New Testament in a Year
20 En þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið, að eyðing hennar er í nánd.
21 Þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla, þeir sem í borginni eru, flytjist burt, og þeir sem eru á ekrum úti, fari ekki inn í hana.
22 Því þetta eru refsingardagar, þá er allt það rætist, sem ritað er.
23 Vei þeim, sem þungaðar eru, og þeim sem börn hafa á brjósti á þeim dögum, því að mikil neyð mun þá verða í landinu og reiði yfir lýð þessum.
24 Þeir munu falla fyrir sverðseggjum og herleiddir verða til allra þjóða, og Jerúsalem verður fótum troðin af heiðingjum, þar til tímar heiðingjanna eru liðnir.
25 Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný.
26 Menn munu gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, er koma mun yfir heimsbyggðina, því að kraftar himnanna munu bifast.
27 Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð.
28 En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd."
29 Hann sagði þeim og líkingu: "Gætið að fíkjutrénu og öðrum trjám.
30 Þegar þér sjáið þau farin að bruma, þá vitið þér af sjálfum yður, að sumarið er í nánd.
31 Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd.
32 Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt er komið fram.
33 Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða.
34 Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki við svall og drykkju né áhyggjur þessa lífs og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður
35 eins og snara. En koma mun hann yfir alla menn, sem byggja gjörvalla jörð.
36 Vakið því allar stundir og biðjið, svo að þér megið umflýja allt þetta, sem koma á, og standast frammi fyrir Mannssyninum."
37 Á daginn var hann að kenna í helgidóminum, en fór og dvaldist um nætur á Olíufjallinu, sem svo er nefnt.
38 Og allt fólkið kom árla á morgnana til hans í helgidóminn að hlýða á hann.
by Icelandic Bible Society