New Testament in a Year
11 Ó að þér vilduð umbera dálitla fávisku hjá mér! Jú, vissulega umberið þér mig.
2 Ég vakti yfir yður með afbrýði Guðs, því að ég hef fastnað yður einum manni, Kristi, og vil leiða fram fyrir hann hreina mey.
3 En ég er hræddur um, að eins og höggormurinn tældi Evu með flærð sinni, svo kunni og hugsanir yðar að spillast og leiðast burt frá einlægri og hreinni tryggð við Krist.
4 Því að ef einhver kemur og prédikar annan Jesú en vér höfum prédikað, eða þér fáið annan anda en þér hafið fengið, eða annað fagnaðarerindi en þér hafið tekið á móti, þá umberið þér það mætavel.
5 Ég álít mig þó ekki í neinu standa hinum stórmiklu postulum að baki.
6 Þótt mig bresti mælsku, brestur mig samt ekki þekkingu og vér höfum á allan hátt birt yður hana í öllum greinum.
7 Eða drýgði ég synd, er ég lítillækkaði sjálfan mig til þess að þér mættuð upphafnir verða og boðaði yður ókeypis fagnaðarerindi Guðs?
8 Aðra söfnuði rúði ég og tók mála af þeim til þess að geta þjónað yður, og er ég var hjá yður og leið þröng, varð ég þó ekki neinum til byrði,
9 því að úr skorti mínum bættu bræðurnir, er komu frá Makedóníu. Og í öllu varaðist ég að verða yður til þyngsla og mun varast.
10 Svo sannarlega sem sannleiki Krists er í mér, skal þessi hrósun um mig ekki verða þögguð niður í héruðum Akkeu.
11 Hvers vegna? Er það af því að ég elska yður ekki? Nei, Guð veit að ég gjöri það.
12 En það, sem ég gjöri, mun ég og gjöra til þess að svipta þá tækifærinu, sem færis leita til þess að vera jafnokar vorir í því, sem þeir stæra sig af.
13 Því að slíkir menn eru falspostular, svikulir verkamenn, er taka á sig mynd postula Krists.
14 Og ekki er það undur, því að Satan sjálfur tekur á sig ljósengilsmynd.
15 Það er því ekki mikið, þótt þjónar hans taki á sig mynd réttlætisþjóna. Afdrif þeirra munu verða samkvæmt verkum þeirra.
by Icelandic Bible Society