New Testament in a Year
15 Skylt er oss, hinum styrku, að bera veikleika hinna óstyrku og hugsa ekki um sjálfa oss.
2 Sérhver af oss hugsi um náungann og það sem honum er gott og til uppbyggingar.
3 Kristur hugsaði ekki um sjálfan sig, heldur eins og ritað er: "Lastyrði þeirra, sem löstuðu þig, lentu á mér."
4 Allt það, sem áður er ritað, er ritað oss til uppfræðingar, til þess að vér fyrir þolgæði og huggun ritninganna héldum von vorri.
5 En Guð, sem veitir þolgæðið og huggunina, gefi yður að vera samhuga að vilja Krists Jesú,
6 til þess að þér allir saman einum munni vegsamið Guð og föður Drottins vors Jesú Krists.
7 Takið því hver annan að yður, eins og Kristur tók yður að sér, Guði til dýrðar.
8 Ég segi, að Kristur sé orðinn þjónn hinna umskornu til að sýna orðheldni Guðs, til þess að staðfesta fyrirheitin, sem feðrunum voru gefin,
9 en heiðingjarnir vegsami Guð sakir miskunnar hans, eins og ritað er: "Þess vegna skal ég játa þig meðal heiðingja og lofsyngja þínu nafni."
10 Og enn segir: "Fagnið, þér heiðingjar, með lýð hans,"
11 og enn: "Lofið Drottin, allar þjóðir, og vegsami hann allir lýðir,"
12 og enn segir Jesaja: "Koma mun rótarkvistur Ísaí og sá, er rís upp til að stjórna þjóðum, á hann munu þjóðir vona."
13 Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni, svo að þér séuð auðugir að voninni í krafti heilags anda.
by Icelandic Bible Society