New Testament in a Year
10 Og hann kallaði til sín lærisveina sína tólf og gaf þeim vald yfir óhreinum öndum, að þeir gætu rekið þá út og læknað hvers kyns sjúkdóm og veikindi.
2 Nöfn postulanna tólf eru þessi: Fyrstur Símon, sem kallast Pétur, og Andrés bróðir hans, þá Jakob Sebedeusson og Jóhannes bróðir hans,
3 Filippus og Bartólómeus, Tómas og Matteus tollheimtumaður, Jakob Alfeusson og Taddeus,
4 Símon vandlætari og Júdas Ískaríot, sá er sveik hann.
5 Þessa tólf sendi Jesús út og mælti svo fyrir: "Haldið ekki til heiðinna manna og farið ekki í samverska borg.
6 Farið heldur til týndra sauða af Ísraelsætt.
7 Farið og prédikið: ,Himnaríki er í nánd.`
8 Læknið sjúka, vekið upp dauða, hreinsið líkþráa, rekið út illa anda. Gefins hafið þér fengið, gefins skuluð þér láta í té.
9 Takið ekki gull, silfur né eir í belti,
10 eigi mal til ferðar eða tvo kyrtla og hvorki skó né staf. Verður er verkamaðurinn fæðis síns.
11 Hvar sem þér komið í borg eða þorp, spyrjist þá fyrir um, hver þar sé verðugur, og þar sé aðsetur yðar, uns þér leggið upp að nýju.
12 Þegar þér komið í hús, þá árnið því góðs,
13 og sé það verðugt, skal friður yðar koma yfir það, en sé það ekki verðugt, skal friður yðar aftur hverfa til yðar.
14 Og taki einhver ekki við yður né hlýði á orð yðar, farið þá úr því húsi eða þeirri borg og hristið dustið af fótum yðar.
15 Sannlega segi ég yður: Bærilegra mun landi Sódómu og Gómorru á dómsdegi en þeirri borg.
16 Sjá, ég sendi yður eins og sauði meðal úlfa. Verið því kænir sem höggormar og falslausir sem dúfur.
17 Varið yður á mönnunum. Þeir munu draga yður fyrir dómstóla og húðstrýkja yður í samkundum sínum.
18 Þér munuð leiddir fyrir landshöfðingja og konunga mín vegna þeim og heiðingjunum til vitnisburðar.
19 En þá er menn draga yður fyrir rétt, skuluð þér ekki hafa áhyggjur af því, hvernig eða hvað þér eigið að tala. Yður verður gefið á sömu stundu, hvað segja skal.
20 Þér eruð ekki þeir sem tala, heldur andi föður yðar, hann talar í yður.
by Icelandic Bible Society