New Testament in a Year
21 Í lögmálinu er ritað: Með annarlegu tungutaki og annarlegum vörum mun ég tala til lýðs þessa, og eigi að heldur munu þeir heyra mig, segir Drottinn.
22 Þannig er þá tungutalið til tákns, ekki þeim sem trúa, heldur hinum vantrúuðu. En spámannlega gáfan er ekki til tákns fyrir hina vantrúuðu, heldur þá sem trúa.
23 Ef nú allur söfnuðurinn kæmi saman og allir töluðu tungum, og inn kæmu fáfróðir menn eða vantrúaðir, mundu þeir þá ekki segja: "Þér eruð óðir"?
24 En ef allir töluðu af spámannlegri gáfu, og inn kæmi einhver vantrúaður eða fáfróður þá sannfærðist hann og dæmdist af öllum.
25 Leyndardómar hjarta hans verða opinberir, og hann fellur fram á ásjónu sína og tilbiður Guð og lýsir því yfir, að Guð er sannarlega hjá yður.
26 Hvernig er það þá, bræður? Þegar þér komið saman, þá hefur hver sitt fram að færa: Sálm, kenningu, opinberun, tungutal, útlistun. Allt skal miða til uppbyggingar.
27 Séu einhverjir, sem tala tungum, mega þeir vera tveir eða í mesta lagi þrír, hver á eftir öðrum, og einn útlisti.
28 En ef ekki er neinn til að útlista, þá þegi sá á safnaðarsamkomunni, sem talar tungum, en tali við sjálfan sig og við Guð.
29 En spámenn tali tveir eða þrír og hinir skulu dæma um.
30 Fái einhver annar, sem þar situr, opinberun, þá þagni hinn fyrri.
31 Því að þér getið allir, hver á eftir öðrum, talað af spámannlegri andagift, til þess að allir hljóti fræðslu og uppörvun.
32 Andar spámanna eru spámönnum undirgefnir,
33 því að Guð er ekki Guð truflunarinnar, heldur friðarins. Eins og í öllum söfnuðum hinna heilögu
34 skulu konur þegja á safnaðarsamkomunum, því að ekki er þeim leyft að tala, heldur skulu þær vera undirgefnar, eins og líka lögmálið segir.
35 En ef þær vilja fræðast um eitthvað, þá skulu þær spyrja eiginmenn sína heima. Því að það er ósæmilegt fyrir konu að tala á safnaðarsamkomu.
36 Eða er Guðs orð frá yður komið? Eða er það komið til yðar einna?
37 Ef nokkur þykist spámaður vera eða gæddur gáfum andans, hann skynji, að það, sem ég skrifa yður, er boðorð Drottins.
38 Vilji einhver ekki við það kannast, þá verður ekki við hann kannast.
39 Þess vegna, bræður mínir, sækist eftir spádómsgáfunni og aftrið því ekki, að talað sé tungum.
40 En allt fari sómasamlega fram og með reglu.
by Icelandic Bible Society