New Testament in a Year
18 En þegar Jesús sá mikinn mannfjölda kringum sig, bauð hann að fara yfir um vatnið.
19 Þá kom fræðimaður einn til hans og sagði: "Meistari, ég vil fylgja þér, hvert sem þú ferð."
20 Jesús sagði við hann: "Refar eiga greni og fuglar himins hreiður, en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla."
21 Annar, úr hópi lærisveinanna, sagði við hann: "Herra, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn."
22 Jesús svarar honum: "Fylg þú mér, en lát hina dauðu jarða sína dauðu."
23 Nú fór hann í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum.
24 Þá gjörði svo mikið veður á vatninu, að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf.
25 Þeir fara til, vekja hann og segja: "Herra, bjarga þú, vér förumst."
26 Hann sagði við þá: "Hví eruð þér hræddir, þér trúlitlir?" Síðan reis hann upp og hastaði á vindinn og vatnið, og varð stillilogn.
27 Mennirnir undruðust og sögðu: "Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum."
28 Þegar hann kom yfir um, í byggð Gadarena, komu á móti honum frá gröfunum tveir menn haldnir illum öndum, svo skæðir, að enginn mátti þann veg fara.
29 Þeir æpa: "Hvað vilt þú okkur, sonur Guðs? Komstu hingað að kvelja okkur fyrir tímann?"
30 En langt frá þeim var mikil svínahjörð á beit.
31 Illu andarnir báðu hann og sögðu: "Ef þú rekur okkur út, sendu okkur þá í svínahjörðina."
32 Hann sagði: "Farið!" Út fóru þeir og í svínin, og öll hjörðin ruddist fram af hamrinum í vatnið og týndist þar.
33 En hirðarnir flýðu, komu til borgarinnar og sögðu öll tíðindin, líka frá mönnunum, sem haldnir voru illum öndum.
34 Og allir borgarmenn fóru út til móts við Jesú, og þegar þeir sáu hann, báðu þeir hann að fara burt úr héruðum þeirra.
by Icelandic Bible Society