Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

New Testament in a Year

Read the New Testament from start to finish, from Matthew to Revelation.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Jóhannesarguðspjall 6:22-44

22 Daginn eftir sá fólkið, sem eftir var handan vatnsins, að þar hafði ekki verið nema einn bátur og að Jesús hafði ekki stigið í bátinn með lærisveinum sínum, heldur höfðu þeir farið burt einir saman.

23 Aðrir bátar komu frá Tíberías í nánd við staðinn, þar sem þeir höfðu etið brauðið, þegar Drottinn gjörði þakkir.

24 Nú sáu menn, að Jesús var ekki þarna fremur en lærisveinar hans. Þeir stigu því í bátana og komu til Kapernaum í leit að Jesú.

25 Þeir fundu hann hinum megin við vatnið og spurðu hann: "Rabbí, nær komstu hingað?"

26 Jesús svaraði þeim: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér leitið mín ekki af því, að þér sáuð tákn, heldur af því, að þér átuð af brauðunum og urðuð mettir.

27 Aflið yður eigi þeirrar fæðu, sem eyðist, heldur þeirrar fæðu, sem varir til eilífs lífs og Mannssonurinn mun gefa yður. Því á hann hefur faðirinn, Guð sjálfur, sett innsigli sitt."

28 Þá sögðu þeir við hann: "Hvað eigum vér að gjöra, svo að vér vinnum verk Guðs?"

29 Jesús svaraði þeim: "Þetta er verk Guðs, að þér trúið á þann, sem hann sendi."

30 Þeir spurðu hann þá: "Hvaða tákn gjörir þú, svo að vér sjáum og trúum þér? Hvað afrekar þú?

31 Feður vorir átu manna í eyðimörkinni, eins og ritað er: ,Brauð af himni gaf hann þeim að eta."`

32 Jesús sagði við þá: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Móse gaf yður ekki brauðið af himni, heldur gefur faðir minn yður hið sanna brauð af himni.

33 Brauð Guðs er sá, sem stígur niður af himni og gefur heiminum líf."

34 Þá sögðu þeir við hann: "Herra, gef oss ætíð þetta brauð."

35 Jesús sagði þeim: "Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra, sem til mín kemur, og þann aldrei þyrsta, sem á mig trúir.

36 En ég hef sagt við yður: Þér hafið séð mig og trúið þó ekki.

37 Allt sem faðirinn gefur mér, mun koma til mín, og þann sem kemur til mín, mun ég alls eigi brott reka.

38 Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gjöra vilja minn, heldur vilja þess, er sendi mig.

39 En sá er vilji þess, sem sendi mig, að ég glati engu af öllu því, sem hann hefur gefið mér, heldur reisi það upp á efsta degi.

40 Því sá er vilji föður míns, að hver sem sér soninn og trúir á hann, hafi eilíft líf, og ég mun reisa hann upp á efsta degi."

41 Nú kom upp kurr meðal Gyðinga út af því, að hann sagði: "Ég er brauðið, sem niður steig af himni,"

42 og þeir sögðu: "Er þetta ekki hann Jesús, sonur Jósefs? Vér þekkjum bæði föður hans og móður. Hvernig getur hann sagt, að hann sé stiginn niður af himni?"

43 Jesús svaraði þeim: "Verið ekki með kurr yðar á meðal.

44 Enginn getur komið til mín, nema faðirinn, sem sendi mig, dragi hann, og ég mun reisa hann upp á efsta degi.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society