Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

New Testament in a Year

Read the New Testament from start to finish, from Matthew to Revelation.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Lúkasarguðspjall 22:1-30

22 Nú fór í hönd hátíð ósýrðu brauðanna, sú er nefnist páskar.

Og æðstu prestarnir og fræðimennirnir leituðu fyrir sér, hvernig þeir gætu ráðið hann af dögum, því að þeir voru hræddir við lýðinn.

Þá fór Satan í Júdas, sem kallaður var Ískaríot og var í tölu þeirra tólf.

Hann fór og ræddi við æðstu prestana og varðforingjana um það, hvernig hann skyldi framselja þeim Jesú.

Þeir urðu glaðir við og hétu honum fé fyrir.

Hann gekk að því og leitaði færis að framselja hann þeim, þegar fólkið væri fjarri.

Þegar sá dagur ósýrðu brauðanna kom, er slátra skyldi páskalambinu,

sendi Jesús þá Pétur og Jóhannes og sagði: "Farið og búið til páskamáltíðar fyrir oss."

Þeir sögðu við hann: "Hvar vilt þú, að við búum hana?"

10 En hann sagði við þá: "Þegar þið komið inn í borgina, mætir ykkur maður, sem ber vatnsker. Fylgið honum inn þangað sem hann fer,

11 og segið við húsráðandann: ,Meistarinn spyr þig: Hvar er herbergið, þar sem ég get neytt páskamáltíðarinnar með lærisveinum mínum?`

12 Hann mun þá sýna ykkur loftsal mikinn, búinn hægindum. Hafið þar viðbúnað."

13 Þeir fóru og fundu allt eins og hann hafði sagt og bjuggu til páskamáltíðar.

14 Og er stundin var komin, gekk hann til borðs og postularnir með honum.

15 Og hann sagði við þá: "Hjartanlega hef ég þráð að neyta þessarar páskamáltíðar með yður, áður en ég líð.

16 Því ég segi yður: Eigi mun ég framar neyta hennar, fyrr en hún fullkomnast í Guðs ríki."

17 Þá tók hann kaleik, gjörði þakkir og sagði: "Takið þetta og skiptið með yður.

18 Því ég segi yður: Héðan í frá mun ég eigi drekka af ávexti vínviðarins, fyrr en Guðs ríki kemur."

19 Og hann tók brauð, gjörði þakkir, braut það, gaf þeim og sagði: "Þetta er líkami minn, sem fyrir yður er gefinn. Gjörið þetta í mína minningu."

20 Eins tók hann kaleikinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: "Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði, sem fyrir yður er úthellt.

21 En sjá, hönd þess, er mig svíkur, er á borðinu hjá mér.

22 Mannssonurinn fer að sönnu þá leið, sem ákveðin er, en vei þeim manni, sem því veldur, að hann verður framseldur."

23 Og þeir tóku að spyrjast á um það, hver þeirra mundi verða til þess að gjöra þetta.

24 Og þeir fóru að metast um, hver þeirra væri talinn mestur.

25 En Jesús sagði við þá: "Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn.

26 En eigi sé yður svo farið, heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn.

27 Því hvort er sá meiri, sem situr til borðs, eða hinn, sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn.

28 En þér eruð þeir sem hafið verið stöðugir með mér í freistingum mínum.

29 Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér,

30 að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society