Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

New Testament in a Year

Read the New Testament from start to finish, from Matthew to Revelation.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Lúkasarguðspjall 12:32-59

32 Vertu ekki hrædd, litla hjörð, því að föður yðar hefur þóknast að gefa yður ríkið.

33 Seljið eigur yðar og gefið ölmusu, fáið yður pyngjur, er fyrnast ekki, fjársjóð á himnum, er þrýtur ekki, þar sem þjófur fær eigi í nánd komist né mölur spillt.

34 Því hvar sem fjársjóður yðar er, þar mun og hjarta yðar vera.

35 Verið gyrtir um lendar, og látið ljós yðar loga,

36 og verið líkir þjónum, er bíða þess, að húsbóndi þeirra komi úr brúðkaupi og þeir geti lokið upp fyrir honum um leið og hann kemur og knýr dyra.

37 Sælir eru þeir þjónar, sem húsbóndinn finnur vakandi, er hann kemur. Sannlega segi ég yður, hann mun gyrða sig belti, láta þá setjast að borði og koma og þjóna þeim.

38 Og komi hann um miðnætti eða síðar og finni þá vakandi, sælir eru þeir þá.

39 Það skiljið þér, að húsráðandi léti ekki brjótast inn í hús sitt, ef hann vissi, á hvaða stundu þjófurinn kæmi.

40 Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi."

41 Þá spurði Pétur: "Herra, mælir þú þessa líkingu til vor eða til allra?"

42 Drottinn mælti: "Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður, sem húsbóndinn setur yfir hjú sín að gefa þeim skammtinn á réttum tíma?

43 Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur.

44 Ég segi yður með sanni: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar.

45 En ef sá þjónn segir í hjarta sínu: ,Það dregst, að húsbóndi minn komi,` og tekur að berja þjóna og þernur, eta og drekka og verða ölvaður,

46 þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi, er hann væntir ekki, á þeirri stundu, er hann veit ekki, höggva hann og láta hann fá hlut með ótrúum.

47 Sá þjónn, sem veit vilja húsbónda síns og hefur ekki viðbúnað né gjörir vilja hans, mun barinn mörg högg.

48 En hinn, sem veit hann ekki, en vinnur til refsingar, mun barinn fá högg. Hver sem mikið er gefið, verður mikils krafinn, og af þeim verður meira heimtað, sem meira er léð.

49 Ég er kominn að varpa eldi á jörðu. Hversu vildi ég, að hann væri þegar kveiktur!

50 Skírn á ég að skírast. Hversu þungt er mér, uns hún er fullnuð.

51 Ætlið þér, að ég sé kominn að færa frið á jörðu? Nei, segi ég yður, heldur sundurþykki.

52 Upp frá þessu verða fimm í sama húsi sundurþykkir, þrír við tvo og tveir við þrjá,

53 faðir við son og sonur við föður, móðir við dóttur og dóttir við móður, tengdamóðir við tengdadóttur sína og tengdadóttir við tengdamóður."

54 Hann sagði og við fólkið: "Þá er þér sjáið ský draga upp í vestri, segið þér jafnskjótt: ,Nú fer að rigna.` Og svo verður.

55 Og þegar vindur blæs af suðri, segið þér: ,Nú kemur hiti.` Og svo fer.

56 Hræsnarar, útlit lofts og jarðar kunnið þér að ráða, en hvernig er því farið, að þér kunnið ekki að meta þennan tíma?

57 Hví dæmið þér ekki af sjálfum yður, hvað rétt sé?

58 Þegar þú ferð með andstæðingi þínum fyrir yfirvald, þá kostaðu kapps um það á leiðinni að ná sáttum við hann, til þess að hann dragi þig ekki fyrir dómarann, dómarinn afhendi þig böðlinum, og böðullinn varpi þér í fangelsi.

59 Ég segi þér, eigi munt þú komast út þaðan, fyrr en þú hefur borgað síðasta eyri."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society