New Testament in a Year
2 Þá er upp var runninn hvítasunnudagur, voru þeir allir saman komnir.
2 Varð þá skyndilega gnýr af himni eins og aðdynjanda sterkviðris og fyllti allt húsið, þar sem þeir voru.
3 Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvern og einn þeirra.
4 Þeir fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.
5 Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum.
6 Er þetta hljóð heyrðist, dreif að fjölda manns. Þeim brá mjög við, því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu.
7 Þeir voru frá sér af undrun og sögðu: "Eru þetta ekki allt Galíleumenn, sem hér eru að tala?
8 Hvernig má það vera, að vér, hver og einn, heyrum þá tala vort eigið móðurmál?
9 Vér erum Partar, Medar og Elamítar, vér erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu,
10 frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene, og vér, sem hingað erum fluttir frá Róm.
11 Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Vér heyrum þá tala á vorum tungum um stórmerki Guðs."
12 Þeir voru allir furðu lostnir og ráðalausir og sögðu hver við annan: "Hvað getur þetta verið?"
13 En aðrir höfðu að spotti og sögðu: "Þeir eru drukknir af sætu víni."
14 Þá steig Pétur fram og þeir ellefu, og hann hóf upp rödd sína og mælti til þeirra: "Gyðingar og allir þér Jerúsalembúar! Þetta skuluð þér vita. Ljáið eyru orðum mínum.
15 Eigi eru þessir menn drukknir, eins og þér ætlið, enda aðeins komin dagmál.
16 Hér er að rætast það, sem spámaðurinn Jóel segir:
17 Það mun verða á efstu dögum, segir Guð, að ég mun úthella anda mínum yfir alla menn. Synir yðar og dætur munu spá, ungmenni yðar munu sjá sýnir og gamalmenni yðar mun drauma dreyma.
18 Jafnvel yfir þræla mína og ambáttir mínar mun ég á þeim dögum úthella anda mínum, og þau munu spá.
19 Og ég mun láta undur verða á himnum uppi og tákn á jörðu niðri, blóð og eld og reykjarmökk.
20 Sólin mun snúast í myrkur og tunglið í blóð, áður dagur Drottins kemur, hinn mikli og dýrlegi.
21 En hver sá, sem ákallar nafn Drottins, mun frelsast.
by Icelandic Bible Society