Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

New Testament in a Year

Read the New Testament from start to finish, from Matthew to Revelation.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Lúkasarguðspjall 22:47-71

47 Meðan hann var enn að tala, kom flokkur manna, og fremstur fór einn hinna tólf, Júdas, áður nefndur. Hann gekk að Jesú til að kyssa hann.

48 Jesús sagði við hann: "Júdas, svíkur þú Mannssoninn með kossi?"

49 Þeir sem með honum voru, sáu að hverju fór og sögðu: "Herra, eigum vér ekki að bregða sverði?"

50 Og einn þeirra hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum hægra eyrað.

51 Þá sagði Jesús: "Hér skal staðar nema." Og hann snart eyrað og læknaði hann.

52 Þá sagði Jesús við æðstu prestana, varðforingja helgidómsins og öldungana, sem komnir voru á móti honum: "Eruð þér að fara að mér með sverðum og bareflum eins og gegn ræningja?

53 Daglega var ég með yður í helgidóminum, og þér lögðuð ekki hendur á mig. En þetta er yðar tími og máttur myrkranna."

54 En þeir tóku hann höndum og leiddu brott og fóru með hann í hús æðsta prestsins. Pétur fylgdi eftir álengdar.

55 Menn höfðu kveikt eld í miðjum garðinum og sátu við hann, og Pétur settist meðal þeirra.

56 En þerna nokkur sá hann sitja í bjarmanum, hvessti á hann augun og sagði: "Þessi maður var líka með honum."

57 Því neitaði hann og sagði: "Kona, ég þekki hann ekki."

58 Litlu síðar sá hann annar maður og sagði: "Þú ert líka einn af þeim." En Pétur svaraði: "Nei, maður minn, það er ég ekki."

59 Og að liðinni um það bil einni stund fullyrti enn annar þetta og sagði: "Víst var þessi líka með honum, enda Galíleumaður."

60 Pétur mælti: "Ekki skil ég, hvað þú átt við, maður." Og jafnskjótt sem hann sagði þetta, gól hani.

61 Og Drottinn vék sér við og leit til Péturs. Þá minntist Pétur orða Drottins, er hann mælti við hann: "Áður en hani galar í dag, muntu þrisvar afneita mér."

62 Og hann gekk út og grét beisklega.

63 En þeir menn, sem gættu Jesú, hæddu hann og börðu,

64 huldu andlit hans og sögðu: "Spáðu nú, hver það var, sem sló þig?"

65 Og marga aðra svívirðu sögðu þeir við hann.

66 Þegar dagur rann, kom öldungaráð lýðsins saman, bæði æðstu prestar og fræðimenn, og létu færa hann fyrir ráðsfund sinn.

67 Þeir sögðu: "Ef þú ert Kristur, þá seg oss það." En hann sagði við þá: "Þótt ég segi yður það, munuð þér ekki trúa,

68 og ef ég spyr yður, svarið þér ekki.

69 En upp frá þessu mun Mannssonurinn sitja til hægri handar Guðs kraftar."

70 Þá spurðu þeir allir: "Ert þú þá sonur Guðs?" Og hann sagði við þá: "Þér segið, að ég sé sá."

71 En þeir sögðu: "Hvað þurfum vér nú framar vitnis við? Vér höfum sjálfir heyrt það af munni hans."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society