Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

New Testament in a Year

Read the New Testament from start to finish, from Matthew to Revelation.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrra bréf Páls til Korin 14:1-20

14 Keppið eftir kærleikanum. Sækist eftir gáfum andans, en einkum eftir spádómsgáfu.

Því að sá, sem talar tungum, talar ekki við menn, heldur við Guð. Enginn skilur hann, í anda talar hann leyndardóma.

En spámaðurinn talar til manna, þeim til uppbyggingar, áminningar og huggunar.

Sá, sem talar tungum, byggir upp sjálfan sig, en spámaðurinn byggir upp söfnuðinn.

Ég vildi að þér töluðuð allir tungum, en þó enn meir, að þér hefðuð spádómsgáfu. Það er meira vert en að tala tungum, nema það sé útlagt, til þess að söfnuðurinn hljóti uppbygging.

Hvað mundi ég gagna yður, bræður, ef ég nú kæmi til yðar og talaði tungum, en flytti yður ekki opinberun eða þekkingu eða spádóm eða kenningu?

Jafnvel hinir dauðu hlutir, sem gefa hljóð frá sér, hvort heldur er pípa eða harpa, _ ef þær gefa ekki mismunandi hljóð frá sér, hvernig ætti þá að skiljast það, sem leikið er á pípuna eða hörpuna?

Gefi lúðurinn óskilmerkilegt hljóð, hver býr sig þá til bardaga?

Svo er og um yður: Ef þér mælið ekki með tungu yðar fram skilmerkileg orð, hvernig verður það þá skilið, sem talað er? Því að þér talið þá út í bláinn.

10 Hversu margar tegundir tungumála, sem kunna að vera til í heiminum, ekkert þeirra er þó málleysa.

11 Ef ég nú þekki ekki merkingu málsins, verð ég sem útlendingur fyrir þeim, sem talar, og hann útlendingur fyrir mér.

12 Eins er um yður. Fyrst þér sækist eftir gáfum andans, leitist þá við að vera auðugir að þeim, söfnuðinum til uppbyggingar.

13 Biðji því sá, er talar tungum, um að geta útlagt.

14 Því að ef ég biðst fyrir með tungum, þá biður andi minn, en skilningur minn ber engan ávöxt.

15 Hvernig er því þá farið? Ég vil biðja með anda, en ég vil einnig biðja með skilningi. Ég vil lofsyngja með anda, en ég vil einnig lofsyngja með skilningi.

16 Því ef þú vegsamar með anda, hvernig á þá sá, er skipar sess hins fáfróða, að segja amen við þakkargjörð þinni, þar sem hann veit ekki, hvað þú ert að segja?

17 Að vísu getur þakkargjörð þín verið fögur, en hinn uppbyggist ekki.

18 Ég þakka Guði, að ég tala tungum öllum yður fremur,

19 en á safnaðarsamkomu vil ég heldur tala fimm orð með skilningi mínum, til þess að ég geti frætt aðra, en tíu þúsund orð með tungum.

20 Bræður, verið ekki börn í dómgreind, heldur sem ungbörn í illskunni, en fullorðnir í dómgreind.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society