Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Complementary)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with thematically matched Old and New Testament readings.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 38

38 Davíðssálmur. Minningarljóð.

Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni.

Örvar þínar standa fastar í mér, og hönd þín liggur þungt á mér.

Enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum sakir reiði þinnar, ekkert heilt í beinum mínum sakir syndar minnar.

Misgjörðir mínar ganga mér yfir höfuð, sem þung byrði eru þær mér of þungar orðnar.

Ódaun leggur af sárum mínum, rotnun er í þeim sakir heimsku minnar.

Ég er beygður og mjög bugaður, ráfa um harmandi daginn langan.

Lendar mínar eru fullar bruna, og enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum.

Ég er lémagna og kraminn mjög, kveina af angist hjartans.

10 Drottinn, öll mín þrá er þér kunn og andvörp mín eru eigi hulin þér.

11 Hjarta mitt berst ákaft, kraftur minn er þrotinn, jafnvel ljós augna minna er horfið mér.

12 Ástvinir mínir og kunningjar hörfa burt fyrir kröm minni, og frændur mínir standa fjarri.

13 Þeir er sitja um líf mitt, leggja snörur fyrir mig, þeir er leita mér meins, mæla skaðræði og hyggja á svik allan liðlangan daginn.

14 En ég er sem daufur, ég heyri það ekki, og sem dumbur, er eigi opnar munninn,

15 ég er sem maður er eigi heyrir og engin andmæli eru í munni hans.

16 Því að á þig, Drottinn, vona ég, þú munt svara mér, Drottinn minn og Guð minn,

17 því að ég segi: "Lát þá eigi hlakka yfir mér, eigi hælast um af því, að mér skriðni fótur."

18 Því að ég er að falli kominn, og þjáningar mínar eru mér æ fyrir augum.

19 Ég játa misgjörð mína, harma synd mína,

20 og þeir sem án saka eru óvinir mínir, eru margir, fjölmargir þeir er hata mig að ástæðulausu.

21 Þeir gjalda mér gott með illu, sýna mér fjandskap, af því ég legg stund á það sem gott er.

22 Yfirgef mig ekki, Drottinn, Guð minn, ver ekki fjarri mér,

23 skunda til liðs við mig, Drottinn, þú hjálp mín.

Jesaja 30:18-26

18 En Drottinn bíður þess að geta miskunnað yður og heldur kyrru fyrir, uns hann getur líknað yður. Því að Drottinn er Guð réttlætis. Sælir eru allir þeir, sem á hann vona.

19 Já, þú lýður í Síon, þú sem býr í Jerúsalem, grát þú eigi án afláts. Hann mun vissulega miskunna þér, þegar þú kallar í neyðinni, hann mun bænheyra þig, þegar hann heyrir til þín.

20 Drottinn mun gefa yður neyðarbrauð og þrengingarvatn. En hann, sem kennir þér, mun þá eigi framar fela sig, heldur munu augu þín líta hann,

21 og eyru þín munu heyra þessi orð kölluð á eftir þér, þá er þér víkið til hægri handar eða vinstri: "Hér er vegurinn! Farið hann!"

22 Þá munuð þér óhrein telja hin silfurlögðu skurðgoð yðar og hin gullbúnu líkneski yðar. Þú munt burt snara þeim eins og einhverri viðurstyggð, þú munt segja við þau: "Burt héðan."

23 Þá mun hann regn gefa sæði því, er þú sáir í akurland þitt, og brauð af gróðri akurlandsins; kjarngott og kostmikið mun það vera; fénaður þinn mun á þeim degi ganga í víðlendum grashaga.

24 Uxarnir og asnarnir, sem akurinn erja, skulu eta saltan fóðurblending, sem hreinsaður hefir verið með varpskóflu og varpkvísl.

25 Á hverju háu fjalli og á hverri gnæfandi hæð munu vatnslækir fram fljóta á hinum mikla mannfallsdegi, þegar turnarnir hrynja.

26 Þá mun tunglsljósið verða sem sólarljós, og sólarljósið sjöfaldast, eins og sjö daga ljós, þann dag er Drottinn bindur um sár þjóðar sinnar og græðir hennar krömdu undir.

Postulasagan 14:8-18

Í Lýstru var maður nokkur máttvana í fótum, lami frá móðurlífi, og hafði aldrei getað gengið.

Maður þessi heyrði á mál Páls, en Páll horfði á hann og sá, að hann hafði trú til þess að verða heill,

10 og sagði hárri raustu: "Rís upp og stattu í fæturna!" Hann spratt upp og tók að ganga.

11 Múgurinn sá, hvað Páll hafði gjört, og tók að hrópa á lýkaónsku: "Guðirnir eru í manna líki stignir niður til vor."

12 Kölluðu þeir Barnabas Seif, en Pál Hermes, því að hann hafði orð fyrir þeim.

13 En prestur í hofi Seifs utan borgar kom með naut og kransa að borgarhliðunum og vildi færa fórnir ásamt fólkinu.

14 Þegar postularnir, Barnabas og Páll, heyrðu þetta, rifu þeir klæði sín, stukku inn í mannþröngina og hrópuðu:

15 "Menn, hví gjörið þér þetta? Menn erum vér sem þér, yðar líkar, og flytjum yður þau fagnaðarboð, að þér skuluð hverfa frá þessum fánýtu goðum til lifanda Guðs, sem skapaði himin, jörð og haf og allt, sem í þeim er.

16 Hann hefur um liðnar aldir leyft, að sérhver þjóð gengi sína vegu.

17 En þó hefur hann vitnað um sjálfan sig með velgjörðum sínum. Hann hefur gefið yður regn af himni og uppskerutíðir. Hann hefur veitt yður fæðu og fyllt hjörtu yðar gleði."

18 Með þessum orðum fengu þeir með naumindum fólkið ofan af því að færa þeim fórnir.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society