New Testament in a Year
6 Eftir þetta fór Jesús yfir um Galíleuvatn eða Tíberíasvatn.
2 Mikill fjöldi manna fylgdi honum, því þeir sáu þau tákn, er hann gjörði á sjúku fólki.
3 Þá fór Jesús upp á fjallið og settist þar niður með lærisveinum sínum.
4 Þetta var laust fyrir páska, hátíð Gyðinga.
5 Jesús leit upp og sá, að mikill mannfjöldi kom til hans. Hann segir þá við Filippus: "Hvar eigum vér að kaupa brauð, að þessir menn fái að eta?"
6 En þetta sagði hann til að reyna hann, því hann vissi sjálfur, hvað hann ætlaði að gjöra.
7 Filippus svaraði honum: "Brauð fyrir tvö hundruð denara nægðu þeim ekki, svo að hver fengi lítið eitt."
8 Annar lærisveinn hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, segir þá við hann:
9 "Hér er piltur, sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska, en hvað er það handa svo mörgum?"
10 Jesús sagði: "Látið fólkið setjast niður." Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu.
11 Nú tók Jesús brauðin, gjörði þakkir og skipti þeim út til þeirra, sem þar sátu, og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu.
12 Þegar þeir voru mettir, segir hann við lærisveina sína: "Safnið saman leifunum, svo ekkert spillist."
13 Þeir söfnuðu þeim saman og fylltu tólf körfur með leifum byggbrauðanna fimm, sem af gengu hjá þeim, er neytt höfðu.
14 Þegar menn sáu táknið, sem hann gjörði, sögðu þeir: "Þessi maður er sannarlega spámaðurinn, sem koma skal í heiminn."
15 Jesús vissi nú, að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gjöra hann að konungi, og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs.
16 Þegar kvöld var komið, fóru lærisveinar hans niður að vatninu,
17 stigu út í bát og lögðu af stað yfir um vatnið til Kapernaum. Myrkur var skollið á, og Jesús var ekki enn kominn til þeirra.
18 Vind gerði hvassan, og tók vatnið að æsast.
19 Þegar þeir höfðu róið hér um bil tuttugu og fimm eða þrjátíu skeiðrúm, sáu þeir Jesú gangandi á vatninu og nálgast bátinn. Þeir urðu hræddir,
20 en hann sagði við þá: "Það er ég, óttist eigi."
21 Þeir vildu þá taka hann í bátinn, en í sömu svifum rann báturinn að landi, þar sem þeir ætluðu að lenda.
by Icelandic Bible Society