Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Complementary)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with thematically matched Old and New Testament readings.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 103:1-13

103 Davíðssálmur. Lofa þú Drottin, sála mín, og allt sem í mér er, hans heilaga nafn,

lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans.

Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein,

leysir líf þitt frá gröfinni, krýnir þig náð og miskunn.

Hann mettar þig gæðum, þú yngist upp sem örninn.

Drottinn fremur réttlæti og veitir rétt öllum kúguðum.

Hann gjörði Móse vegu sína kunna og Ísraelsbörnum stórvirki sín.

Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.

Hann þreytir eigi deilur um aldur og er eigi eilíflega reiður.

10 Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum,

11 heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.

12 Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss.

13 Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann.

Sálmarnir 103:22

22 Lofið Drottin, öll verk hans, á hverjum stað í ríki hans. Lofa þú Drottin, sála mín.

Esekíel 16:1-14

16 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, leið Jerúsalem fyrir sjónir svívirðingar hennar

og seg: Svo segir Drottinn Guð við Jerúsalem: Að uppruna og ætterni ert þú frá Kanaanlandi. Faðir þinn var Amoríti og móðir þín Hetíti.

Og það er að segja af fæðing þinni, að þann dag, sem þú fæddist, var hvorki skorið á naflastreng þinn né þú lauguð í vatni, ekki núin salti og ekki reifum vafin.

Enginn renndi til þín meðaumkunarauga til þess að veita þér nokkurt eitt af þessu og aumkast yfir þig, heldur var þér kastað út á víðavang _ svo lítils var líf þitt metið daginn sem þú fæddist.

Þá gekk ég fram á þig og sá þig vera að brölta í blóði þínu og sagði við þig: ,Þú, sem liggur þarna í blóði þínu, halt þú lífi!`

Og þú óxt eins og grös vallarins, og þú stækkaðir og varðst mikil vexti og hin fríðasta sýnum. Brjóstin voru orðin stinn og hár þitt óx mjög, en þó varstu ber og nakin.

Þá varð mér gengið fram á þig og ég sá þig, og var þá þinn tími ástarinnar tími. Ég breiddi yfir þig ábreiðu mína og huldi nekt þína, ég trúlofaðist þér og gjörði við þig sáttmála _ segir Drottinn Guð _ og þú varðst mín.

Og ég laugaði þig í vatni, þvoði af þér blóðið og smurði þig með olífuolíu.

10 Og ég færði þig í glitklæði og fékk þér skó af höfrungaskinni, faldaði þér með hvítu líni og huldi þig silkiblæju.

11 Ég skreytti þig skarti, spennti armbaugum um handleggi þína og festi um háls þinn.

12 Ég lét á þig nefhring og eyrnagull og veglega kórónu á höfuð þér.

13 Þú varst prýdd gulli og silfri, og klæðnaður þinn var úr hvítu líni, silki og glitvefnaði. Þú neyttir hveitimjöls, hunangs og olífuolíu, og þú varðst frábærlega fríð og komst jafnvel í konunglega tign.

14 Og nú fór orð af þér til heiðinna þjóða sökum fegurðar þinnar, því að hún var fullkomin fyrir skart það, er ég hafði á þig látið _ segir Drottinn Guð.

Bréf Páls til Rómverja 3:1-8

Hvað hefur þá Gyðingurinn fram yfir? Eða hvert er gagn umskurnarinnar?

Mikið á allan hátt. Fyrst er þá það, að þeim hefur verið trúað fyrir orðum Guðs.

Hvað um það, þótt nokkrir hafi reynst ótrúir? Mundi ótrúmennska þeirra að engu gjöra trúfesti Guðs?

Fjarri fer því. Guð skal reynast sannorður, þótt hver maður reyndist lygari, eins og ritað er: "Til þess að þú reynist réttlátur í orðum þínum og vinnir, þegar þú átt mál að verja."

En ef ranglæti vort sannar réttlæti Guðs, hvað eigum vér þá að segja? Hvort mundi Guð vera ranglátur, er hann lætur reiðina yfir dynja? _ Ég tala á mannlegan hátt. _

Fjarri fer því. Hvernig ætti Guð þá að dæma heiminn?

En verði sannleiki Guðs fyrir lygi mína skýrari honum til dýrðar, hvers vegna dæmist ég þá enn sem syndari?

Eigum vér þá ekki að gjöra hið illa, til þess að hið góða komi fram? Sumir bera oss þeim óhróðri að vér kennum þetta. Þeir munu fá verðskuldaðan dóm.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society