Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Complementary)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with thematically matched Old and New Testament readings.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 38

38 Davíðssálmur. Minningarljóð.

Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni.

Örvar þínar standa fastar í mér, og hönd þín liggur þungt á mér.

Enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum sakir reiði þinnar, ekkert heilt í beinum mínum sakir syndar minnar.

Misgjörðir mínar ganga mér yfir höfuð, sem þung byrði eru þær mér of þungar orðnar.

Ódaun leggur af sárum mínum, rotnun er í þeim sakir heimsku minnar.

Ég er beygður og mjög bugaður, ráfa um harmandi daginn langan.

Lendar mínar eru fullar bruna, og enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum.

Ég er lémagna og kraminn mjög, kveina af angist hjartans.

10 Drottinn, öll mín þrá er þér kunn og andvörp mín eru eigi hulin þér.

11 Hjarta mitt berst ákaft, kraftur minn er þrotinn, jafnvel ljós augna minna er horfið mér.

12 Ástvinir mínir og kunningjar hörfa burt fyrir kröm minni, og frændur mínir standa fjarri.

13 Þeir er sitja um líf mitt, leggja snörur fyrir mig, þeir er leita mér meins, mæla skaðræði og hyggja á svik allan liðlangan daginn.

14 En ég er sem daufur, ég heyri það ekki, og sem dumbur, er eigi opnar munninn,

15 ég er sem maður er eigi heyrir og engin andmæli eru í munni hans.

16 Því að á þig, Drottinn, vona ég, þú munt svara mér, Drottinn minn og Guð minn,

17 því að ég segi: "Lát þá eigi hlakka yfir mér, eigi hælast um af því, að mér skriðni fótur."

18 Því að ég er að falli kominn, og þjáningar mínar eru mér æ fyrir augum.

19 Ég játa misgjörð mína, harma synd mína,

20 og þeir sem án saka eru óvinir mínir, eru margir, fjölmargir þeir er hata mig að ástæðulausu.

21 Þeir gjalda mér gott með illu, sýna mér fjandskap, af því ég legg stund á það sem gott er.

22 Yfirgef mig ekki, Drottinn, Guð minn, ver ekki fjarri mér,

23 skunda til liðs við mig, Drottinn, þú hjálp mín.

Harmljóðin 5

Minnstu þess, Drottinn, hvað yfir oss hefir gengið, lít þú á og sjá háðung vora.

Arfleifð vor er komin í hendur annarra, hús vor í hendur útlendinga.

Vér erum orðnir munaðarleysingjar, föðurlausir, mæður vorar orðnar sem ekkjur.

Vatnið sem vér drekkum, verðum vér að kaupa, viðinn fáum vér aðeins gegn borgun.

Ofsækjendur vorir sitja á hálsi vorum, þótt vér séum þreyttir, fáum vér enga hvíld.

Til Egyptalands réttum vér út höndina, til Assýríu, til þess að seðjast af mat.

Feður vorir syndguðu, þeir eru eigi framar til, og vér berum misgjörð þeirra.

Þrælar drottna yfir oss, enginn hrífur oss úr höndum þeirra.

Með lífsháska sækjum vér matbjörg vora í eyðimörkinni, þar sem sverðið vofir yfir oss.

10 Hörund vort er orðið svart eins og ofn af hungurbruna.

11 Konur hafa þeir svívirt í Síon, meyjar í Júda-borgum.

12 Höfðingja hengdu þeir, öldungnum sýndu þeir enga virðingu.

13 Æskumennirnir urðu að þræla við kvörnina, og sveinarnir duttu undir viðarbyrðunum.

14 Öldungarnir eru horfnir úr borgarhliðunum, æskumennirnir frá strengleikum.

15 Fögnuður hjarta vors er þrotinn, gleðidans vor snúinn í sorg.

16 Kórónan er fallin af höfði voru, vei oss, því að vér höfum syndgað.

17 Af því er hjarta vort sjúkt orðið, vegna þess eru augu vor döpur,

18 vegna Síonarfjalls, sem er í eyði og refir nú hlaupa um.

19 Þú, Drottinn, ríkir að eilífu, þitt hásæti stendur frá kyni til kyns.

20 Hví vilt þú gleyma oss eilíflega, yfirgefa oss um langan aldur?

21 Snú þú oss til þín, Drottinn, þá snúum vér við, lát þú daga vora aftur verða eins og forðum!

Jóhannesarguðspjall 5:19-29

19 Þessu svaraði Jesús og sagði við þá: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Ekkert getur sonurinn gjört af sjálfum sér, nema það sem hann sér föðurinn gjöra. Því hvað sem hann gjörir, það gjörir sonurinn einnig.

20 Faðirinn elskar soninn og sýnir honum allt, sem hann gjörir sjálfur. Hann mun sýna honum meiri verk en þessi, svo að þér verðið furðu lostnir.

21 Eins og faðirinn vekur upp dauða og lífgar, þannig lífgar og sonurinn þá, sem hann vill.

22 Enda dæmir faðirinn engan, heldur hefur hann falið syninum allan dóm,

23 svo að allir heiðri soninn eins og þeir heiðra föðurinn. Sá sem heiðrar ekki soninn, heiðrar ekki föðurinn, sem sendi hann.

24 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim, sem sendi mig, hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms, heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins.

25 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sú stund kemur og er þegar komin, að hinir dauðu munu heyra raust Guðs sonarins, og þeir, sem heyra, munu lifa.

26 Eins og faðirinn hefur líf í sjálfum sér, þannig hefur hann og veitt syninum að hafa líf í sjálfum sér.

27 Og hann hefur veitt honum vald til að halda dóm, því að hann er Mannssonur.

28 Undrist þetta ekki. Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans

29 og ganga fram, þeir, sem gjört hafa hið góða, munu rísa upp til lífsins, en þeir, sem drýgt hafa hið illa, til dómsins.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society