Revised Common Lectionary (Complementary)
38 Davíðssálmur. Minningarljóð.
2 Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni.
3 Örvar þínar standa fastar í mér, og hönd þín liggur þungt á mér.
4 Enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum sakir reiði þinnar, ekkert heilt í beinum mínum sakir syndar minnar.
5 Misgjörðir mínar ganga mér yfir höfuð, sem þung byrði eru þær mér of þungar orðnar.
6 Ódaun leggur af sárum mínum, rotnun er í þeim sakir heimsku minnar.
7 Ég er beygður og mjög bugaður, ráfa um harmandi daginn langan.
8 Lendar mínar eru fullar bruna, og enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum.
9 Ég er lémagna og kraminn mjög, kveina af angist hjartans.
10 Drottinn, öll mín þrá er þér kunn og andvörp mín eru eigi hulin þér.
11 Hjarta mitt berst ákaft, kraftur minn er þrotinn, jafnvel ljós augna minna er horfið mér.
12 Ástvinir mínir og kunningjar hörfa burt fyrir kröm minni, og frændur mínir standa fjarri.
13 Þeir er sitja um líf mitt, leggja snörur fyrir mig, þeir er leita mér meins, mæla skaðræði og hyggja á svik allan liðlangan daginn.
14 En ég er sem daufur, ég heyri það ekki, og sem dumbur, er eigi opnar munninn,
15 ég er sem maður er eigi heyrir og engin andmæli eru í munni hans.
16 Því að á þig, Drottinn, vona ég, þú munt svara mér, Drottinn minn og Guð minn,
17 því að ég segi: "Lát þá eigi hlakka yfir mér, eigi hælast um af því, að mér skriðni fótur."
18 Því að ég er að falli kominn, og þjáningar mínar eru mér æ fyrir augum.
19 Ég játa misgjörð mína, harma synd mína,
20 og þeir sem án saka eru óvinir mínir, eru margir, fjölmargir þeir er hata mig að ástæðulausu.
21 Þeir gjalda mér gott með illu, sýna mér fjandskap, af því ég legg stund á það sem gott er.
22 Yfirgef mig ekki, Drottinn, Guð minn, ver ekki fjarri mér,
23 skunda til liðs við mig, Drottinn, þú hjálp mín.
4 Og það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús Drottins stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar, og þangað munu lýðirnir streyma.
2 Og margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: "Komið, förum upp á fjall Drottins og til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum." Því að frá Síon mun kenning út ganga og orð Drottins frá Jerúsalem.
3 Og hann mun dæma meðal margra lýða og skera úr málum voldugra þjóða langt í burtu. Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.
4 Hver mun búa undir sínu víntré og undir sínu fíkjutré og enginn hræða þá. Því að munnur Drottins allsherjar hefir talað það.
5 Því að allar þjóðirnar ganga hver í nafni síns guðs, en vér göngum í nafni Drottins, Guðs vors, æ og ævinlega.
6 Á þeim degi _ segir Drottinn _ vil ég saman safna því halta og smala saman því tvístraða og þeim er ég hefi tjón unnið,
7 og ég vil gjöra hið halta að nýjum kynstofni og hið burtflæmda að voldugri þjóð. Og Drottinn sjálfur mun verða konungur yfir þeim á Síonfjalli héðan í frá og að eilífu.
1 Páll, að Guðs vilja postuli Krists Jesú, og Tímóteus, bróðir vor, heilsa söfnuði Guðs, sem er í Korintu, ásamt öllum heilögum, í gjörvallri Akkeu.
2 Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
3 Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar,
4 sem huggar oss í sérhverri þrenging vorri, svo að vér getum huggað alla aðra í þrengingum þeirra með þeirri huggun, sem vér höfum sjálfir af Guði hlotið.
5 Því að eins og þjáningar Krists koma í ríkum mæli yfir oss, þannig hljótum vér og huggun í ríkum mæli fyrir Krist.
6 En ef vér sætum þrengingum, þá er það yður til huggunar og hjálpræðis, og ef vér hljótum huggun, þá er það til þess að þér hljótið huggun og kraft til að standast þær þjáningar, sem vér einnig líðum.
7 Von vor um yður er staðföst. Vér vitum, að þér eigið hlut í huggun vorri eins og þér eigið hlut í þjáningum vorum.
8 Vér viljum ekki, bræður mínir, að yður sé ókunnugt um þrenging þá, sem vér urðum fyrir í Asíu. Vér vorum aðþrengdir langt um megn fram, svo að vér jafnvel örvæntum um lífið.
9 Já, oss sýndist sjálfum, að vér hefðum þegar fengið vorn dauðadóm. Því að oss átti að lærast það að treysta ekki sjálfum oss, heldur Guði, sem uppvekur hina dauðu.
10 Úr slíkri dauðans hættu frelsaði hann oss og mun frelsa oss. Til hans höfum vér sett von vora, að hann muni enn frelsa oss.
11 Til þess getið þér og hjálpað með því að biðja fyrir oss. Þá munu margir þakka þá náðargjöf, sem oss er veitt að fyrirbæn margra.
by Icelandic Bible Society