Revised Common Lectionary (Complementary)
41 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Sæll er sá er gefur gaum að bágstöddum, á mæðudeginum bjargar Drottinn honum.
3 Drottinn varðveitir hann og lætur hann njóta lífs og sælu í landinu. Og eigi ofurselur þú hann græðgi óvina hans.
4 Drottinn styður hann á sóttarsænginni, þegar hann er sjúkur, breytir þú beð hans í hvílurúm.
5 Ég sagði: "Ver mér náðugur, Drottinn, lækna sál mína, því að ég hefi syndgað móti þér."
6 Óvinir mínir biðja mér óbæna: "Hvenær skyldi hann deyja og nafn hans hverfa?"
7 Og ef einhver kemur til þess að vitja mín, talar hann tál. Hjarta hans safnar að sér illsku, hann fer út og lætur dæluna ganga.
8 Allir hatursmenn mínir hvískra um mig, þeir hyggja á illt mér til handa:
9 "Hann er altekinn helsótt, hann er lagstur og rís eigi upp framar."
10 Jafnvel sá er ég lifði í sátt við, sá er ég treysti, sá er etið hefir af mat mínum, lyftir hæl sínum í móti mér.
11 En þú, Drottinn, ver mér náðugur og lát mig aftur rísa á fætur, að ég megi endurgjalda þeim.
12 Af því veit ég, að þú hefir þóknun á mér, að óvinur minn hlakkar ekki yfir mér.
13 Vegna sakleysis míns hélst þú mér uppi og lætur mig standa frammi fyrir augliti þínu að eilífu. _________
14 Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, frá eilífð til eilífðar. Amen. Amen.
38 Um þær mundir tók Hiskía sótt og var að dauða kominn. Þá kom Jesaja Amozson spámaður til hans og sagði við hann: "Svo segir Drottinn: Ráðstafa húsi þínu, því að þú munt deyja og eigi lifa."
2 Þá sneri Hiskía andliti sínu til veggjar, bað til Drottins
3 og mælti: "Æ, Drottinn, minnstu þess, að ég hefi gengið fyrir augliti þínu með trúmennsku og einlægu hjarta og gjört það, sem þér er þóknanlegt!" Og hann grét sáran.
4 Þá kom orð Drottins, til Jesaja, svolátandi:
5 "Far og seg Hiskía: Svo segir Drottinn, Guð Davíðs, forföður þíns: Ég hefi heyrt bæn þína og séð tár þín. Sjá, ég vil enn leggja fimmtán ár við aldur þinn.
6 Og ég vil frelsa þig og þessa borg af hendi Assýríukonungs, og ég mun vernda þessa borg.
7 Og þetta skalt þú til marks hafa af Drottni, að Drottinn muni efna það, sem hann hefir heitið:
8 Sjá, ég færi aftur stigskuggann, er með sólinni hefir færst niður á sólskífu Akasar, um tíu stig." Og sólin færðist aftur á bak þau tíu stig á sólskífunni, er hún hafði gengið niður.
7 Þolið aga. Guð fer með yður eins og syni. Hver er sá sonur, sem faðirinn ekki agar?
8 En séuð þér án aga, sem allir hafa fyrir orðið, þá eruð þér þrælbornir og ekki synir.
9 Enn er það, að vér bjuggum við aga jarðneskra feðra og bárum virðingu fyrir þeim. Skyldum vér þá ekki miklu fremur vera undirgefnir föður andanna og lifa?
10 Feður vorir öguðu oss um fáa daga, eftir því sem þeim leist, en oss til gagns agar hann oss, svo að vér fáum hlutdeild í heilagleika hans.
11 Í bili virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni, heldur hryggðar, en eftir á gefur hann þeim, er við hann hafa tamist, ávöxt friðar og réttlætis.
12 Réttið því úr máttvana höndum og magnþrota knjám.
13 Látið fætur yðar feta beinar brautir, til þess að hið fatlaða vindist ekki úr liði, en verði heilt.
by Icelandic Bible Society