Old/New Testament
137 Við Babýlons fljót, þar sátum vér og grétum, er vér minntumst Síonar.
2 Á pílviðina þar hengdum vér upp gígjur vorar.
3 Því að herleiðendur vorir heimtuðu söngljóð af oss og kúgarar vorir kæti: "Syngið oss Síonarkvæði!"
4 Hvernig ættum vér að syngja Drottins ljóð í öðru landi?
5 Ef ég gleymi þér, Jerúsalem, þá visni mín hægri hönd.
6 Tunga mín loði mér við góm, ef ég man eigi til þín, ef Jerúsalem er eigi allra besta yndið mitt.
7 Mun þú Edóms niðjum, Drottinn, óheilladag Jerúsalem, þegar þeir æptu: "Rífið, rífið allt niður til grunna!"
8 Babýlonsdóttir, þú sem tortímir! Heill þeim, er geldur þér fyrir það sem þú hefir gjört oss!
9 Heill þeim er þrífur ungbörn þín og slær þeim niður við stein.
138 Eftir Davíð. Ég vil lofa þig af öllu hjarta, lofsyngja þér frammi fyrir guðunum.
2 Ég vil falla fram fyrir þínu heilaga musteri og lofa nafn þitt sakir miskunnar þinnar og trúfesti, því að þú hefir gjört nafn þitt og orð þitt meira öllu öðru.
3 Þegar ég hrópaði, bænheyrðir þú mig, þú veittir mér hugmóð, er ég fann kraft hjá mér.
4 Allir konungar á jörðu skulu lofa þig, Drottinn, er þeir heyra orðin af munni þínum.
5 Þeir skulu syngja um vegu Drottins, því að mikil er dýrð Drottins.
6 Því að Drottinn er hár og sér þó hina lítilmótlegu og þekkir hinn drambláta í fjarska.
7 Þótt ég sé staddur í þrengingu, lætur þú mig lífi halda, þú réttir út hönd þína gegn reiði óvina minna, og hægri hönd þín hjálpar mér.
8 Drottinn mun koma öllu vel til vegar fyrir mig, Drottinn, miskunn þín varir að eilífu. Yfirgef eigi verk handa þinna.
139 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.
2 Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.
3 Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það, og alla vegu mína gjörþekkir þú.
4 Því að eigi er það orð á tungu minni, að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.
5 Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefir þú lagt á mig.
6 Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn.
7 Hvert get ég farið frá anda þínum og hvert flúið frá augliti þínu?
8 Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar.
9 Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf,
10 einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér.
11 Og þótt ég segði: "Myrkrið hylji mig og ljósið í kringum mig verði nótt,"
12 þá myndi þó myrkrið eigi verða þér of myrkt og nóttin lýsa eins og dagur, myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér.
13 Því að þú hefir myndað nýru mín, ofið mig í móðurlífi.
14 Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.
15 Beinin í mér voru þér eigi hulin, þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar.
16 Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn.
17 En hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, ó Guð, hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar.
18 Ef ég vildi telja þær, væru þær fleiri en sandkornin, ég mundi vakna og vera enn með hugann hjá þér.
19 Ó að þú, Guð, vildir fella níðingana. Morðingjar! Víkið frá mér.
20 Þeir þrjóskast gegn þér með svikum og leggja nafn þitt við hégóma.
21 Ætti ég eigi, Drottinn, að hata þá, er hata þig, og hafa viðbjóð á þeim, er rísa gegn þér?
22 Ég hata þá fullu hatri, þeir eru orðnir óvinir mínir.
23 Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar,
24 og sjá þú, hvort ég geng á glötunarvegi, og leið mig hinn eilífa veg.
13 Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.
2 Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt.
3 Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum, og þótt ég framseldi líkama minn, til þess að verða brenndur, en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari.
4 Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.
5 Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.
6 Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum.
7 Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.
8 Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. En spádómsgáfur, þær munu líða undir lok, og tungur, þær munu þagna, og þekking, hún mun líða undir lok.
9 Því að þekking vor er í molum og spádómur vor er í molum.
10 En þegar hið fullkomna kemur, þá líður það undir lok, sem er í molum.
11 Þegar ég var barn, talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða maður, lagði ég niður barnaskapinn.
12 Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu, en þá munum vér sjá augliti til auglitis. Nú er þekking mín í molum, en þá mun ég gjörþekkja, eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn.
13 En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.
by Icelandic Bible Society