta, sem tilheyrir Sídon, og sest þar að. Sjá, ég hefi boðið ekkju nokkurri þar að fæða þig."
10 Þá tók hann sig upp og fór til Sarefta. Og er hann kom að borgarhliðinu, var ekkja þar að tína saman viðarkvisti. Hann kallaði til hennar og mælti: "Sæk þú mér dálítið af vatni í ílátinu, að ég megi drekka."
11 Og hún fór að sækja það, en hann kallaði á eftir henni og mælti: "Færðu mér líka brauðbita."
12 Hún svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn, Guð þinn, lifir, á ég enga köku til, heldur aðeins hnefa mjöls í skjólu og lítið eitt af viðsmjöri í krús. Og sjá, ég er að tína saman fáeina viðarkvisti. Síðan ætla ég heim og matbúa þetta handa mér og syni mínum, að við megum eta það og deyja síðan."
13 En Elía sagði við hana: "Óttast ekki! Far þú heim og gjör sem þú sagðir. Gjör þú mér samt fyrst litla köku af því og fær mér út hingað, en matreið síðan handa þér og syni þínum.
14 Því að svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Mjölskjólan skal eigi tóm verða og viðsmjörið í krúsinni ekki þrjóta, allt til þess dags, er Drottinn gefur regn á jörð."
15 Þá fór hún og gjörði eins og Elía hafði sagt, og hún hafði nóg að eta, bæði hún og hann og sonur hennar, um langa hríð.
16 Mjölskjólan varð ekki tóm og viðsmjörið í krúsinni þraut ekki, samkvæmt orði Drottins, því er hann hafði talað fyrir munn Elía.
6 En þetta hef ég yðar vegna, bræður, heimfært til sjálfs mín og Apollóss, til þess að þér af okkar dæmi mættuð læra regluna: "Farið ekki lengra en ritað er," _ og til þess að enginn yðar hroki sér upp einum í vil, öðrum til niðrunar.
7 Því að hver gefur þér yfirburði? Og hvað hefur þú, sem þú hefur ekki þegið? En hafir þú nú þegið það, hví stærir þú þig þá eins og þú hefðir ekki fengið það að gjöf?
8 Þér eruð þegar orðnir mettir, þér eruð þegar orðnir auðugir, án vor eruð þér orðnir konungar. Og ég vildi óska, að þér væruð orðnir konungar, til þess að einnig vér mættum vera konungar með yður!
9 Mér virðist Guð hafa sett oss postulana sísta allra, eins og dauðadæmda á leiksviði, frammi fyrir öllum heiminum, bæði englum og mönnum.
10 Vér erum heimskir sökum Krists, en þér vitrir fyrir samfélag yðar við Krist! Vér erum veikir, en þér sterkir, þér eruð í hávegum hafðir, en vér óvirtir.
11 Allt til þessarar stundar þolum vér hungur, þorsta og klæðleysi, oss er misþyrmt, vér höfum engan samastað,
12 og vér stöndum í erfiði og verðum að vinna með eigin höndum.
13 Hrakyrtir blessum vér, ofsóttir umberum vér, lastaðir áminnum vér. Vér erum orðnir eins og sorp heimsins, afhrak allra allt til þessa.
14 Ekki rita ég þetta til þess að gjöra yður kinnroða, heldur til að áminna yður eins og elskuleg börn mín.
15 Enda þótt þér hefðuð tíu þúsund fræðara í Kristi, þá hafið þér þó eigi marga feður. Ég hef í Kristi Jesú fætt yður með því að flytja yður fagnaðarerindið.
16 Ég bið yður: Verið eftirbreytendur mínir.
17 Þess vegna sendi ég Tímóteus til yðar, sem er elskað og trútt barn mitt í Drottni. Hann mun minna yður á vegu mína í Kristi, eins og ég kenni alls staðar í hverjum söfnuði.
18 En nokkrir hafa gjörst hrokafullir, rétt eins og ég ætlaði ekki að koma til yðar,
19 en ég mun brátt koma til yðar, ef Drottinn vill, og mun ég þá kynna mér, ekki orð hinna stærilátu, heldur kraft þeirra.
20 Því að Guðs ríki er ekki fólgið í orðum, heldur í krafti.
21 Hvað viljið þér? Á ég að koma til yðar með hirtingarvönd eða í kærleika og hógværðar anda?
by Icelandic Bible Society