Old/New Testament
28 Vei hinum drembilega höfuðsveig drykkjurútanna í Efraím, hinu bliknandi blómi, hinni dýrlegu prýði, sem stendur á hæðinni í frjósama dalnum hinna víndrukknu.
2 Sjá, sterk og voldug hetja kemur frá Drottni. Eins og haglskúr, fárviðri, eins og dynjandi, streymandi regn í helliskúr varpar hann honum til jarðar með hendi sinni.
3 Fótum troðinn skal hann verða, hinn drembilegi höfuðsveigur drykkjurútanna í Efraím.
4 Og fyrir hinu bliknandi blómi, hinni dýrlegu prýði, sem stendur á hæðinni í frjósama dalnum, skal fara eins og árfíkju, er þroskast fyrir uppskeru: Einhver kemur auga á hana og gleypir hana óðara en hann hefir náð henni.
5 Á þeim degi mun Drottinn allsherjar vera dýrlegur höfuðsveigur og prýðilegt höfuðdjásn fyrir leifar þjóðar sinnar
6 og réttlætisandi þeim, er í dómum sitja, og styrkleikur þeim, er bægja burt ófriðnum að borghliðum óvinanna.
7 En einnig hérna reika menn af víni og skjögra af áfengum drykkjum. Prestar og spámenn reika af áfengum drykkjum, eru ruglaðir af víni, skjögra af áfengum drykkjum. Þá svimar í vitrunum sínum og allt hringsnýst fyrir þeim í úrskurðum þeirra.
8 Því að öll borð eru full af viðbjóðslegri spýju, enginn blettur hreinn eftir.
9 "Hverjum þykist spámaðurinn vera að kenna visku og hvern ætlar hann að fræða með boðskap sínum? Erum vér nývandir af mjólkinni og nýteknir af brjóstunum?
10 Alltaf að skipa og skipa, skipa og skipa _ skamma og skamma, skamma og skamma _ ýmist þetta, ýmist hitt."
11 Já, með stamandi vörum og annarlegri tungu mun hann láta tala til þessarar þjóðar,
12 hann sem sagði við þá: "Þetta er hvíldin _ ljáið hinum þreytta hvíld! _ Hér er hvíldarstaður." En þeir vildu ekki heyra.
13 Fyrir því mun orð Drottins láta svo í eyrum þeirra: "Skipa og skipa, skipa og skipa _ skamma og skamma, skamma og skamma _ ýmist þetta, ýmist hitt," að þeir steypist aftur á bak og beinbrotni, festist í snörunni og verði teknir.
14 Heyrið því orð Drottins, þér spottsamir menn, þér sem drottnið yfir fólki því, sem býr í Jerúsalem.
15 Þér segið: "Vér höfum gjört sáttmála við dauðann og samning við Hel. Þó að hin dynjandi svipa ríði yfir, þá mun hún eigi til vor koma, því að vér höfum gjört lygi að hæli voru og falið oss í skjóli svikanna."
16 Fyrir því segir hinn alvaldi Drottinn svo: Sjá, ég legg undirstöðustein á Síon, traustan stein, óbifanlegan, ágætan hornstein. Sá sem trúir, er eigi óðlátur.
17 Ég gjöri réttinn að mælivað og réttlætið að mælilóði. Og haglhríð skal feykja burt hæli lyginnar og vatnsflóð skola burt skjólinu.
18 Sáttmáli yðar við dauðann skal rofinn verða og samningur yðar við Hel eigi standa. Þá er hin dynjandi svipa ríður yfir, skuluð þér sundurmarðir verða af henni.
19 Í hvert sinn, sem hún ríður yfir, skal hún hremma yður, því að á hverjum morgni ríður hún yfir, nótt sem nýtan dag. Og það skal verða skelfingin ein að skilja boðskapinn.
20 Hvílan mun verða of stutt til þess að maður fái rétt úr sér, og ábreiðan of mjó til þess að maður fái skýlt sér með henni.
21 Drottinn mun standa upp, eins og á Perasímfjalli, hann mun reiðast, eins og í dalnum hjá Gíbeon. Hann mun vinna verk sitt, hið undarlega verk sitt, og framkvæma starf sitt, hið óvanalega starf sitt.
22 Látið nú af spottinu, svo að fjötrar yðar verði ekki enn harðari, því að ég hefi heyrt af hinum alvalda, Drottni allsherjar, að fastráðið sé, að eyðing komi yfir land allt.
23 Hlustið á og heyrið mál mitt! Hyggið að og heyrið orð mín!
24 Hvort plægir plógmaðurinn í sífellu til sáningar, ristir upp og herfar akurland sitt?
25 Hvort mun hann eigi, þegar hann hefir jafnað moldina að ofan, sælda þar kryddi og sá kúmeni, setja hveiti niður í raðir, bygg á tilteknum stað og speldi í útjaðarinn?
26 Guð hans kennir honum hina réttu aðferð og leiðbeinir honum.
27 Eigi er krydd þreskt með þreskisleða né vagnhjóli velt yfir kúmen, heldur er kryddblómið barið af með þúst og kúmen með staf.
28 Mun neyslukorn mulið sundur? Nei, menn halda ekki stöðugt áfram að þreskja það og keyra eigi vagnhjól sín né hesta yfir það, menn mylja það eigi sundur.
29 Einnig þetta kemur frá Drottni allsherjar. Hann er undursamlegur í ráðum og mikill í vísdómi.
29 Æ, Aríel, Aríel, þú borg, þar sem Davíð sló herbúðum! Bætið ári við þetta ár, lát hátíðirnar fara sinn hring,
2 þá þrengi ég að Aríel, og hún skal verða hryggð og harmur, og hún skal verða mér sem Aríel.
3 Ég vil setja herbúðir allt í kringum þig, umlykja þig með varðmönnum og reisa hervirki í móti þér.
4 Þú skalt tala lágri röddu upp úr jörðinni, og orð þín hljóma dimmum rómi úr duftinu. Rödd þín skal vera sem draugsrödd úr jörðinni og orð þín hljóma sem hvískur úr duftinu.
5 En mergð fjandmanna þinna skal verða sem moldryk og mergð ofbeldismannanna sem fjúkandi sáðir. Það skal verða skyndilega, á einu augabragði.
6 Hennar skal verða vitjað af Drottni allsherjar með reiðarþrumu, landskjálfta og miklum gný, fellibyljum, stormviðri og eyðandi eldsloga.
7 Eins og í draumsýn um nótt, þannig mun fara fyrir mergð allra þeirra þjóða, sem herja á Aríel, og öllum þeim, sem herja á hana og hervirki hennar og þrengja að henni.
8 Og eins og þegar hungraðan mann dreymir að hann eti, en vaknar svo jafnhungraður, og eins og þegar þyrstan mann dreymir að hann drekki, en vaknar svo örmagna og sárþyrstur, svo skal fara fyrir mergð allra þeirra þjóða, er herja á Síonfjall.
9 Fallið í stafi og undrist, gjörið yður sjónlausa og verið blindir! Gjörist drukknir, og þó ekki af víni, reikið, og þó ekki af áfengum drykk.
10 Því að Drottinn hefir úthellt yfir yður svefnsemi-anda og aftur lukt augu yðar _ spámennina _ og brugðið hulu yfir höfuð yðar _ þá sem vitranir fá.
11 Öll opinberun er yður sem orðin í innsiglaðri bók. Sé hún fengin þeim, sem kann að lesa, og sagt: "Les þú þetta," þá segir hann: "Ég get það ekki, því að hún er innsigluð."
12 En sé bókin fengin þeim, sem eigi kann að lesa, og sagt: "Les þú þetta," þá segir hann: "Ég er ekki læs."
13 Drottinn sagði: Með því að þessi lýður nálgast mig með munni sínum og heiðrar mig með vörum sínum, en fjarlægir hjarta sitt langt í burt frá mér, og með því að ótti þeirra fyrir mér er manna boðorð, lærð utan bókar,
14 sjá, fyrir því mun ég enn fara undursamlega með þennan lýð, undursamlega og undarlega. Speki spekinganna skal komast í þrot og hyggindi hyggindamannanna fara í felur.
15 Vei þeim, sem leggjast djúpt til þess að dylja áform sín fyrir Drottni og fremja verk sín í myrkrinu og segja: "Hver sér oss? Hver veit af oss?"
16 Hvílík fásinna! Eða skal meta að jöfnu leirinn og smiðinn, svo að verkið geti sagt um meistarann: "Hann hefir eigi búið mig til," og smíðin geti sagt um smiðinn: "Hann kann ekki neitt?"
17 Eftir skamma hríð skal Líbanonskógur verða að aldingarði og aldingarður talinn verða kjarrskógur.
18 Á þeim degi skulu hinir daufu heyra rituð orð, og augu hinna blindu skulu sjá út úr dimmunni og myrkrinu.
19 Þá mun aukast gleði hinna auðmjúku yfir Drottni, og hinir fátækustu meðal manna munu fagna yfir Hinum heilaga í Ísrael.
20 Því að ofbeldismenn eru ekki framar til og spottarar undir lok liðnir, og allir þeir upprættir, er ranglæti iðka,
21 þeir er sakfella menn fyrir rétti og leggja snörur fyrir þá, er vanda um á þingum, og blekkja hina saklausu með hégóma.
22 Fyrir því segir Drottinn, hann er frelsaði Abraham, svo um Jakobs hús: Jakob skal eigi framar þurfa að blygðast sín og ásjóna hans eigi framar blikna.
23 Því að þegar niðjar hans sjá verk handa minna á meðal sín, munu þeir helga nafn mitt, þeir munu helga Hinn heilaga, Jakobs Guð, og óttast Ísraels Guð.
24 Þá munu hinir andlega villtu átta sig og hinir þverúðarfullu láta sér segjast.
3 Að endingu, bræður mínir, verið glaðir í Drottni. Ég tel ekki eftir mér að endurtaka það, sem ég hef skrifað, en yður er það til öryggis.
2 Gefið gætur að hundunum, gefið gætur að hinum vondu verkamönnum, gefið gætur að hinum sundurskornu.
3 Vér erum hinir umskornu, vér sem dýrkum Guð í anda hans og miklumst af Kristi Jesú og treystum ekki ytri yfirburðum,
4 jafnvel þótt ég hafi einnig þá ytri yfirburði, sem ég gæti treyst. Ef einhver annar þykist geta treyst ytri yfirburðum, þá get ég það fremur.
5 Ég var umskorinn á áttunda degi, af kyni Ísraels, ættkvísl Benjamíns, Hebrei af Hebreum, farísei í afstöðunni til lögmálsins,
6 svo ákafur, að ég ofsótti kirkjuna. Ef litið er á réttlætið, sem fæst með lögmálinu, var ég vammlaus.
7 En það, sem var mér ávinningur, met ég nú vera tjón sakir Krists.
8 Já, meira að segja met ég allt vera tjón hjá þeim yfirburðum að þekkja Krist Jesú, Drottin minn. Sakir hans hef ég misst allt og met það sem sorp, til þess að ég geti áunnið Krist
9 og reynst vera í honum. Nú á ég ekki eigið réttlæti, það er fæst af lögmáli, heldur það er fæst fyrir trú á Krist, réttlætið frá Guði með trúnni. _
10 Ég vil þekkja Krist og kraft upprisu hans og samfélag písla hans með því að mótast eftir honum í dauða hans.
11 Mætti mér auðnast að ná til upprisunnar frá dauðum.
12 Ekki er svo, að ég hafi þegar náð því eða sé þegar fullkominn. En ég keppi eftir því, ef ég skyldi geta höndlað það, með því að ég er höndlaður af Kristi Jesú.
13 Bræður, ekki tel ég sjálfan mig enn hafa höndlað það.
14 En eitt gjöri ég. Ég gleymi því, sem að baki er, en seilist eftir því, sem framundan er, og keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur kallað oss til fyrir Krist Jesú.
15 Þetta hugarfar skulum vér því allir hafa, sem fullkomnir erum. Og ef þér hugsið í nokkru öðruvísi, þá mun Guð einnig opinbera yður þetta.
16 Fyrir alla muni skulum vér ganga þá götu, sem vér höfum komist á.
17 Bræður, breytið allir eftir mér og festið sjónir yðar á þeim, sem breyta eftir þeirri fyrirmynd, er vér höfum yður gefið.
18 Margir breyta, _ ég hef oft sagt yður það og nú segi ég það jafnvel grátandi _, eins og óvinir kross Krists.
19 Afdrif þeirra eru glötun. Guð þeirra er maginn, þeim þykir sómi að skömminni og þeir hafa hugann á jarðneskum munum.
20 En föðurland vort er á himni og frá himni væntum vér frelsarans, Drottins Jesú Krists.
21 Hann mun breyta veikum og forgengilegum líkama vorum og gjöra hann líkan dýrðarlíkama sínum. Því hann hefur kraftinn til að leggja allt undir sig.
by Icelandic Bible Society