Revised Common Lectionary (Complementary)
18 Rennið eigi huga til hins umliðna og gefið eigi gætur að því er áður var.
19 Sjá, nú hefi ég nýtt fyrir stafni, það tekur þegar að votta fyrir því _ sjáið þér það ekki? Ég gjöri veg um eyðimörkina og leiði ár um öræfin.
20 Dýr merkurinnar, sjakalar og strútsfuglar skulu vegsama mig, því að ég leiði vatn um eyðimörkina og ár um öræfin til þess að svala lýð mínum, mínum útvalda.
21 Sá lýður, sem ég hefi skapað mér til handa, skal víðfrægja lof mitt.
22 Eigi hefir þú ákallað mig, Jakobsætt, né lagt þig í líma fyrir mig, Ísrael.
23 Þú hefir ekki fært mér sauðkindur þínar í brennifórnir og eigi tignað mig með sláturfórnum þínum. Ég hefi eigi mætt þig með matfórnum né þreytt þig með reykelsi.
24 Þú hefir ekki keypt ilmreyr fyrir silfur mér til handa, og þú hefir ekki satt mig á feiti sláturfórna þinna, heldur hefir þú mætt mig með syndum þínum og þreytt mig með misgjörðum þínum.
25 Ég, ég einn afmái afbrot þín sjálfs mín vegna og minnist ekki synda þinna.
41 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Sæll er sá er gefur gaum að bágstöddum, á mæðudeginum bjargar Drottinn honum.
3 Drottinn varðveitir hann og lætur hann njóta lífs og sælu í landinu. Og eigi ofurselur þú hann græðgi óvina hans.
4 Drottinn styður hann á sóttarsænginni, þegar hann er sjúkur, breytir þú beð hans í hvílurúm.
5 Ég sagði: "Ver mér náðugur, Drottinn, lækna sál mína, því að ég hefi syndgað móti þér."
6 Óvinir mínir biðja mér óbæna: "Hvenær skyldi hann deyja og nafn hans hverfa?"
7 Og ef einhver kemur til þess að vitja mín, talar hann tál. Hjarta hans safnar að sér illsku, hann fer út og lætur dæluna ganga.
8 Allir hatursmenn mínir hvískra um mig, þeir hyggja á illt mér til handa:
9 "Hann er altekinn helsótt, hann er lagstur og rís eigi upp framar."
10 Jafnvel sá er ég lifði í sátt við, sá er ég treysti, sá er etið hefir af mat mínum, lyftir hæl sínum í móti mér.
11 En þú, Drottinn, ver mér náðugur og lát mig aftur rísa á fætur, að ég megi endurgjalda þeim.
12 Af því veit ég, að þú hefir þóknun á mér, að óvinur minn hlakkar ekki yfir mér.
13 Vegna sakleysis míns hélst þú mér uppi og lætur mig standa frammi fyrir augliti þínu að eilífu. _________
14 Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, frá eilífð til eilífðar. Amen. Amen.
18 Svo sannarlega sem Guð er trúr: Það, sem vér segjum yður, er ekki bæði já og nei.
19 Sonur Guðs, Jesús Kristur, sem vér höfum prédikað á meðal yðar, ég, Silvanus og Tímóteus, var ekki bæði "já" og "nei", heldur er allt í honum "já".
20 Því að svo mörg sem fyrirheit Guðs eru, þá er játun þeirra í honum. Þess vegna segjum vér og fyrir hann amen Guði til dýrðar.
21 Það er Guð, sem gjörir oss ásamt yður staðfasta í Kristi og hefur smurt oss.
22 Hann hefur sett innsigli sitt á oss og gefið oss anda sinn sem pant í hjörtum vorum.
2 Nokkrum dögum síðar kom hann aftur til Kapernaum. Þegar fréttist, að hann væri heima,
2 söfnuðust þar svo margir, að hvergi var lengur rúm, ekki einu sinni fyrir dyrum úti. Og hann flutti þeim orðið.
3 Þá er komið með lama mann, og báru fjórir.
4 Þegar þeir gátu ekki komist með hann til Jesú fyrir fólkinu, rufu þeir þekjuna uppi yfir honum, grófu þar í gegn og létu síga ofan rekkjuna, sem hinn lami lá í.
5 Þá er Jesús sér trú þeirra, segir hann við lama manninn: "Barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar."
6 Þar sátu nokkrir fræðimenn og hugsuðu í hjörtum sínum:
7 "Hví mælir þessi maður svo? Hann guðlastar. Hver getur fyrirgefið syndir nema Guð einn?"
8 Samstundis skynjaði Jesús í anda sínum, að þeir hugsuðu þannig með sér, og hann sagði við þá: "Hví hugsið þér slíkt í hjörtum yðar?
9 Hvort er auðveldara að segja við lama manninn: ,Syndir þínar eru fyrirgefnar,` eða segja: ,Statt upp, tak rekkju þína og gakk?`
10 En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald til að fyrirgefa syndir á jörðu,
11 þá segi ég þér" _ og nú talar hann við lama manninn: _ "Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín."
12 Hann stóð upp, tók jafnskjótt rekkjuna og gekk burt í allra augsýn, svo að allir voru furðu lostnir, lofuðu Guð og sögðu: "Aldrei áður höfum vér þvílíkt séð."
by Icelandic Bible Society