Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Old/New Testament

Each day includes a passage from both the Old Testament and New Testament.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 94-96

94 Drottinn, Guð hefndarinnar, Guð hefndarinnar, birst þú í geisladýrð!

Rís þú upp, dómari jarðar, endurgjald ofstopamönnunum það er þeir hafa aðhafst!

Hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn, hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn að fagna?

Þeir ausa úr sér drambyrðum, allir illvirkjarnir rembast.

Þeir kremja lýð þinn, Drottinn, þjá arfleifð þína,

drepa ekkjur og aðkomandi og myrða föðurlausa

og segja: "Drottinn sér það ekki, Jakobs Guð tekur eigi eftir því."

Takið eftir, þér hinir fíflsku meðal lýðsins, og þér fáráðlingar, hvenær ætlið þér að verða hyggnir?

Mun sá eigi heyra, sem eyrað hefir plantað, mun sá eigi sjá, sem augað hefir til búið?

10 Skyldi sá er agar þjóðirnar eigi hegna, hann sem kennir mönnunum þekkingu?

11 Drottinn þekkir hugsanir mannsins, að þær eru einber hégómi.

12 Sæll er sá maður, er þú agar, Drottinn, og fræðir í lögmáli þínu,

13 til þess að hlífa honum við mótlætisdögunum, uns gröf er grafin fyrir óguðlega.

14 Því að Drottinn hrindir eigi burt lýð sínum og yfirgefur eigi arfleifð sína,

15 heldur mun rétturinn hverfa aftur til hins réttláta, og honum munu allir hjartahreinir fylgja.

16 Hver rís upp mér til hjálpar gegn illvirkjunum, hver gengur fram fyrir mig gegn illgjörðamönnunum?

17 Ef Drottinn veitti mér eigi fulltingi, þá mundi sál mín brátt hvíla í dauðaþögn.

18 Þegar ég hugsaði: "Mér skriðnar fótur," þá studdi mig miskunn þín, Drottinn.

19 Þegar miklar áhyggjur lögðust á hjarta mitt, hressti huggun þín sálu mína.

20 Mun dómstóll spillingarinnar vera í bandalagi við þig, hann sem býr öðrum tjón undir yfirskini réttarins?

21 Þeir ráðast á líf hins réttláta og sakfella saklaust blóð.

22 En Drottinn er mér háborg og Guð minn klettur mér til hælis.

23 Hann geldur þeim misgjörð þeirra og afmáir þá í illsku þeirra, Drottinn, Guð vor, afmáir þá.

95 Komið, fögnum fyrir Drottni, látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors.

Komum með lofsöng fyrir auglit hans, syngjum gleðiljóð fyrir honum.

Því að Drottinn er mikill Guð og mikill konungur yfir öllum guðum.

Í hans hendi eru jarðardjúpin, og fjallatindarnir heyra honum til.

Hans er hafið, hann hefir skapað það, og hendur hans mynduðu þurrlendið.

Komið, föllum fram og krjúpum niður, beygjum kné vor fyrir Drottni, skapara vorum,

því að hann er vor Guð, og vér erum gæslulýður hans og hjörð sú, er hann leiðir. Ó að þér í dag vilduð heyra raust hans!

Herðið eigi hjörtu yðar eins og hjá Meríba, eins og daginn við Massa í eyðimörkinni,

þegar feður yðar freistuðu mín, reyndu mig, þótt þeir sæju verk mín.

10 Í fjörutíu ár hafði ég viðbjóð á þessari kynslóð, og ég sagði: "Þeir eru andlega villtur lýður og þekkja ekki vegu mína."

11 Þess vegna sór ég í reiði minni: "Þeir skulu eigi ganga inn til hvíldar minnar."

96 Syngið Drottni nýjan söng, syngið Drottni öll lönd!

Syngið Drottni, lofið nafn hans, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.

Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða.

Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, óttalegur er hann öllum guðum framar.

Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en Drottinn hefir gjört himininn.

Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans, máttur og prýði í helgidómi hans.

Tjáið Drottni lof, þér kynkvíslir þjóða, tjáið Drottni vegsemd og vald.

Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, færið gjafir og komið til forgarða hans,

fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða, titrið fyrir honum, öll lönd!

10 Segið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki, hann dæmir þjóðirnar með réttvísi.

11 Himinninn gleðjist og jörðin fagni, hafið drynji og allt sem í því er,

12 foldin fagni og allt sem á henni er, öll tré skógarins kveði fagnaðaróp,

13 fyrir Drottni, því að hann kemur, hann kemur til þess að dæma jörðina. Hann mun dæma heiminn með réttlæti og þjóðirnar eftir trúfesti sinni.

Bréf Páls til Rómverja 15:14-33

14 En ég er líka sjálfur sannfærður um yður, bræður mínir, að þér og sjálfir eruð fullir góðgirni, auðgaðir alls konar þekkingu og færir um að áminna hver annan.

15 En ég hef sums staðar ritað yður full djarflega, til þess að minna yður á sitthvað. Ég hef gjört það vegna þess að Guð hefur gefið mér þá náð

16 að vera helgiþjónn Krists Jesú hjá heiðingjunum og inna af hendi prestþjónustu við fagnaðarerindi Guðs, til þess að heiðingjarnir mættu verða Guði velþóknanleg fórn, helguð af heilögum anda.

17 Ég hef þá fyrir samfélag mitt við Krist Jesú það, sem ég get hrósað mér af: Starf mitt í þjónustu Guðs.

18 Ekki mun ég dirfast að tala um neitt annað en það, sem Kristur hefur látið mig framkvæma, til að leiða heiðingjana til hlýðni, með orði og verki,

19 með krafti tákna og undra, með krafti heilags anda. Þannig hef ég lokið við að flytja fagnaðarerindið um Krist frá Jerúsalem og allt í kring til Illyríu.

20 Það hefur þannig verið metnaður minn að láta fagnaðarerindið óboðað þar sem Kristur hafði áður nefndur verið, til þess að ég byggði ekki ofan á grundvelli annars,

21 alveg eins og ritað er: "Þeir skulu sjá, sem ekkert var um hann sagt, og þeir, sem ekki hafa heyrt, skulu skilja."

22 Því er það, að mér hefur hvað eftir annað verið meinað að koma til yðar.

23 En nú á ég ekki lengur neitt ógjört á þessum slóðum, og mig hefur auk þess í mörg ár langað til að koma til yðar,

24 þegar ég færi til Spánar. Ég vona, að ég fái að sjá yður, er ég fer um hjá yður, og að þér búið ferð mína þangað, er ég fyrst hef nokkurn veginn fengið nægju mína hjá yður.

25 En nú fer ég á leið til Jerúsalem til að flytja hinum heilögu hjálp.

26 Því að Makedónía og Akkea hafa ákveðið að gangast fyrir samskotum handa fátæklingum meðal hinna heilögu í Jerúsalem.

27 Sjálfir ákváðu þeir það, enda eru þeir í skuld við þá. Fyrst heiðingjarnir hafa fengið hlutdeild í andlegum gæðum þeirra, þá er þeim og skylt að fulltingja þeim í líkamlegum efnum.

28 En þegar ég hef lokið þessu og tryggilega afhent þeim þennan ávöxt, mun ég fara um hjá yður til Spánar.

29 En ég veit, að þegar ég kem til yðar, mun ég koma með blessun Krists í fullum mæli.

30 En mikillega bið ég yður, bræður, fyrir sakir Drottins vors Jesú Krists og fyrir sakir kærleika andans, að þér stríðið með mér með því að biðja til Guðs fyrir mér,

31 til þess að ég frelsist frá hinum vantrúuðu í Júdeu, og hjálpin, sem ég fer með til Jerúsalem, verði vel þegin af hinum heilögu.

32 Þá get ég, ef Guð lofar, komið til yðar með fögnuði og endurhresstst ásamt yður.

33 Guð friðarins sé með yður öllum. Amen.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society