Revised Common Lectionary (Complementary)
14 Ég vil lokka hana og leiða hana út í eyðimörk og hughreysta hana,
15 og ég gef henni þar víngarða sína og gjöri Mæðudal að Vonarhliði, og þá mun hún verða eftirlát eins og á æskudögum sínum og eins og þá er hún fór burt af Egyptalandi.
16 Á þeim degi, _ segir Drottinn _ munt þú ávarpa mig "Maðurinn minn," en ekki framar kalla til mín "Baal minn."
17 Og ég vil venja hana af að hafa nöfn Baalanna á vörum sér, svo að þeirra skal eigi verða framar getið með nafni.
18 Og á þeim degi gjöri ég fyrir þá sáttmála við dýr merkurinnar og fugla himinsins og skriðkvikindi jarðarinnar, og eyði bogum, sverðum og bardögum úr landinu og læt þá búa örugga.
19 Og ég mun festa þig mér eilíflega, ég mun festa þig mér í réttlæti og réttvísi, í kærleika og miskunnsemi,
20 ég mun festa þig mér í trúfesti, og þú skalt þekkja Drottin.
103 Davíðssálmur. Lofa þú Drottin, sála mín, og allt sem í mér er, hans heilaga nafn,
2 lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans.
3 Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein,
4 leysir líf þitt frá gröfinni, krýnir þig náð og miskunn.
5 Hann mettar þig gæðum, þú yngist upp sem örninn.
6 Drottinn fremur réttlæti og veitir rétt öllum kúguðum.
7 Hann gjörði Móse vegu sína kunna og Ísraelsbörnum stórvirki sín.
8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.
9 Hann þreytir eigi deilur um aldur og er eigi eilíflega reiður.
10 Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum,
11 heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.
12 Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss.
13 Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann.
22 Lofið Drottin, öll verk hans, á hverjum stað í ríki hans. Lofa þú Drottin, sála mín.
3 Erum vér nú aftur teknir að mæla með sjálfum oss? Eða mundum vér þurfa, eins og sumir, meðmælabréf til yðar eða frá yður?
2 Þér eruð vort bréf, ritað á hjörtu vor, þekkt og lesið af öllum mönnum.
3 Þér sýnið ljóslega, að þér eruð bréf Krists, sem vér höfum unnið að, ekki skrifað með bleki, heldur með anda lifanda Guðs, ekki á steinspjöld, heldur á hjartaspjöld úr holdi.
4 En þetta traust höfum vér til Guðs fyrir Krist.
5 Ekki svo, að vér séum sjálfir hæfir og eitthvað komi frá oss sjálfum, heldur er hæfileiki vor frá Guði,
6 sem hefur gjört oss hæfa til að vera þjóna nýs sáttmála, ekki bókstafs, heldur anda. Því að bókstafurinn deyðir, en andinn lífgar.
13 Aftur fór hann út og gekk með vatninu, og allur mannfjöldinn kom til hans, og hann kenndi þeim.
14 Og er hann gekk þar, sá hann Leví Alfeusson sitja hjá tollbúðinni, og hann segir við hann: "Fylg þú mér!" Og hann stóð upp og fylgdi honum.
15 Svo bar við, að Jesús sat að borði í húsi hans, og margir tollheimtumenn og bersyndugir sátu þar með honum og lærisveinum hans, en margir fylgdu honum.
16 Fræðimenn af flokki farísea, sem sáu, að hann samneytti bersyndugum og tollheimtumönnum, sögðu þá við lærisveina hans: "Hann etur með tollheimtumönnum og bersyndugum."
17 Jesús heyrði þetta og svaraði þeim: "Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir, sem sjúkir eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara."
18 Lærisveinar Jóhannesar og farísear héldu nú föstu. Þá koma menn til Jesú og spyrja hann: "Hví fasta lærisveinar Jóhannesar og lærisveinar farísea, en þínir lærisveinar fasta ekki?"
19 Jesús svaraði þeim: "Hvort geta brúðkaupsgestir fastað, meðan brúðguminn er hjá þeim? Alla þá stund, sem brúðguminn er hjá þeim, geta þeir ekki fastað.
20 En koma munu þeir dagar, er brúðguminn verður frá þeim tekinn, þá munu þeir fasta, á þeim degi.
21 Enginn saumar bót af óþæfðum dúk á gamalt fat, því þá rífur nýja bótin af hinu gamla og verður af verri rifa.
22 Og enginn lætur nýtt vín á gamla belgi, því þá sprengir vínið belgina, og vínið ónýtist og belgirnir. Nýtt vín er látið á nýja belgi."
by Icelandic Bible Society