New Testament in a Year
21 Þegar Jesús hafði sagt þetta, varð honum mjög þungt um hjarta og hann sagði beinum orðum: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Einn af yður mun svíkja mig."
22 Lærisveinarnir litu hver á annan og skildu ekki, við hvern hann ætti.
23 Sá lærisveinn Jesú, sem hann elskaði, sat næstur honum.
24 Símon Pétur benti honum og bað hann spyrja, hver sá væri, sem Jesús talaði um.
25 Hann laut þá að Jesú og spurði: "Herra, hver er það?"
26 Jesús svaraði: "Það er sá sem ég fæ bita þann, er ég dýfi nú í." Þá dýfði hann í bitanum, tók hann og fékk Júdasi Símonarsyni Ískaríots.
27 Og eftir þann bita fór Satan inn í hann. Jesús segir við hann: "Það sem þú gjörir, það gjör þú skjótt!"
28 En enginn þeirra, sem sátu til borðs, vissi til hvers hann sagði þetta við hann.
29 En af því að Júdas hafði pyngjuna, héldu sumir þeirra, að Jesús hefði sagt við hann: "Kauptu það, sem vér þurfum til hátíðarinnar," _ eða að hann skyldi gefa eitthvað fátækum.
30 Þá er hann hafði tekið við bitanum, gekk hann jafnskjótt út. Þá var nótt.
31 Þegar hann var farinn út, sagði Jesús: "Nú er Mannssonurinn dýrlegur orðinn, og Guð er orðinn dýrlegur í honum.
32 Fyrst Guð er orðinn dýrlegur í honum, mun Guð og gjöra hann dýrlegan í sér, og skjótt mun hann gjöra hann dýrlegan.
33 Börnin mín, stutta stund verð ég enn með yður. Þér munuð leita mín, og eins og ég sagði Gyðingum, segi ég yður nú: Þangað sem ég fer, getið þér ekki komist.
34 Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan.
35 Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars."
36 Símon Pétur segir við hann: "Herra, hvert ferðu?" Jesús svaraði: "Þú getur ekki fylgt mér nú þangað sem ég fer, en síðar muntu fylgja mér."
37 Pétur segir við hann: "Herra, hví get ég ekki fylgt þér nú? Ég vil leggja líf mitt í sölurnar fyrir þig."
38 Jesús svaraði: "Viltu leggja líf þitt í sölurnar fyrir mig? Sannlega, sannlega segi ég þér: Ekki mun hani gala fyrr en þú hefur afneitað mér þrisvar."
by Icelandic Bible Society