New Testament in a Year
17 Þeir fóru nú um Amfípólis og Apollóníu og komu til Þessaloníku. Þar áttu Gyðingar samkundu.
2 Eftir venju sinni gekk Páll inn til þeirra, og þrjá hvíldardaga ræddi hann við þá og lagði út af ritningunum,
3 lauk þeim upp fyrir þeim og setti þeim fyrir sjónir, að Kristur átti að líða og rísa upp frá dauðum. Hann sagði: "Jesús, sem ég boða yður, hann er Kristur."
4 Nokkrir þeirra létu sannfærast og gengu til fylgis við Pál og Sílas, auk þess mikill fjöldi guðrækinna Grikkja og mikilsháttar konur eigi allfáar.
5 En Gyðingar fylltust afbrýði og fengu með sér götuskríl, æstu til uppþota og hleyptu borginni í uppnám. Þustu þeir að húsi Jasonar og vildu færa þá fyrir lýðinn.
6 En þegar þeir fundu þá ekki, drógu þeir Jason og nokkra bræður fyrir borgarstjórana og hrópuðu: "Mennirnir, sem komið hafa allri heimsbyggðinni í uppnám, þeir eru nú komnir hingað,
7 og Jason hefur tekið á móti þeim. Allir þessir breyta gegn boðum keisarans, því þeir segja, að annar sé konungur og það sé Jesús."
8 Og þeir vöktu óhug með fólkinu og einnig borgarstjórunum með þessum orðum.
9 Slepptu þeir ekki þeim Jasoni fyrr en þeir höfðu látið þá setja tryggingu.
10 En bræðurnir sendu þá Pál og Sílas þegar um nóttina til Beroju. Þegar þeir komu þangað, gengu þeir inn í samkunduhús Gyðinga.
11 Þeir voru veglyndari þar en í Þessaloníku. Þeir tóku við orðinu með allri góðfýsi og rannsökuðu daglega ritningarnar, hvort þessu væri þannig farið.
12 Margir þeirra tóku trú og einnig Grikkir ekki allfáir, tignar konur og karlar.
13 En er Gyðingar í Þessaloníku fréttu, að Páll hefði einnig boðað orð Guðs í Beroju, komu þeir og hleyptu líka ólgu og æsingu í múginn þar.
14 Þá sendu bræðurnir jafnskjótt með Pál af stað til sjávar, en Sílas og Tímóteus urðu eftir.
15 Leiðsögumenn Páls fylgdu honum allt til Aþenu og sneru aftur með boð til Sílasar og Tímóteusar að koma hið bráðasta til hans.
by Icelandic Bible Society