Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Complementary)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with thematically matched Old and New Testament readings.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 131

131 Drottinn, hjarta mitt er eigi dramblátt né augu mín hrokafull. Ég fæst eigi við mikil málefni, né þau sem mér eru ofvaxin.

Sjá, ég hefi sefað sál mína og þaggað niður í henni. Eins og afvanið barn hjá móður sinni, svo er sál mín í mér.

Vona, Ísrael, á Drottin, héðan í frá og að eilífu.

Jesaja 31

31 Vei þeim, sem fara suður til Egyptalands í liðsbón, sem reiða sig á hesta og treysta á vagna, af því að þeir séu margir, og á riddara, af því að fjöldinn sé mikill, en líta ekki til Hins heilaga í Ísrael og leita ekki Drottins.

En hann er líka ráðspakur og lætur ógæfuna yfir koma og tekur ekki orð sín aftur. Hann rís upp í móti húsi illvirkjanna og í móti hjálparliði misgjörðamannanna.

Egyptar eru menn, en enginn Guð, hestar þeirra eru hold, en eigi andi. Þegar Drottinn réttir út hönd sína, hrasar liðveitandinn og liðþeginn fellur, svo að þeir farast allir hver með öðrum.

Svo hefir Drottinn við mig sagt: Eins og ljónið eða ljónskálfurinn urrar yfir bráð sinni, þegar hjarðmannahóp er stefnt saman á móti honum, og hann hræðist ekki köll þeirra og lætur ekki hugfallast við háreysti þeirra, eins mun Drottinn allsherjar ofan stíga til þess að herja á Síonfjall og hæð þess.

Eins og fuglar á flökti, eins mun Drottinn allsherjar vernda Jerúsalem, vernda hana og frelsa, vægja henni og bjarga.

Hverfið aftur, þér Ísraelsmenn, til hans, sem þér eruð horfnir svo langt í burtu frá.

Því að á þeim degi munu þeir hver og einn hafna silfurgoðum sínum og gullgoðum, er sekar hendur yðar hafa gjört handa yður.

Assýría skal fyrir sverði falla, en ekki fyrir manna sverði. Sverð skal verða henni að bana, en ekkert mannssverð. Hún mun undan sverði flýja og æskumenn hennar verða ánauðugir.

Og bjarg hennar mun farast af ótta og höfðingjar hennar flýja í ofboði undan merkinu. Svo segir Drottinn, sem hefir eld sinn á Síon og arin sinn í Jerúsalem.

Lúkasarguðspjall 11:14-23

14 Jesús var að reka út illan anda, og var sá mállaus. Þegar illi andinn var út farinn, tók málleysinginn að mæla, og undraðist mannfjöldinn.

15 En sumir þeirra sögðu: "Með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda, rekur hann út illu andana."

16 En aðrir vildu freista hans og kröfðu hann um tákn af himni.

17 En hann vissi hugrenningar þeirra og sagði við þá: "Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hús fellur á hús.

18 Sé nú Satan sjálfum sér sundurþykkur, hvernig fær ríki hans þá staðist _ fyrst þér segið, að ég reki illu andana út með fulltingi Beelsebúls?

19 En reki ég illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út? Því skulu þeir vera dómarar yðar.

20 En ef ég rek illu andana út með fingri Guðs, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið.

21 Þegar sterkur maður, alvopnaður, varðveitir hús sitt, þá er allt í friði, sem hann á,

22 en ráðist annar honum sterkari á hann og sigri hann, tekur sá alvæpni hans, er hann treysti á, og skiptir herfanginu.

23 Hver sem er ekki með mér, er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society