New Testament in a Year
22 Móse var fræddur í allri speki Egypta, og hann var máttugur í orðum sínum og verkum.
23 Þegar hann var fertugur að aldri, kom honum í hug að vitja bræðra sinna, Ísraelsmanna.
24 Hann sá einn þeirra verða fyrir ójöfnuði, og rétti hann hlut hans, hefndi þess, sem meingjörðina þoldi, og drap Egyptann.
25 Hann hugði, að bræður hans mundu skilja, að Guð ætlaði að nota hann til að bjarga þeim, en þeir skildu það ekki.
26 Næsta dag kom hann að tveim þeirra, sem slógust. Hann reyndi að stilla til friðar með þeim og sagði: ,Góðir menn, þið eruð bræður, hví eigist þið illt við?`
27 En sá sem beitti náunga sinn órétti, hratt honum frá sér og sagði: ,Hver skipaði þig höfðingja og dómara yfir okkur?
28 Þú munt þó ekki vilja drepa mig, eins og þú drapst Egyptann í gær?`
29 Við þessi orð flýði Móse og settist að sem útlendingur í Midíanslandi. Þar gat hann tvo sonu.
30 Að fjörutíu árum liðnum ,birtist honum engill í eyðimörk Sínaífjalls í logandi þyrnirunna.`
31 Móse undraðist sýnina, gekk nær og vildi hyggja að. Þá hljómaði rödd Drottins:
32 ,Ég er Guð feðra þinna, Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs.` En Móse skelfdist og þorði ekki að hyggja frekar að.
33 En Drottinn sagði við hann: ,Leys af þér skó þína, því að staðurinn, sem þú stendur á, er heilög jörð.
34 Ég hef sannlega séð áþján lýðs míns á Egyptalandi og heyrt andvörp þeirra og er ofan kominn að frelsa þá. Kom nú, ég vil senda þig til Egyptalands.`
35 Þennan Móse, er þeir afneituðu með því að segja: ,Hver skipaði þig höfðingja og dómara?` hann sendi Guð sem höfðingja og lausnara með fulltingi engilsins, er honum birtist í þyrnirunnanum.
36 Það var Móse, sem leiddi þá út og gjörði undur og tákn á Egyptalandi, í Rauðahafinu og á eyðimörkinni í fjörutíu ár.
37 Þessi er sá Móse, sem sagði við Ísraelsmenn: ,Spámann eins og mig mun Guð upp vekja yður, einn af bræðrum yðar.`
38 Hann er sá, sem var í söfnuðinum í eyðimörkinni, með englinum, er við hann talaði á Sínaífjalli, og með feðrum vorum. Hann tók á móti lifandi orðum að gefa oss.
39 Eigi vildu feður vorir hlýðnast honum, heldur hrundu honum frá sér og þráðu í hjörtum sínum Egyptaland.
40 Þeir sögðu við Aron: ,Gjör oss guði, er fyrir oss fari, því að ekki vitum vér, hvað orðið er af Móse þeim, sem leiddi oss brott af Egyptalandi.`
41 Og á þeim dögum smíðuðu þeir kálf, færðu skurðgoðinu fórn og kættust af verki handa sinna.
42 En Guð sneri sér frá þeim og lét þeim eftir að dýrka her himinsins, eins og ritað er í spámannabókinni: Hvort færðuð þér mér, Ísraels ætt, sláturdýr og fórnir árin fjörutíu í eyðimörkinni?
43 Nei, þér báruð búð Móloks og stjörnu guðsins Refans, myndirnar, sem þér smíðuðuð til þess að tilbiðja þær. Ég mun herleiða yður austur fyrir Babýlon.
by Icelandic Bible Society