New Testament in a Year
21 Þá er þetta var um garð gengið, tók Páll þá ákvörðun að ferðast um Makedóníu og Akkeu og fara síðan til Jerúsalem. Hann sagði: "Þegar ég hef verið þar, ber mér líka að sjá Róm."
22 Hann sendi tvo aðstoðarmenn sína, þá Tímóteus og Erastus, til Makedóníu, en dvaldist sjálfur um tíma í Asíu.
23 Í þann tíma urðu miklar æsingar út af veginum.
24 Demetríus hét maður og var silfursmiður. Bjó hann til Artemisar-musteri úr silfri og veitti smiðum eigi litla atvinnu.
25 Hann stefndi þeim saman og öðrum, sem að slíku unnu, og sagði: "Góðir menn, þér vitið, að velmegun vor hvílir á þessari atvinnu.
26 Og þér sjáið og heyrið, að Páll þessi hefur með fortölum sínum snúið fjölda fólks, ekki einungis í Efesus, heldur nær um gjörvalla Asíu. Hann segir, að eigi séu það neinir guðir, sem með höndum eru gjörðir.
27 Nú horfir þetta ekki einungis iðn vorri til smánar, heldur einnig til þess, að helgidómur hinnar miklu gyðju, Artemisar, verði einskis virtur og að hún, sem öll Asía og heimsbyggðin dýrkar, verði svipt tign sinni."
28 Er þeir heyrðu þetta, urðu þeir afar reiðir og æptu: "Mikil er Artemis Efesusmanna!"
29 Og öll borgin komst í uppnám, menn þustu hver um annan til leikvangsins og þrifu með sér þá Gajus og Aristarkus, förunauta Páls úr Makedóníu.
30 En er Páll vildi ganga inn í mannþröngina, leyfðu lærisveinarnir honum það ekki.
31 Nokkrir höfðingjar skattlandsins, sem voru vinir hans, sendu einnig til hans og báðu hann að hætta sér ekki inn á leikvanginn.
32 Menn hrópuðu nú sitt hver, því að mannsöfnuðurinn var í uppnámi, og vissu fæstir, hvers vegna þeir voru saman komnir.
33 Nokkrir í mannþrönginni töldu það vera vegna Alexanders, því að Gyðingar ýttu honum fram, en Alexander benti til hljóðs með hendinni og vildi verja mál sitt fyrir fólkinu.
34 Þegar menn urðu þess vísir, að hann var Gyðingur, lustu allir upp einu ópi og hrópuðu í nærfellt tvær stundir: "Mikil er Artemis Efesusmanna!"
35 En borgarritarinn gat sefað fólkið og mælti: "Efesusmenn, hver er sá maður, að hann viti ekki, að borg Efesusmanna geymir musteri hinnar miklu Artemisar og steininn helga af himni?
36 Þar sem enginn má gegn því mæla, ber yður að vera stilltir og hrapa ekki að neinu.
37 Þér hafið dregið þessa menn hingað, þótt þeir hafi hvorki framið helgispjöll né lastmælt gyðju vorri.
38 Eigi nú Demetríus og smiðirnir, sem honum fylgja, sök við nokkurn, þá eru þingdagar haldnir, og til eru landstjórar. Eigist þeir lög við.
39 En ef þér hafið annars að krefja, má gjöra út um það á löglegu þingi.
40 Vér eigum á hættu að verða sakaðir um uppreisn fyrir þetta í dag og getum ekki bent á neitt tilefni, sem gæti afsakað slík ólæti." Að svo mæltu lét hann mannsöfnuðinn fara.
by Icelandic Bible Society