New Testament in a Year
29 Daginn eftir sér hann Jesú koma til sín og segir: "Sjá, Guðs lamb, sem ber synd heimsins.
30 Þar er sá er ég sagði um: ,Eftir mig kemur maður, sem var á undan mér, því hann er fyrri en ég.`
31 Sjálfur þekkti ég hann ekki. En til þess kom ég og skíri með vatni, að hann opinberist Ísrael."
32 Og Jóhannes vitnaði: "Ég sá andann koma af himni ofan eins og dúfu, og hann nam staðar yfir honum.
33 Sjálfur þekkti ég hann ekki, en sá er sendi mig að skíra með vatni, sagði mér: ,Sá sem þú sérð andann koma yfir og nema staðar á, hann er sá sem skírir með heilögum anda.`
34 Þetta sá ég, og ég vitna, að hann er sonur Guðs."
35 Daginn eftir var Jóhannes þar aftur staddur og tveir lærisveinar hans.
36 Hann sér Jesú á gangi og segir: "Sjá, Guðs lamb."
37 Lærisveinar hans tveir heyrðu orð hans og fóru á eftir Jesú.
38 Jesús sneri sér við, sá þá koma á eftir sér og sagði við þá: "Hvers leitið þið?" Þeir svara: "Rabbí (það þýðir meistari), hvar dvelst þú?"
39 Hann segir: "Komið og sjáið." Þeir komu og sáu, hvar hann dvaldist, og voru hjá honum þann dag. Þetta var síðdegis.
40 Annar þessara tveggja, sem heyrðu orð Jóhannesar og fóru á eftir Jesú, var Andrés, bróðir Símonar Péturs.
41 Hann finnur fyrst bróður sinn, Símon, og segir við hann: "Við höfum fundið Messías!" (Messías þýðir Kristur, Hinn smurði.)
42 Hann fór með hann til Jesú. Jesús horfði á hann og sagði: "Þú ert Símon Jóhannesson, þú skalt heita Kefas" (Pétur, það þýðir klettur).
43 Næsta dag hugðist Jesús fara til Galíleu. Hann hitti þá Filippus og sagði við hann: "Fylg þú mér!"
44 Filippus var frá Betsaídu, sömu borg og Andrés og Pétur.
45 Filippus fann Natanael og sagði við hann: "Vér höfum fundið þann, sem Móse skrifar um í lögmálinu og spámennirnir, Jesú frá Nasaret, son Jósefs."
46 Natanael sagði: "Getur nokkuð gott komið frá Nasaret?" Filippus svaraði: "Kom þú og sjá."
47 Jesús sá Natanael koma til sín og sagði við hann: "Hér er sannur Ísraelíti, sem engin svik eru í."
48 Natanael spyr: "Hvaðan þekkir þú mig?" Jesús svarar: "Ég sá þig undir fíkjutrénu, áður en Filippus kallaði á þig."
49 Þá segir Natanael: "Rabbí, þú ert sonur Guðs, þú ert konungur Ísraels."
50 Jesús spyr hann: "Trúir þú, af því að ég sagði við þig: ,Ég sá þig undir fíkjutrénu`? Þú munt sjá það, sem þessu er meira."
51 Og hann segir við hann: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð sjá himininn opinn og engla Guðs stíga upp og stíga niður yfir Mannssoninn."
by Icelandic Bible Society