New Testament in a Year
29 Til hvers eru menn annars að láta skírast fyrir hina dánu? Ef dauðir menn rísa alls ekki upp, hvers vegna láta menn þá skíra sig fyrir þá?
30 Hvers vegna erum vér líka að stofna oss í hættu hverja stund?
31 Svo sannarlega, bræður, sem ég get hrósað mér af yður í Kristi Jesú, Drottni vorum: Á degi hverjum vofir dauðinn yfir mér.
32 Hafi ég eingöngu að hætti manna barist við villidýr í Efesus, hvaða gagn hefði ég þá af því? Ef dauðir rísa ekki upp, etum þá og drekkum, því að á morgun deyjum vér!
33 Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.
34 Vaknið fyrir alvöru og syndgið ekki. Nokkrir hafa enga þekkingu á Guði. Yður til blygðunar segi ég það.
35 En nú kynni einhver að segja: "Hvernig rísa dauðir upp? Hvaða líkama hafa þeir, þegar þeir koma?"
36 Þú óvitri maður! Það sem þú sáir lifnar ekki aftur nema það deyi.
37 Og er þú sáir, þá er það ekki sú jurt, er vex upp síðar, sem þú sáir, heldur bert frækornið, hvort sem það nú heldur er hveitikorn eða annað fræ.
38 En Guð gefur því líkama eftir vild sinni og hverri sæðistegund sinn líkama.
39 Ekki eru allir líkamir eins, heldur hafa mennirnir einn, kvikféð annan, fuglarnir einn og fiskarnir annan.
40 Til eru himneskir líkamir og jarðneskir líkamir. En vegsemd hinna himnesku er eitt og hinna jarðnesku annað.
41 Eitt er ljómi sólarinnar og annað ljómi tunglsins og annað ljómi stjarnanna, því að stjarna ber af stjörnu í ljóma.
42 Þannig er og um upprisu dauðra. Sáð er forgengilegu, en upp rís óforgengilegt.
43 Sáð er í vansæmd, en upp rís í vegsemd. Sáð er í veikleika, en upp rís í styrkleika.
44 Sáð er jarðneskum líkama, en upp rís andlegur líkami. Ef jarðneskur líkami er til, þá er og til andlegur líkami.
45 Þannig er og ritað: "Hinn fyrsti maður, Adam, varð að lifandi sál," hinn síðari Adam að lífgandi anda.
46 En hið andlega kemur ekki fyrst, heldur hið jarðneska, því næst hið andlega.
47 Hinn fyrsti maður er frá jörðu, jarðneskur, hinn annar maður er frá himni.
48 Eins og hinn jarðneski var, þannig eru og hinir jarðnesku og eins og hinn himneski, þannig eru og hinir himnesku.
49 Og eins og vér höfum borið mynd hins jarðneska, munum vér einnig bera mynd hins himneska.
50 En það segi ég, bræður, að hold og blóð getur eigi erft Guðs ríki, eigi erfir heldur hið forgengilega óforgengileikann.
51 Sjá, ég segi yður leyndardóm: Vér munum ekki allir sofna, en allir munum vér umbreytast
52 í einni svipan, á einu augabragði, við hinn síðasta lúður. Því lúðurinn mun gjalla og þá munu hinir dauðu upp rísa óforgengilegir, og vér munum umbreytast.
53 Þetta forgengilega á að íklæðast óforgengileikanum og þetta dauðlega að íklæðast ódauðleikanum.
54 En þegar hið forgengilega íklæðist óforgengileikanum og hið dauðlega ódauðleikanum, þá mun rætast orð það, sem ritað er: Dauðinn er uppsvelgdur í sigur.
55 Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði, hvar er broddur þinn?
56 En syndin er broddur dauðans og lögmálið afl syndarinnar.
57 Guði séu þakkir, sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist!
58 Þess vegna, mínir elskuðu bræður, verið staðfastir, óbifanlegir, síauðugir í verki Drottins. Þér vitið að erfiði yðar er ekki árangurslaust í Drottni.
by Icelandic Bible Society