Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

New Testament in a Year

Read the New Testament from start to finish, from Matthew to Revelation.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Jóhannesarguðspjall 4:31-54

31 Meðan þessu fór fram, báðu lærisveinarnir hann: "Rabbí, fá þér að eta."

32 Hann svaraði þeim: "Ég hef mat að eta, sem þér vitið ekki um."

33 Þá sögðu lærisveinarnir sín á milli: "Skyldi nokkur hafa fært honum að eta?"

34 Jesús sagði við þá: "Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans.

35 Segið þér ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi yður: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru hvítir til uppskeru.

36 Sá sem upp sker, tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs, svo að sá gleðjist, er sáir, og með honum hinn, sem upp sker.

37 Hér sannast orðtakið: Einn sáir, og annar sker upp.

38 Ég sendi yður að skera upp það sem þér hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað, en þér eruð gengnir inn í erfiði þeirra."

39 Margir Samverjar úr þessari borg trúðu á hann vegna orða konunnar, sem vitnaði um það, að hann hefði sagt henni allt, sem hún hafði gjört.

40 Þegar því Samverjarnir komu til hans, báðu þeir hann að staldra við hjá sér. Var hann þar um kyrrt tvo daga.

41 Og miklu fleiri tóku trú, þegar þeir heyrðu hann sjálfan.

42 Þeir sögðu við konuna: "Það er ekki lengur sakir orða þinna, að vér trúum, því að vér höfum sjálfir heyrt hann og vitum, að hann er sannarlega frelsari heimsins."

43 Eftir þessa tvo daga fór hann þaðan til Galíleu.

44 En sjálfur hafði Jesús sagt, að spámaður væri ekki metinn í föðurlandi sínu.

45 Þegar hann kom nú til Galíleu, tóku Galíleumenn honum vel, þar eð þeir höfðu séð allt sem hann gjörði á hátíðinni í Jerúsalem, enda höfðu þeir sjálfir sótt hátíðina.

46 Nú kom hann aftur til Kana í Galíleu, þar sem hann hafði gjört vatn að víni. Í Kapernaum var konungsmaður nokkur, sem átti sjúkan son.

47 Þegar hann frétti, að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu, fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona.

48 Þá sagði Jesús við hann: "Þér trúið ekki, nema þér sjáið tákn og stórmerki."

49 Konungsmaður bað hann: "Herra, kom þú áður en barnið mitt andast."

50 Jesús svaraði: "Far þú, sonur þinn lifir." Maðurinn trúði því orði, sem Jesús mælti til hans, og fór af stað.

51 En meðan hann var á leiðinni ofan eftir, mættu honum þjónar hans og sögðu, að sonur hans væri á lífi.

52 Hann spurði þá, hvenær honum hefði farið að létta, og þeir svöruðu: "Í gær upp úr hádegi fór hitinn úr honum."

53 Þá sá faðirinn, að það var á þeirri stundu, þegar Jesús hafði sagt við hann: "Sonur þinn lifir." Og hann tók trú og allt hans heimafólk.

54 Þetta var annað táknið, sem Jesús gjörði, þegar hann kom frá Júdeu til Galíleu.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society